Áhrifavaldurinn Nökkvi Fjalar Orrason er snúinn aftur á samfélagsmiðla eftir árs pásu. Segist hann ætla að deila reynslu sinni með fólki.
„Fyrir ári síðan tók ég mér hlé frá samfélagsmiðlum til að einbeita mér að því að byggja upp fyrirtækið mitt,“ segir Nökkvi Fjalar í færslu á Instagram. En slíka hefur hann ekki skrifað um langa hríð. „Á aðeins einu ári hef ég vaxið meira, sem persóna og sem fagmaður, en ég gerði á heilum áratug þar á undan.“
DV hefur greint frá samfélagsmiðlahvarfi Nökkva Fjalars. En upphaflega sagðist hann aðeins ætla að hverfa í 90 daga. Það teygðist fram á sumarið, svo haustið og loks í heilt ár. Nökkvi Fjalar hætti að fylgja 460 manns á Instagram og fjarlægði hátt í eitt þúsund færslur.
Kallaði Nökkvi Fjalar þetta „Operation: Disappear“. En í því fólst að hann myndi ekki iðka samfélagsmiðla, vakna fyrir klukkan 5 á hverjum morgni, borða hreint fæði, fasta þrisvar í viku í heilan sólarhring, fara í ræktina 6 sinnum í viku, taka vítamín og bætiefni daglega, taka svokallaðan „kraft klukkutíma“ á hverjum morgni, lesa eða hlusta á 24 bækur, ekki stunda neina sjálfsfróun og síðast en ekki síst, leggja allt í þetta.
„Ég setti mér djörf og metnaðarfull markmið fyrir árið 2024 og ég lofaði sjálfum mér því að ég myndi ekki snúa aftur hingað fyrr en ég væri búinn að ná þeim,“ segir Nökkvi Fjalar í færslunni. „Jæja, hérna er ég, áður en ég næ að uppfylla þessi markmið.“
Hvers vegna hann gerði það er af því að hann telur ferðalagið sjálft vera mikilvægara en áfangastaðinn. Hann segist hafa ákveðið að snúa til baka til þess að deila sögunni af þessu ferðalagi, lærdómnum og hvað hann sé að gera til þess að ná að uppfylla drauma sína.
„Gerum það ómögulega mögulegt aftur,“ segir Nökkvi Fjalar að lokum.
View this post on Instagram