fbpx
Sunnudagur 12.janúar 2025
Fókus

Birti gamla mynd af þjóðþekktum mönnum til að sýna breytta tíma – „Bundu bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn“

Fókus
Laugardaginn 11. janúar 2025 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason birti mynd í dag á Facebook sem honum þykir sýna breytta tíma hvað varðar samgöngumáta hér á landi. Á myndinni eru þjóðþekktir menn sem voru töluvert á undan sinni samtíð.

„Hér er ljósmynd sem hefur skotið upp víða á Fésinu og sýnir breytta tíma varðandi hjólreiðar. Á myndinni eru tveir þekktir hjólandi borgarar sem bundu bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn.“

Tvær goðsagnir

Annar maðurinn á myndinni var Jóhannes Jónasson sem var betur þekktur Jói á hjólinu. Hann var goðsögn í Kópavogi og fór allar sínar leiðir á hjóli. Fyrir vikið hlaut hann viðurkenningu frá Sögufélagi Kópavogs og titilinn Sögulegur reiðhjólameistari Kópavogs. Hann hjólaði allt undir það seinasta en Jóhannes lést þann 27. október, árið 2023.

Hinn maðurinn er Þorvaldur Norðdahl, betur þekktur sem Valdi koppasali. Hann hlaut viðurnefni sitt frá hjólkoppum sem hann hóf að safna frá 10 ára aldri og seldi frá heimili sínu. Hann er nú á áttræðisaldri.

Egill segir að bæði Þorvaldur og Jóhannes hafi verið á undan sinni samtíð á myndinni en þegar Egill var barn þá þekktist varla að aðrir en börn væru á hjóli.

„Sendlar, fáeinir eldri verkamenn og svo fólk sem var talið skrítið. Stefán Karlsson handritafræðingur var glæsilegur maður með mikið og virðulegt skegg. Hann fór um Reykjavík á stóru svörtu hjóli enda hafði hann vanist á slíkan ferðamáta í hinni miklu hjólaborg Kaupmannahöfn þar sem hann bjó áður. En þetta þótti dálítið ankanalegt. Stefán sagði einhvern tímann þá sögu að hann hefði verið að hjóla á leiðinni í Háskólann og þá hefði stokkið fram drengur sem myndaði líkt og byssu með höndunum og hrópaði: „Bang, bang, kommúnisti, bang, bang!“ Nú eru sannarlega aðrir tímar með spandexklæddu hjólafólki á fleygiferð út um borg og bý, og þykir ekki skrítið.“

Vakti aðdáun krakkanna í Kópavogi

Árni Páll Árnason, varaforseti Eftirlitsstofnunar EFTA, skrifar í athugasemd að hann muni vel eftir Jóa á hjólinu.

„Jói var líka með loftnet, eins og var á bílum með talstöð og „laus“ skilti á sveif á stýrinu eins og var í mælaborði leigubíla á þeim tíma þegar ljós voru ekki endilega á þakinu; þetta vakti gríðarlega aðdáun okkar krakkanna í Kópavoginum.“

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur tók fram að það voru fleiri sem hjóluðu á síðustu öld en þessir tveir.

„Ekki síst fyrir einkabílabyltinguna í kjölfarið á skattlausa árinu. Þegar ég bjó í Vesturbænum í Reykjavík á árunum fyrir aldamót hjólaði ég yfirleitt allra minna ferða enda miklu þægilegri ferðamáti. En maður var nú bara í fötunum sínum og var ekkert með neina turbo-tilburði.“

Egill svaraði Guðmundi og minnti á að hann tók sérstaklega fram að verkamenn hefðu sést á hjólum. „Það var talsvert af þeim á hjólum í vesturborginni, ekki síst karlar sem unnu á hafnarsvæðinu og bjuggu sumir í gömlu Verkó. Svo ætti Steingrímur, stundum kallaður launaskalli, faðir Einars Steingrímssonar, að fá honourable mention.“

Þórunn Sveinbjarnardóttir þingmaður Samfylkingarinnar rifjar upp að þegar hún var í menntaskóla hafi einn nemandi hjólað langa leið í skólann, enda að æfa sig fyrir Ólympíuleikana.

Heimir Björn Janusarson, umsjónarmaður Hólavallagarðs, tók fram að á Akranesi var mikil hjólamenning fram yfir 1970. Þá hjóluðu heilu hóparnir í vinnu, í og úr hádegismat og svo heim á kvöldin.

Karl og kona á hjóli

Fleiri hafa tjáð sig um færslu Egils og lýst eigin reynslu af því hvað hjólreiðar þóttu óvenjulegar hjá fullorðnu fólki hér á árum áður. Einn minntist þess að þegar faðir hans hjólaði um Reykjavík og þá var galað að honum úr öllum áttum: „Karl á hjóli“. Þótti þetta klárlega fráleit sjón. Eins hafi það gjarnan verið svo að ef einhver ætlaði sér að skipta um ferðamáta og byrja að hjóla þá fóru af stað sögur um að viðkomandi hefði misst bílprófið. Það er ekki svo í dag. Aðrir höfðu lent í því að á þá var kallað þegar þeir sáust á hjóli og ein kannaðist við að hafa sjálf bent og kallað á hjólreiðafólk: „Þegar við krakkarnir sáum fyrirbærið konu á hjóli, bentum við á hana og hrópuðum: Kona á hjóli, kona á hjóli.“

Árni Snævarr upplýsingafulltrúi tók þó fram að á myndina vantar Árna Bergmann, rithöfund og fyrrverandi ritstjóra Þjóðviljans, sem tók aldrei bílpróf og lýsti því í samtali við mbl.is árið 2020 að hann hefði í 60 ár notað reiðhjólið til að komast milli staða og þakkaði hjólreiðunum að vera enn við góða heilsu.

Fleiri voru nefndir til sögunnar, Karl Guðmundsson leikari, Gauti smíðakennari í Miðbæjarskólanum og arkitektinn Úlrík Artúrsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er skjáfíkn raunverulegur sjúkdómur?

Er skjáfíkn raunverulegur sjúkdómur?
Fókus
Fyrir 2 dögum

Davíð Goði: „Mér datt aldrei í hug að ég myndi missa heilsuna eða standa andspænis dauðanum aðeins 26 ára gamall“

Davíð Goði: „Mér datt aldrei í hug að ég myndi missa heilsuna eða standa andspænis dauðanum aðeins 26 ára gamall“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þessar stjörnur misstu heimili sín í Los Angeles – Mörg þekkt nöfn á listanum

Þessar stjörnur misstu heimili sín í Los Angeles – Mörg þekkt nöfn á listanum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bergsveinn var sannfærður um að þessi efni væru stórskaðleg – „En forvitni mín varð sterkari en dómharkan“

Bergsveinn var sannfærður um að þessi efni væru stórskaðleg – „En forvitni mín varð sterkari en dómharkan“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ragga varpar ljósi á sannleikann um detox-kúra – Þess vegna eru þeir alls ekki sniðugir

Ragga varpar ljósi á sannleikann um detox-kúra – Þess vegna eru þeir alls ekki sniðugir
Fókus
Fyrir 4 dögum

Einbýlishús í Laugardalnum til sölu á 127 milljónir – Fullkomin eign fyrir tryllt garðpartý

Einbýlishús í Laugardalnum til sölu á 127 milljónir – Fullkomin eign fyrir tryllt garðpartý