Magnús sagði þetta vera „ómerkilega þætti um merkilega konu.“
Þættirnir hafa hlotið mikið lof áhorfenda ef marka má umræður á samfélagsmiðlum. Þættirnir eru fjórir í heildina og fjalla um ævi Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.
Sjá einnig: Áhorfendur halda ekki vatni yfir Vigdísi: „Eitthvað það dásamlegasta sem ég hef séð lengi“
Í þáttunum fara þær Nína Dögg Filippusdóttir og Elín Hall með hlutverk Vigdísar á ólíkum æviskeiðum en eins og kunnugt er varð Vigdís árið 1980 fyrst kvenna í heiminum til að verða kjörin forseti í lýðræðislegum kosningum.
Magnús gefur Vigdísi þrjár stjörnur af fimm. Hann segir að um sé að ræða vandaða períódu með flottum búningum, sannfærandi leikmynd og fyrsta flokks leikurum.
„Serían bregst hins vegar áhorfendum þegar kemur að handriti og leikstjórn. Fyrir vikið verður ævi þessarar merkilegu konu óspennandi við áhorfið,“ segir hann.
Ágústa M. Ólafsdóttir og Björg Magnúsdóttir skrifuðu handritið. Björn Hlynur Haraldsson og Tinna Hrafnsdóttir skiptu leikstjórn þáttanna á milli sín.
Magnús segir að það sé vandmeðfarið að búa til skáldævisögulegt efni um raunverulegar persónur, sérstaklega í tilfelli Vigdísar. Þá vegna vinsælda hennar en einnig „vegna þess hve nálægt við erum sögunni í tíma.“
„Stærsta hættan við slíkt er að verða meðvirkur gagnvart umfjöllunarefninu. Það getur annað hvort birst í leiðtogadýrkun eða átakalítilli sögu. Önnur hætta er að taka of mikið skáldaleyfi þannig það valdi óánægju með sannleiksgildi þáttanna. Þriðja hættan er að færast of mikið í fang með því að afmarka ekki söguefnið. Feta þarf ákveðinn milliveg sem tekst bærilega í tilviki Vigdísar,“ segir hann og bætir við:
„Aðstandendur þáttanna eru sekir um vissa hetjudýrkun. Er það kannski óumflýjanlegt í ljósi umfjöllunarefnisins?
Hindranir Vigdísar í þáttunum eru aldrei komnar til vegna breyskleika hennar, þær eru áföll eða óréttlæti sem hún mætir. Þegar hún mætir mótlæti, svo sem í kosningabaráttunni, eru það samantekin ráð ríkjandi afla um að fella hana úr leik. Við sjáum hana varla misstíga sig, hvað þá taka út einhvern þroska. Þættirnir minna þannig á Jesúmynd, minnisvarða um afrek.“
Magnús segir að þættirnir virka vel sem períóda.
„Og það má þakka frábærum búningum Helgu I. Stefánsdóttur og gervum Joséphine Hoy. Leikmynd Heimis Sverrissonar lukkast sömuleiðis mjög vel en það er ekki auðvelt verk í gjörbreyttri borg. Herdísi Stefánsdóttur og Sölku Valsdóttur tekst líka vel í að skapa hljóðheim þess tíma. Það eina sem stingur í stúf er tungumálið sem verður stundum fullnútímalegt.“
Magnús fer vel yfir hvern þátt í gagnrýninni sem má lesa hér. Að lokum segir hann að „fyrir fólk sem dáir Vigdísi Finnbogadóttur mun Vigdís slá rækilega í gegn. Fyrir áhugasama og forvitna um forsetann fyrrverandi vekur þáttaröðin örugglega enn meiri forvitni. Heilt yfir verður serían þó að teljast vonbrigði og má þar kenna átakalítilli sögu um.“
Hann hrósar leikurunum, leikmyndinni og framleiðslunni. „Það sem dregur úr ágæti Vigdísar er handritið og uppbygging þáttanna. Sambönd persóna eru ekki þróuð nægilega til að ákveðnar vendingar hreyfi við manni. Sömuleiðis tekst ekki að búa til nægilega mikla spennu þegar þess þarf. Vigdís þroskast ekkert sem persóna og skortir breyskleika til að verða trúanleg persóna,“ segir hann og bætir við:
„Stóra spurningin sem ákvarðar hvort ævisögulegt efni heppnast eða ekki er: „Myndi ég nenna að horfa áfram ef þetta væri um skáldaða persónu en ekki alvöru manneskju?“ Svarið í tilfelli Vigdísar er því miður: „Nei.““