Áhrifavaldurinn Bella, sem gengur undir nafninu Steak and Butter Gal á samfélagsmiðlum, segir að magnaðir hlutir hafi gerst þegar hún hætti að borða ávexti, grænmeti og mat sem innihélt kolvetni fyrir sex árum síðan. Bendir hún á að andleg heilsa hennar hafi batnað, jafnvægi hafi komist á tíðahring hennar og þá hafi húðvandamál eins og bólur og exem horfið eins og dögg fyrir sólu.
„Ég er ekki að þjást lengur af lágu orkustigi og hormónarnir eru í góðu jafnvagi,“ segir hún í myndbandi þar sem hún sést leggja sér heilan grillaðan kjúkling til munns. Þá kveðst hún hafa lést um 11 kíló á þessum árum, það sé ekki lengur vont að fara á túr, kynhvötin sé meiri og þá sé orkustigið hennar mjög stöðugt og gott – sem og skapið.
Mail Online segir frá þessu og bendir á að mataræðið sem Bella fylgir gangi gegn ráðleggingum breskra heilbrigðisyfirvalda sem hvetja fólk til að borða fjölbreytta fæðu sem meðal annars inniheldur kolvetni. Þá hafi heilbrigðisyfirvöld bent á að mataræði sem inniheldur kjöt að mestu – sérstaklega nautakjöt og lambakjöt – tengist aukinni hættu á ýmsum sjúkdómum, til dæmis hjartasjúkdómum og krabbameinum.
Vinsældir carnivore-mataræðisins hafa aukist á undanförnum árum og á Íslandi er til dæmis Facebook-hópur tileinkaður þessum lífsstíl sem telur yfir fimm þúsund meðlimi. Segja margir að mataræðið hafi gert mikið fyrir þá. Meðal þekktra talsmanna carnivore-mataræðisins eru til dæmis Joe Rogan og Jordan Peterson.
Bella er einnig í þessum hópi og segir hún að líf hennar sé allt annað og betra eftir að hún byrjaði að fylgja þessu mataræði. Hún þurfi varla að leysa vind lengur og þá komi sárasjaldan svitalykt af henni.
En sem fyrr segir hefur kjötætumataræðið verið umdeilt eins og til dæmis kom fram í grein þeirra Guðrúnar Nönnu Egilsdóttur og Daggar Guðmundsdóttur, meistaranema í næringarfræði, í fyrrasumar.
Taka fyrir umdeilt mataræði hjá stæltum áhrifavöldum – Segja ómenntaða „sérfræðinga“ orsaka óreiðuna