fbpx
Miðvikudagur 08.janúar 2025
Fókus

Ragga varpar ljósi á sannleikann um detox-kúra – Þess vegna eru þeir alls ekki sniðugir

Fókus
Þriðjudaginn 7. janúar 2025 21:30

Ragga Nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nú makar megrunarbransinn krókinn á örvæntingu og vonleysi þeirra sem vilja losna við jólavömbina. Eitt af því sem ríður húsum á þessum árstíma eru detox kúrar,” segir Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, í pistli á Facebook-síðu sinni.

Ragga, sem er meðal annars sálfræðingur og einkaþjálfari, gerir þar detox-kúra að umtalsefni en eins og hún bendir á eru margir sem byrja nýtt ár á að taka heilsuna og lífsstílinn í gegn. Hún segir að megrunarbransinn telji fólki trú um að líkami þeirra sé stútfullur af eitri sem muni hafa stórkostlega skaðleg áhrif á heilsuna.

„Eina lausnin til að skúra öllum þessum hættulegu eiturefnum út sé að svolgra rándýra djúsa úr flöskum mörgum sinnum á dag í nokkrar vikur og pissa átján sinnum á dag. Til viðbótar má bæta við nokkrum laufblöðum í kvöldmat og narta í örfáar möndlur milli mála. Þá mun líkaminn “afeitrast” frá einhverjum efnum sem aldrei eru útlistuð,“ segir Ragga í grein sinni.

Stuðla vissulega að þyngdartapi en…

Hún bendir á að mannslíkaminn hafi í árþúsundir passað ágætlega upp á að eiturefni komist ekki inn og þegar það gerist losa sig við þau. Detox-kúrar séu ekki nýir af nálinni og rifjar hún upp að mannskepnan hafi reynt að losa eitur úr líkama sínum í árhundruði.

„Frumbyggjar Bandaríkjanna svitnuðu í tjöldum til að hreinsa skrokkinn, og allt framá 20. öldina voru föstur, stólpípur og blóðtökur notaðar í lækningaskyni til hreinsunar. En á síðari árum hafa dítoxaðferðir verið notaðar bæði til að skúra út öllu þessu eitri sem greinilega er að byggjast upp í líffærunum, sem og leið til að sparka fitutapi í gang,“ segir Ragga.

Hún segir að djúskúrar sem samanstanda af hinum ýmsu ávöxtum og grænmeti tættum í blandara með allskonar duftum geti innihaldið of mikið af oxalate sem er í miklu magni í spínati og rauðrófum og getur haft skaðleg áhrif á nýrun.

En eru djúskúrar þá ekki góðir fyrir líkamann? Ragga segir að slíkir kúrar plús nokkur salatblöð og örfáar möndlur stuðli vissulega að þyngdartapi.

„Athugið að hér er sagt ÞYNGDARtap en ekki FITUtap. Því líkaminn losar sig við mikið vatn þegar kolvetni eru skorin við nögl því þau binda 3 grömm af vatni fyrir hvert gramm. Að sama skapi eru hitaeiningarnar afar fátæklegar og laaaaangt undir daglegri þörf.  Prótín fær að kíkja í partýið í mýflugumynd sem þýðir að vöðvamassinn hefur ekkert byggingarefni og yfirgefur bygginguna ansi hratt. Fitusýrurnar sem sjá um heilbrigð hormón fá rétt að stinga hausnum inn,“ segir Ragga og bendir á að fáar hitaeiningar plús minni vöðvamassi og hormónakerfi á felgunni sé skotheld uppskrift að lægri efnaskiptahraða og hraðri fitusöfnun síðar meir.

„Því þyngdartapið sem gerðist á þessum rándýru dögum kemur allt til baka og kílóin taka yfirleitt vini sína með þegar fólk byrjar að borða aftur eins og eðlileg manneskja í siðuðu samfélagi.“

Margvísleg áhrif

Ragga segir að vísindamenn hafi skoðað þetta.

„Yfirlitsgrein frá 2015 fann engar rannsóknir sem styðja við fullyrðingar um að dítoxkúrar stuðli að þyngdartapi né hreinsi líkamann. Önnur yfirlitsgrein frá 2017 segir að djúsar og dítox stuðli að þyngdartapi til skamms tíma en meiri þyngdaraukningu þegar fólk byrjar aftur að borða fasta fæðu. Adam er því aðeins í skitið kortér í Paradís,“ segir hún og nefnir að hungrið fái fólk oft til að „stinga sér á bólakaf“ í einföld kolvetni eftir slíka kúra sem aftur hefur í för með sér skömm, samviskubit og sektarkennd.

„Lágar hitaeiningar keyra upp kortisól og streitu sem stuðlar að pervertískum löngunum í sykur og slikk. Hátt kortisól og lágar hitaeiningar hafa líka áhrif á svefngæðin sem síðan hefur áhrif á skapið, hormóna og frammistöðu í vinnu og á æfingum. Það rífur enginn í járn af krafti með nokkur spínatblöð í mallakút.“

Ragga endar grein sína á þeim orðum að detox-kúrar stuðli að óheilbrigðu sambandi við mat með ‘Allt-eða-ekkert’ nálgun sem sveiflast frá einum öfgum til annarra.

„Rannsókn sem skoðaði hegðun og hugarfar hjá fólk í djúsaföstunámskeiði og niðurstöður sýndu samband milli dítoxaðferða og átraskana. Matvælastofnun Bandaríkjanna (FDA) hafa sektað fyrirtæki sem auglýsa dítox og hreinsanir því þau innihalda skaðleg efni eða halda fram fölskum fullyrðingum um að lækna sjúkdóma. Dítox kúrar tæma ristilinn, vatnsbirgðir og budduna. Fitubirgðirnar sitja hinsvegar pikkfastar á sínum stað.Getum við plís og por favor hætt að úsa út skilaboðum um að borða minna og vera minni og mjórri.“

Ragga leggur þess í stað til þess að fólki borði prótín, nóg af flóknum kolvetnum, lyfti lóðum, drekki vatn, labbi daglega og sofi vel. „Gamla stöffið virkar best fyrir hraustan líkama og heilbrigt samband við mat. Borðum vel, verum sterk, hvílum vel og höldum jafnvægi í heilsunni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Rekinn frá West Ham
Fókus
Fyrir 2 dögum

Íslensk hryllingsmynd vekur athygli í Bandaríkjunum – The Damned fær mikið lof gagnrýnenda

Íslensk hryllingsmynd vekur athygli í Bandaríkjunum – The Damned fær mikið lof gagnrýnenda
Fókus
Fyrir 2 dögum

Brandararnir sem slógu í gegn og sá um Diddy sem féll ekki í kramið – „Stærsta kvöld Ozempic“

Brandararnir sem slógu í gegn og sá um Diddy sem féll ekki í kramið – „Stærsta kvöld Ozempic“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Heilsumarkþjálfinn Erla nefnir dæmi um vörur sem hún segir markaðssettar sem heilsuvörur – „Sem eru það ekki, heldur gjörunnin matvæli“

Heilsumarkþjálfinn Erla nefnir dæmi um vörur sem hún segir markaðssettar sem heilsuvörur – „Sem eru það ekki, heldur gjörunnin matvæli“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáandi sem spáði fyrir Covid telur að ýmsar hörmungar muni ríða yfir á þessu ári

Sjáandi sem spáði fyrir Covid telur að ýmsar hörmungar muni ríða yfir á þessu ári