Söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir segist hafa þurft að þola ótrúlegt skítkast fyrir að hætta ekki við að keppa í Eurovision á síðasta ári. Hún hafi orðið fyrir skipulagðri aðför og var ráðist að henni með svívirðingum á götum úti og jafnvel í matvöruverslunum. Þetta kemur fram í podcasti Sölva Tryggvasonar.
„Ég tók á móti ótrúlegum skít í kringum allt þetta ferli. Það var uppgötvun fyrir mig að átta mig á því að það væri her af fólki þarna úti sem fylgdi ákveðnum prógrammi til að ráðast á mig á netinu. Það voru send út bréf í hópa sem fólk deildi svo þar sem ég mátti ekki lengur kalla mig móður eða góða manneskju og ég væri að styðja við barnamorð. Þetta var svo sent kerfisbundið á alla mína miðla yfir ákveðið tímabil. Svo var fólk sem hringdi í mig. Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt. Ég lenti líka í því að fólk réðst að mér á almenningsstöðum. Það var ítrekað hrópað á mig úti á götu og ég var króuð af í matvöruverslunum og sitthvað fleira. Sumt af þessu fólki virtist halda að ég væri að fá borgað frá Ísraelsstjórn. Svo var sent á fólkið í kringum mig og það varð oft alveg miður sín, enda ekki vant sviðsljósinu eða áreiti af þessu tagi.“
Hera segir að þegar hún tók að sér að syngja lagið Scared of Heights hafi stríð milli Palestínu og Ísrael enn ekki brotist út. Það gerðist í október árið 2023. Fyrst um sinn gerði Hera bara ráð fyrir því að Ísrael myndi draga sig úr keppninni, en annað kom síðar á daginn. Staðan breyttist svo töluvert þegar í ljós kom að söngvarinn Bashar Murad myndi taka þátt í Söngvakeppninni, en hann er frá Palestínu. Þá varð umræðan um keppnina herskárri en áður.
Hera velti fyrir sér hvort hún ætti að hætta við þátttöku. Hún áttaði sig þá á því að sama hvað hún gerði myndi það engu breyta varðandi stríðið.
„Það sem ég vissi var að það er sama hvað hefði verið gert varðandi Eurovision, það hefði aldrei slökkt í neinu tengt þessu stríði. Það hefði kannski gert fámennan hóp glaðan, en ekkert umfram það,“ sagði Hera og bætti við: „Ég veit alveg hverju ég er góð í og hverju ekki og fyrir hvað ég stend. Ég er alls ekki góð í því að enda stríð í öðrum heimsálfum og hef ekki af því neina reynslu eða pólitískt bakland.“
Hera segir tiltekinn hóp hafa notað sér ástandið til að vekja á sér jákvæða athygli. Þó að Hera segi það ekki berum orðum er hún líklega að vísa til hugtaksins dygðaskreyting, sýndarmennsku sem þjónar þeim tilgangi að sýna félagshóp hversu dyggur maður er og hversu gott siðgæði maður hefur. Hera sagði:
„Það voru aðilar sem notuðu sér þetta ástand til þess að fá jákvæða athygli fyrir sjálfa sig með því að gera í því að segja að samvisku sinnar vegna gætu þau ekki tekið þátt. En í raun snerist það bara um að ganga í augun á háværum hópi af fólki sem fór mikinn á netinu.“
Hera tekur fram að Eurovision eigi ekki að vera pólitískur vettvangur. Keppnin eigi að vera sameiningartákn, tákn gleði og jákvæðni. Það þurfi gleði og jákvæðni til að berjast á móti því þunga og neikvæða í heiminum. Það leysi ekkert að slaufa gleðinni.
„Eurovision er á ákveðinn hátt sameiningartákn og tákn um gleði og jákvæða tíðni. Allur heimurinn er að fylgjast með. Stríð er í eðli sínu mjög lág tíðni á meðan tónlist er í eðli sínu mjög há tíðni þar sem gleði ríkir og fólk fer inn í hjartað. Versti óvinur þeirra sem njóta góðs af stríði er gleði. Ef þú vilt halda fólki í stríðstíðni, þá viltu ekki hafa neina gleði. Ég sé ekki hvernig það eigi að hjálpa stríðum að slökkva á öllu sem er jákvætt og gott. Það að ætla að slaufa hlutum eins og Eurovision er í mínum huga engin leið til þess að laga neitt.“