Þegar Stefán varð eldri áttaði hann sig á því að hann þyrfti að vinna úr málinu því það fylgdi honum enn, óttinn og reiðin.
Stefán er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Hann ræðir um Söngvakeppni sjónvarpsins, en hann mun stíga á svið með lagið „Frelsið mitt“ þann 8. febrúar næstkomandi, og árásina sem markaði djúp spor.
Í spilaranum hér að neðan segir hann frá ákveðnum tímamótum, þegar hann fór á fund með einum árásarmannanna fyrir rúmu ári. Brotið er hluti af nýjasta þætti Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify.
Stefán ræddi um árásina og áhrifin sem hún hafði, bæði líkamlega og andlega, fyrr í þættinum. Umrætt brot má horfa á hér, einnig má lesa um það hér.
Hann rifjar upp þegar hann rakst á viðtal við einn árásarmanninn. „Þar sem hann er að tala um sína fortíð og að hann sé kominn á rétta braut. Ég horfði á þetta og var mjög skeptískur til að byrja með en ákvað svo að hlusta á þetta viðtal, sem var í hlaðvarpi,“ segir Stefán.
„Ég var fljótur að gleyma að þetta væri þessi aðili sem ég væri að hlusta á. Þegar því er svo lokið þá fannst mér sagan hans áhugaverð og fannst hann einlægur í þessu og ég fór að hugsa hvort þetta væri tækifæri til að loka þessu alveg. Ég var búinn að fyrirgefa þetta og hugsaði hvort ég gæti tekið þetta skrefinu lengra.“
Stefán hafði tekið ákvörðun nokkrum árum áður að fyrirgefa gerendunum fyrir sig sjálfan og skrifaði færslu á Facebook þar sem hann opnaði sig um málið.
„Ég hafði samband við aðila sem ég þekki sem þekkir hann líka. Það fór í gang smá atburðarás,“ segir Stefán.
„Ég talaði við sálfræðing sem ég hef verið hjá lengi. Ég mæli með að ef fólk telur sig þurfa að tala við sálfræðing þá líklega þarftu að gera það og endilega gerið það. Meira segja þó það sé ekkert að, talið samt við sálfræðing.
Þannig ég talaði við hana og það fór í gang smá undirbúningsvinna, svona „do‘s and dont‘s“ með svona, því þetta er risa mál. Þetta er mál sem er búið að hanga yfir mér hálfa ævina, öll mín fullorðinsár meira og minna. Það verður úr að við hittumst þrír, ég og þessi aðili og svo hans stuðningsmaður með. Það fer fundur í gang og við lokum þessu og gerum þetta upp.“
Maðurinn baðst afsökunar og gengu þeir báðir sáttir frá borði.
„Svo erum við búnir að vera í ágætis sambandi eftir þetta, erum ekkert einhverjir vinir en hann er að standa sig mjög vel þessi maður. Það sem er áhugavert við þessa upplifun og uppgjör er allar þær minningar – sem er þá hálf ævin – sem hafa verið svartar og ljótar og kveikja að mörgum textum sem ég hef gert með Dimmu,sem eru þungir og dimmir og óþægilegir. Allar þessar minningar, þar með talin árásin sjálf, allir litirnir sem voru gráir, þungir og ógeðslegir eru orðnir bjartir. Þetta virðist núna hafa einhvern tilgang. Það er erfitt að útskýra þetta fyrir fólki því fólk hefur almennt ekki upplifað þetta, en ég get sagt að ég er sannarlega búinn að fyrirgefa þetta og hann er búinn að taka því og við erum á toppstað,“ segir Stefán.
„Ég held að eftir þessa upplifun sé þetta sem vanti stundum í samfélagið í dag, það er mikið uppgjör búið að vera í gangi síðustu ár en mér finnst vanta: Og hvað svo? Hvað ætlum svo svo að gera? Það ætlar enginn að sleppa neinu, heldur halda þessu þarna út af einhverju. Það verður bara að sleppa þessu, setja punkt og halda áfram. Þú getur ekki lagað allt.“
Stefán ræðir nánar um fundinn og öllu sem honum fylgdi í spilaranum hér að ofan. Brotið er hluti af nýjasta þætti Fókus sem má horfa á í heild sinni hér eða hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.