Leikarinn Aron Már Ólafsson ræddi þættina Aftureldingu í hlaðvarpsþættinum Stéttir Landsins. Aron Már sagði frá því hvernig leiksenurnar með Steinda áttu það til að þróast á áhugaverðan og skrautlegan hátt.
Í þáttunum leikur Aron Már pörupiltinn Geirjón, en hann lýsir því hvernig ein af eftirminnilegustu senum þáttanna þróaðist á tökustað.
„Svo náttúrulega frægasta senan í Aftureldingu, talandi um þetta ferli. Þeir voru búnir að skrifa þetta í mörg ár og skrifa gott handrit en þeir eru samt tilbúnir að leyfa okkur að fá hugmyndir,“ segir Aron Már um handritshöfunda þáttanna, Hafstein Gunnar Sigurðsson og Halldór Laxness Halldórsson.
Aðspurður hvort hann hafi fengið að móta setningar og þróa brandara segir Aron Már að hann og Steindi hafi ávallt verið að velta á milli sín pælingum og þannig hafi senan þar sem Geirjón hrækir á Henrý, sem er leikinn af Steinda, orðið til.
„[Senan] með Mountain Dew veipið, ekkert af þessu var skrifað. Þegar þeir gleymdu að segja að segja „cut“. Ég prófa að taka veipið og segja: „Oj, hvað er þetta?“ Steindi stökk til og segir gerum þetta einu sinni enn. Þá fékk Steindi hugmynd og hann hvíslar að mér: „Ekki segja neinum og hræktu á bakið á mér.““
Aron Már segist ekki hafa verið alveg viss hvernig hann átti að bregðast við og efaðist um þetta ráðabrugg Steinda en ákvað að fara eftir ráðum meðleikara síns og spila með.
„Ég er berjast við að hlæja ekki,“ bætti Aron Már við en myndavélarnar fóru skömmu síðar af stað og Aron Már hrækti á bakið á Steinda og áttu starfsmenn á tökustað í mestu erfiðleikum með að halda aftur hlátrinum að hans sögn. Segir hann að þessi taka hafi verið síðan valinn á endanum þrátt að hafa ekki verið í handritinu.
„Það er svo gaman þegar maður lendir í einhverju svona, gera eitthvað skapandi sem virkar svona ógeðslega vel,“ sagði Aron Már um senuna.
Aron Már fer yfir víðan völl í hlaðvarpinu en hann talar meðal annars um litríkar inntökuprufur í leikaranáminu og þegar hann beið í von og óvon um að hitta Jodie Foster á setti. Hlusta má á allt spjallið við Aron á öllum helstu hlaðvarpsveitum sem og tal.is.