Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís og kvikmyndagerðarmaður, hefur sett fasteign sína á Hringbraut í Reykjavík á sölu.
„Stórkostlegt tækifæri fyrir þau sem dreyma um fjölskylduhús í vesturbænum nálægt skólanum, frábærum grönnum og öllu því sem gerir vesturbæjarlífið svo dásamlegt,“ segir Hrönn á Facebook.
Húsið er 146,5 parhús á þremur hæðum ásamt garðskála, byggt árið 1934. Húsið er bárujárnsklætt timburhús á steyptum kjallara. Mjög vönduð lóð með skjólveggjum, svölum með geymslu undir, sólpöllum, hellulögn og garðskála með kamínu. Ásett verð er 124,9 milljónir króna.
Á jarðhæð er forstofa, stofa og eldhús í innri enda stofu, með stórri hvítri innréttingu frá ALNO þar sem er svart granít á borðum, glerhurðir með ljósi í efri skápum, flísar á vegg milli skápa og ofan við efri skápa, flísar á gólfi að hluta og vönduð stór gaseldavél með háfi yfir. Úr eldhúsi/borðstofu eru stórar tvöfaldar glerdyr út á svalirnar, sem setja mikinn svip á rýmið og gerbreyta nýtingu hússins.
Á efri hæð eru tvö rúmgóð herbergi og eitt minna inn af hjónaherbergi, sem nýta má sem fataherbergi, og baðherbergi.
Ekki er full lofthæð í kjallara, en þar er fjölskyldurými, inn af því er geymsla, tvö herbergi, auk þess er salerni og þvottahús í kjallara.
Lóðin var öll endurgerð á árinu 2021, Svava Þorleifsdóttir landslagsarkitekt teiknaði garðinn en allar framkvæmdir voru í höndum Garðaþjónustu Íslands. Sólpallar, hellulagt bílaplan, hellur í garði og fallegt gróðurhús í bakgarði setja mikinn svip á lóðina. Árið 2022 var gengið frá kamínu og eftirtektarverðum skorsteini í gróðurhúsið. Samhliða endurgerð lóðarinnar á árinu 2021 voru byggðar timbursvalir við húsið, með aðgengi úr eldhúsi út í garðinn. Svalirnar teiknaði Svava Jónsdóttir arkitekt og auka þær mjög á notagildi hússins.
Finna má frekari upplýsingar um eignina hér.