Jón Eyþór Gottskálksson samkvæmisdansari, sem varð landsþekktur árið 2020 vegna þáttöku hans í sjónvarpsþáttunum Allir geta dansað, greinir frá krabbameinsveikindum móður sinnar, Eddu Sverrisdóttur, í færslu á Instagram. Faðir hans, Gottskálk Friðgeirsson, glímir við tvö krabbamein, 4. stigs í blöðruhálskirtil og hvítblæði.
Í færslunni fjallar Jón Eyþór um allt það góða, slæma og átakanlega sem lífið hefur upp á að bjóða.
Jón Eyþór segir að allt hafi breyst þegar móðir hans var greind með briskrabbamein á fjórða stigi, en hann var þá staddur í Asíu og hafði í huga að selja allt og flytja til Tælands.
„Elsku mamma sín, ástin, árið og lífið. Nú fer að verða liðið ár síðan móðir mín greindist með 4. stigs briskrabbamein. Þegar þessar hræðilegu fréttir bárust breyttist allt. Ég var staddur á eyjunni Borneó í Asíu. Rétt á undan hafði ég sent fjölskyldu og vinum þau skilaboð um að ég væri að koma heim til Íslands aðeins til að selja allt sem ég átti og ætlaði að flytja til Taílands. Eins og gefur að skilja þá var þetta plan út um gluggann. Nú var planið að koma heim og vera foreldrum mínum til halds og trausts. Því ekki má gleyma því að faðir minn er með 2 krabbamein sjálfur, 4. stigs blöðruhálskirtil og hvítblæði.
Ég kom til Íslands og hef verið að gera allt sem í mínu valdi stendur til að aðstoða foreldra mína og vera besti sonur sem hugsast getur. Fljótlega eftir að ég kem heim tökum við Birna Ósk mín upp þráðinn aftur eftir að hafa ákveðið að fara hvort í sína áttina ári áður. Síðastliðið sumar keyptum við okkur sæta íbúð í Vesturbænum sem við elskum og ég fór að vinna sem leiðsögumaður aftur á fullu. Móðir mín fær síðan blóðtappa í heilann og fyrir algjöra tilviljun finnst krabbamein í heilanum á henni. Það fannst snemma sem var jákvætt upp að vissu marki. En þýddi að krabbameinið var að dreifa sér. Áframhaldandi „chemo“ og geislameðferðir, og endalaus lyf var staðan.”
Jón ásamt móður sinni Mynd: Instagram
Í fríi þegar annað áfall reið yfir
Jón Eyþór og Birna ákváðu að fara til Thailands í nóvember síðastliðnum til að endurhlaða batteríin, ætlunin var að vera í 1-2 mánuði. Segist Jón Eyþór hafa verið með veika von í hjarta að móðir hans hefði heilsu til að komast út til þeirra og eiga góðar stundir saman.
„Eftir 11 daga í paradís fékk Birna einar verstu fréttir sem hún gat fengið. Móðurbróðir hennar hafði tekið eigið líf. Hann var hennar mesti klettur og hafði hjálpað henni á öllum sviðum lífsins og er ástæðan fyrir því að hún er edrú í dag. Því miður þá varð þunglyndið og kvíðinn honum ofurliði. Það eina í stöðunni var að drífa sig heim og sorgin búin að vera mikil síðan þá.”
Jón Eyþór og Birna kepptu í Spartan hlauðinu í nóvember 2024. Mynd: Instagram
Jólahátíðin og áramótin voru eðlilega erfið að sögn Jóns Eyþórs og ekki mikill hátíðarandi hjá honum og hans nánustu.
„Hátíðirnar snerust svolítið um að finna út hvað mamma hefði lyst á og fá hana til að reyna borða eins mikið hún getur. Það tekur svakalega á konu yfir 70 ára að vera endalaust að fá dælt í sig eitri á hálfs mánaðar fresti. Fyrri vikan fer í mikla vanlíðan, ógleði, hægðavandamál og allt helvítis ógeðið sem fylgir þessu. Þegar líður á viku tvö og heilsan aðeins að braggast þá, meira eitur. Þetta er lífshringekjan sem móðir mín er föst í. Í gegnum þetta allt saman hefur móðir mín verið svo jákvæð og bjartsýn að það er ótrúlegt. Hún segir trekk í trekk: „I’m a warrior“. Sem hún er!“
Krabbameinið búið að dreifa sér
Nýlega reið nýtt áfall yfir, krabbameinið hefur dreift sér í lifrina. „Þetta þýðir að mamma er nú með krabbamein í brisi, heila og lifur. Þessar fréttir eru yfirþyrmandi, en hvað er hægt að gera? Við biðjum og vonum það besta.“
Jón Eyþór fagnar fimm og hálfs árs edrúafmæli sínu um þessar mundir og segir það mikinn sigur. Hann hefur verið duglegur að rækta og efla andlega og líkamlega heilsu sína til að halda jafnvægi í gegnum öldusjó lífsins.
„Ég hef sjálfur reynt að halda líkamlegri og andlegri heilsu í gegnum allt þetta. Ég æfi CrossFit, keppi í Hyrox, hleyp og geri allt sem ég get til að halda jafnvægi. Nú í janúar náði ég þeim merka áfanga að hafa verið edrú í fimm og hálft ár. Þetta gefur mér styrk til að halda áfram að vera til staðar fyrir mömmu, pabba og alla sem ég elska.“
Hann segir ástæðuna fyrir svo persónulegum skrifum vera einfalda:
„Ég vil minna alla á að vera góð við fólkið sitt. Að vera til staðar, því maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Það er ákveðin fegurð í því óvissuástandi sem lífið er. Ég mun halda áfram að vera besta útgáfan af sjálfum mér og aldrei gefast upp.”