fbpx
Sunnudagur 02.febrúar 2025
Fókus

Íslenskar konur lýsa ólíkum upplifunum á Ozempic – „Myndi ekki óska mínum versta óvin það sem ég gekk í gegnum“

Fókus
Fimmtudaginn 23. janúar 2025 09:59

Mynd/Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskar konur lýsa ólíkri upplifun af þyngdarstjórnunarlyfjum á borð við Ozempic og Wegovy. Sumar segja þetta alls enga töfralausn en virka, sérstaklega ef fólk leggur inn vinnuna í kjölfarið, eins og varðandi mataræðið. Aðrar hafa aðra sögu að segja, ein segir að hún myndi ekki óska sínum versta óvin það sem hún gekk í gegnum og segir Ozempic hafa eyðilagt hana.

Umræða um þyngdarstjórnunarlyfin fór fram í vinsæla Facebook-hópnum Mæðra Tips í gærkvöldi. Í hópnum eru yfir 32 þúsund meðlimir en kusu flestar konurnar að koma fram nafnlaust varðandi upplifun sína.

„Þið sem hafið prófað einhvers konar þyngdarstjórnunarlyf og verið um 20-30 kg of þungar, hvernig hefur þetta farið í ykkur og hefur þetta virkað?“ spurði ein í hópnum og bætti við: „Er erfitt að fá þetta uppáskrifað hjá lækni.“

Ein kona segir að það sé ekki erfitt að fá lyfið uppáskrifað hjá lækni. „En þarft að uppfylla miklar kröfur til að fá lyfið niðurgreitt,“ segir hún.

Aðrar taka undir og segja að þetta sé mikil fjárhagsleg skuldbinding til frambúðar.

Ekki töfralausn en hverrar krónu virði

„Þetta er engin töfra- eða skyndilausn. Eins og lyfin eru í dag þá er gert ráð fyrir því að maður sé á þeim það sem eftir er. Þetta er skuldbinding, sérstaklega fjárhagslega þar sem þetta er dýrt. En fyrir bætt lífsgæði er þetta hverrar krónu virði,“ segir ein.

Hún hefur verið á lyfinu í um tíu mánuði og misst um 26 kíló. Hún lýsir engum slæmum aukaverkunum nema þegar hún hækkaði skammtinn of hratt en segist sjá mikinn ávinning að vera á lyfinu. „Bæði hafa sykur og kólesteról gildin mín lækkað og PCOS einkenni minnkað til muna,“ segir hún.

Önnur tekur í sama streng og segir að þetta sé vinna:

„Ég er búin að vera á Wegovy (fyrst Ozempic en skipti svo) í tæp 2 ár og ekki fengið slæmar aukaverkanir. Var með smá ógleði fyrst og finn fyrir bakflæði af ákveðnum tegundum af mat.

Ég hef misst frekar hægt – en jafnt og þétt kíló á lyfinu, sem mér finnst líka fínt því fyrir mér er þetta partur af lífsstílsbreytingu en ekki einhver töfralausn. Samtals eru farin hjá mér 27 kíló og ég er loksins í þyngd sem mér líður vel í og farin að geta hreyft mig mikið meira og orðin mikið orkumeiri. Ég er á viðhaldsskammti á lyfinu núna, en þetta er líka mjög dýrt þegar maður fær ekki niðurgreiðslu.

Mesta frelsið hjá mér er að vera með stjórn á átinu hjá mér – geta leyft mér smá súkkulaði án þess að borða tvær stórar súkkulaðiplötur, eða fá mér nokkur snökk en vera ekki viðþolslaus þangað til allt er búið.

En þetta er búið að vera vinna, ég þarf alveg að hafa fyrir því að velja hollari kostinn, ég er búin að berjast við að finna hreyfingu sem mér líkar og líður vel að stunda. það hafa komið tímabil þar sem ég hef staðið í stað og fundist ekkert vera að gerast. En ég er mjög ánægð með ákvörðunina um að hafa byrjað á lyfinu.“

Hætti á lyfinu en líður vel

Einn meðlimur hópsins segir að hún hafi notað lyfið til að koma sér af stað í þyngdartapsvegferðinni. „Ég var á Ozempic í nokkra mánuði. Vantaði bara í raun hjálp við að byrja. Náði góðum árangri með því að gera algjöra lífstílsbreytingu. Hætti að drekka gos og liggja í sætindum sem lyfin hjálpuðu með. Þegar mér fannst ég vera komin með stjórn á því þá hætti ég á lyfjunum og hélt áfram,“ segir hún og bætir við:

„Þeir sem taka bara lyfin en breyta engu munu aldrei ná árangri sem helst.“

„Myndi ekki óska mínum versta óvin það sem ég gekk í gegnum“

Kona segir frá því hvernig allt gekk vel fyrstu mánuðina en síðan fór að halla verulega undan fæti. Hún varð mjög veik andlega og endaði þyngri en þegar hún byrjaði ferlið.

„Ég var á Ozempic í sex mánuði, missti 20 kíló. Ég fann ekkert fyrir aukaverkunum fyrstu mánuðina og leið vel en síðan breyttist allt og ég byrjaði að fá massív líkamleg kvíðaköst við allt og ekkert nokkrum sinnum á dag,“ segir hún og bætir við að hún hafði ekki upplifað kvíða fyrir þetta.

„Þetta var eina lyfið sem ég var á og það gjörsamlega eyðilagði mig, myndi ekki óska mínum versta óvin það sem ég gekk í gegnum mánuðina á eftir… Ég endaði á sobril og sertral og í sálfræðimeðferð.“

Konan segir að henni líður betur í dag. „En úff ég fórnaði því miður andlegu heilsunni minni fyrir þessi 20 kíló og er nú 40 kílóum þyngri í dag eftir að hafa hætt á Ozempic. Þetta er aukaverkun því miður. Ég get því miður ekki mælt með af minni reynslu.“

Fleiri konur hafa svipaða sögu að segja. „Ég var svo veik eftir þessar sprautur. Ég missti um 9 kg á 3 mánuðum en fékk það (og meira) til baka um leið að ég hætti að sprauta mig. Mér var illt í maganum, alltaf með niðurgang og magaverki,“ segir ein.

Önnur lýsir „brjáluðum“ ristilkrömpum af lyfinu Saxenda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Love Island-sigurvegari dæmdur í fangelsi í óvenjulegu máli

Love Island-sigurvegari dæmdur í fangelsi í óvenjulegu máli
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jörundur og Magdalena selja risíbúð í retró-stíl

Jörundur og Magdalena selja risíbúð í retró-stíl
Fókus
Fyrir 4 dögum

Frosti segir langflesta landsmenn ekki kunna að keyra í snjó – „Það er alveg ljóst“

Frosti segir langflesta landsmenn ekki kunna að keyra í snjó – „Það er alveg ljóst“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ugla Stefanía vandar umtöluðustu bíómynd ársins ekki kveðjuna: „Hún er alveg agaleg“

Ugla Stefanía vandar umtöluðustu bíómynd ársins ekki kveðjuna: „Hún er alveg agaleg“