fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

Fókus
Fimmtudaginn 16. janúar 2025 20:00

Skjáskot af myndbandsupptöku sem sýnir vel hversu gríðarlega erfiðar aðstæður björgunarmenn þurftu að glíma við í Súðavík 16. janúar 1995. Mynd/Skjáskot/RÚV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þess hefur verið minnst í dag að nákvæmlega 30 ár eru liðin frá einum skelfilegasta atburði Íslandssögunnar þegar snjóflóð féll á Súðavík snemma morguns með þeim afleiðingum að 14 íbúar í þorpinu, þar af 8 börn létust. Í upphafi þessa árs tók rannsóknarnefnd til starfa sem ætlað er að rannsaka aðgerðir og ákvarðanir yfirvalda í aðdraganda flóðsins. Í tilefni tímamótanna rifjar DV upp nokkur brot úr fréttaflutningi frá þessum tíma. Hér er ekki um heildstæða upprifjun að ræða heldur aðeins tiltekin dæmi.

Missir okkar allra – Þjóðarharmur

Þann 16. janúar 1995 var mánudagur og því kom Morgunblaðið ekki út en mánudagsútgáfa átti eftir að hefjast síðar. Þann 17. janúar var blaðið hins vegar með ítarlega umfjöllun um snjóflóðið. Rætt var m.a. við Vigdísi Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands sem 16. janúar var viðstödd athöfn í Dómkirkjunni í Reykjavík. Vigdís hélt síðan til Súðavíkur síðar í þessari sömu viku. Vigdís sagði meðal annars við Morgunblaðið:

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum. Land og þjóð eru samofin á ættjörð okkar og atburðir af þessu tagi snerta okkur öll. Ég grét í hjarta mínu með þeim landsmönnum sem eiga um sárt að binda.“

Morgunblaðið vitnaði einnig í ávarp Vigdísar til þjóðarinnar:

„Á stundum sem þeim sem við höfum gengið til móts við í dag finnum við svo vel, Íslendingar, hve mikil ítök við eigum í hjörtum hvers annars og hve samtaða okkar og samhugur er einlægur á raunastundum. Því hvort sem við erum nær eða fjær því svæði sem orðið hefur fyrir miskunnarlausum náttúruhamförum dvelur hugur okkar hjá öllum þeim sem að hefur verið höggvið. Missir eins er missir okkar allra.“

Margt brestur í hamförum

Í Morgunblaðinu þennan sama dag, 17. janúar 1995, kom einnig fram að svæðið sem snjóflóðið féll á í Súðavík hafi þá verið utan kortlagðra hættusvæða. Aðspurður hvort þetta væri ekki áhyggjuefni sagði Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra meðal annars:

„Ég held að menn hafi reynt að sýna árvekni en þegar náttúran fer slíkum hamförum og þarna gerðist vill margt bresta, líka sú þekking sem menn hafa búið yfir. Það er hins vegar enginn vafi á því að þessir atburðir verða til þess að menn munu endurmeta þessa hluti.“

„Þetta er ógeðslegt“

Ein af þeim sem komust lífs af úr flóðinu var Guðrún Elvarsdóttir sem þá var 16 ára gömul. Hún lenti undir snjó en náði að komast upp úr honum og komast við illan leik út úr stórskemmdu húsi fjölskyldunnar ásamt móður sinni, bróður sínum og vini hans en fjölskyldufaðirinn var við vinnu utan heimilisins þegar flóðið skall á. Guðrúnu var skiljanlega verulega brugðið og sagði við Morgunblaðið:

„Þetta er ógeðslegt. Ef eitthvað gerist finnst mér alltaf eins og ég sé að lenda í snjóflóði og fæturnir á mér kremjast, alveg eins og þegar snjórinn for yfir mig.“

„Ég var nýbúin að lesa að maður ætti ekki að þjappa snjóinn ef maður lenti í flóði. Ég fór að hamast og komst upp úr snjónum og öskraði því ég var svo hrædd. Ég sá ekki neitt. Ég heyrði svo bróður minn og vin hans kalla í mig en þeir voru innar í húsinu og þegar mamma náði hurðinni frá sagði hún okkur að koma til sín.“

Hafði tilfinningu fyrir því að eitthvað væri í aðsigi

Móðir Guðrúnar, Anna Sigurðardóttir, ræddi við DV og var viðtalið hluti af ítarlegri umfjöllun daginn eftir flóðið, 17. janúar. Anna sagði svo frá:

„Ég vaknaði upp við ofsalegan hávaða og svo var dauðaþögn. Ég leit í kringum mig og sá að kominn var mikill snjór í svefnherberginu. Ég svaf í öllum fötunum af því ég hafði einhverja tilfinningu fyrir því að eitthvað væri í aðsigi.“

„Ég byrjaði á því að hlusta eftir börnum mínum en heyrði ekki neitt. Ég reyndi að komast út úr herberginu og fram á gang. Ég gat ekki opnað hurðina. Hún var löskuð og ég náði að brjóta hana upp. Þegar ég komst fram á ganginn sá ég börnin koma skríðandi ofan á snjónum sem náði langt upp á veggi. Ég tók þau inn í herbergið til mín.“

Anna og börnin komust síðan út um glugga á húsinu.

Algerlega tómur

Mikill var missir Hafsteins Númasonar, sem var á sjó þegar flóðið féll, og þáverandi eiginkonu hans Berglindar Kristjánsdóttur. Berglind komst lífs af úr flóðinu en börnin þeirra þrjú Hrefna Björg 7 ára, Kristján Númi 4 ára og Aðalsteinn Rafn 2 ára létust öll. Hafsteinn þótti sýni aðdáunarverðan styrk þegar hann ræddi missinn við fjölmiðla þegar staðfest var að börnin væru öll látin. Í viðtali við helgarblað DV sem kom út fimm dögum eftir snjóflóðið, þann 21. janúar 1995, sagði Hafsteinn meðal annars um það þegar honum og Berglindi voru færð þau tíðindi að staðfest væri að börnin væru öll látin:

„Þarna á sjúkrahúsinu voru okkur allar bjargir bannaðar. Þegar tíðindin komu fannst mér ég verða algerlega tómur. Ég forðast að hugsa um þetta. Ég veit þau eru dáin en ég hef ekki þrek til að standa undir því. Við Berglind höldumst í hendur og reynum að yfirstíga áfallið en þetta verður erfitt, ekki síst nú þegar við þurfum að undirbúa jarðarförina. Staðreyndirnar blasa við manni og minningarnar sækja á. Ég hef ekki verið trúaður maður en undanfarna daga hef ég lagst á bæn. Maður gerir hvað sem er til að fá frið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina