„Ég fékk vígslu að geta notað ibogaine og reikna með að ég geri það einn daginn, ég veit ekki hvenær það verður. Í Mexíkó er ibogaine löglegt og þar eru klíník þar sem fólk fer í ibogaine í nokkra daga og endar á 5-MeO sem við þekkjum sem fþroskaeitur. Það virðist gullna blandan til að koma fólki úr ópíóðafíkn,“
segir Sara María Júlíudóttir, sálarmeðferðarfræðingur með sérþekkingu á hugvíkkandi efnum, sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni. Sara er ein þeirra sem telur að framtíð geðlækninga sé falin í notkun hugvíkkandi efna í formi meðferða og undir eftirliti og stjórn fagaðila. Hún hefur sjálf mikla reynslu af slíkum meðferðum en hana langar að sjá Ísland verða leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni. Sara hélt stóra alþjóðlega ráðstefnu um hugvíkkandi efni fyrir tveimur árum, sem þótti gríðarlega vel heppnuð, og nú ætlar hún að endurtaka leikinn í Hörpu í lok febrúar. Þar hafa boðað komu sína mörg af stærstu nöfnum þessara fræða á heimsvísu og ljóst að áhugamenn um hugvíkkandi efni mega alls ekki láta þennan viðburð framhjá sér fara.
Segir Sara að fólk sem hefur verið í alvarlegri fíkn í fjölda ára finni ótrúlegan árangur af slíkri meðferð. Sara segir fólk þurfa að undirbúa sig vel fyrir slíka meðferð og eins að fara ekki aftur í sömu aðstæður og áður að meðferðinni lokinni.
„100% allan daginn,“ svarar Sara aðspurð um hvort slík meðferðarstöð hérlendis myndi skila betri árangri en Vogur og Vík sem SÁÁ rekur.
„Ég tek fram að ég er ekkert að setja út á SÁÁ eða Vog. En það er þessi hugarfarsbreyting sem við erum að leitast við að fólk finni og er verið að leitast við að fólk finni inni á Vogi. En það sem hugvíkkandi efni gera, við erum öll með þetta Pandoras box eða Svarta boxið inni í okkur, sem er yfirleitt ekki hægt að komast að í samtalsmeðferð. Það þarf eitthvað dýpra, eitthvað sterkara til að opna svarta boxið. Þar er sársaukinn, þar eru öll leyndarmálin, þar er líka gullið. Að breyta því sem þú ert búinn að lenda í í gull, ég sé það þannig.“