Linda Pétursdóttir fegurðardrottning og lífsþjálfi er gestur Einars Bárðarsonar í nýjasta þættinum af Einmitt. Linda og Einar ræða árið sem Linda var valin Miss World (Ungfrú Heimur), aðdragandann og það sem kom í framhaldinu. Linda var 18 ára þegar hún sigraði keppnina og á árinu sem fylgdi heimsótti hún yfir tuttugu lönd og mörg þeirra nokkrum sinnum. Í framhaldi tók við fyrirsætuferill í Tokyo og Mílanó og þannig byrjaði lífið sem sannkallað ævintýri fyrir Lindu sem til þessa hafði aðeins unnið í frystihúsi.
„Bara á tærri íslensku þá er ég í grunninn landsbyggðartútta,“ segir Linda þegar talið berst að lífinu og hvar henni líði best. „Þannig hefur það hentað mér mjög vel að halda heimili á Álftanesi, sjórinn og kyrrðin eru þar.”
Á sama tíma hefur Linda dvalið langdvölum erlendis bæði í leik og starfi og lengst í Vancouver í Kanada. „Mér líður vel innan um margmenni í stórborgum þó ég sé mjög heimakær.“ Hluti af því að vera erlendis er að vera ein af manneskjunum í mannhafinu. „Það er hluti af frelsinu,“ segir Linda. Sem segir að þrátt fyrir að það sé hluti af sínum veruleika hérna heima að allir þekki sig og þannig sé frelsi að „týnast“ í mannhafinu erlendis.
Tal þeirra Einars og Lindu berst að Kanada en Linda hefur búið þar tvisvar um nokkurt skeið. Fyrst þegar hún var ennþá í rekstri með Baðhúsið. „Ég ákvað að fara að læra grafíska hönnun sem hjarta mitt sló algjörlega fyrir.“
Eftir fyrstu heimsókn hennar til Vancouver var ekki aftur snúið „Það var vá hér vil ég eiga heima, þetta er bara fallegasti staður í heimi,“ segir Linda. „Fólkið er evrópskt þenkjandi en öll gæði Bandaríkjana eru þarna, alveg geggjuð blanda. Ég elska stílinn, heimilin og veitingastaðina. Í Vancouver ertu með sjóinn, fjöllin og þú ert með æðislega borg.“
„Við fluttum svo aftur heim í janúar 2020 og nokkrum vikum seinna var búið að loka öllu,“ segir Linda þegar talið berst að síðustu misserum í hennar lífi. „Planið var alltaf að Ísabella dóttir mín myndi klára 10. bekk hérna heima en ég ákvað þegar hún fæddist að ég myndi sýna henni heiminn og hún er núna 19 ára og búin að koma til tuttugu og eitthvað landa.“
Í dag er Ísabella á fyrsta ári í námi við Kings College í London. „Þannig að núna er að byrja nýtt tímabil í mínu lífi,“ segir Linda.
50 ára í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði
„Ég kláraði nám í heimspeki, hagfræði og stjórmálafræði árið sem ég varð fimmtug,” segir Linda. „Það bara opnaði svona aukavídd í heilanum á mér. Þetta var svona áskorun bara á mig. Ég ætlaði ekkert að fara inn á þing eða neitt svoleiðis með stjórnmálagráðuna. Þetta var bara til efla sjálfa mig.“
Örfáum mánuðum síðar var Linda aftur komin á skólabekk og þá til að læra lífsþjálfun. „Í lífsþjálfun er maður mikið að vinna með hugarfarið og við vinnum eftir ákveðnu líkani.“
Þess utan lærði hún grafíska hönnun í Kanada og nú síðast lauk hún meistaranámi í lífsþjálfun.
Í dag er Linda búin að ljúka grunn- og framhaldsnámi í lífsþjálfun og Einar og Linda fara vel yfir það í þættinum hvað bæði námið hefur kennt henni, hvernig hún hefur nýtt sér það sjálf og hvernig hún kennir öðrum að nýta þessa tækni í sínu daglega lífi.
„Það var mikið hallellúja augnablik í mínu lífi þegar ég uppgötvaði þetta í náminu mínu og í dag er ég að vinna við að hjálpa öðrum að öðlast þetta,“segir hún „Ég vinn eiginlega við það í dag að valdefla konur.“
Linda ræðir líka sín áföll í lífinu og hvernig lífsþjálfunin hefur kennt henni að afgreiða þau. „Það þarf að vinna úr hlutunum og afgreiða, taka það sem hægt er að taka með sér sem er lærdómurinn og taka þá ábyrgð sem maður á en láta þau ekki marka sig eða skilgreina hver maður er,“ segir hún. „Konurnar treysta mér enn þá betur út af því. Ég meina ég var gjaldþrota einstæð móðir. Ég held allavega að ég myndi ekki velja mér lífsþjálfa sem aldrei hefur fengið synjun á kortið.“
Núna þegar Ísabella er farin í nám til London þá veltir Linda fyrir sér að að færa sig um set. „Mig langar auðvitað til Kanada aftur en er nú samt að skoða eitthvað í suður Evrópu. Þar spilar inn í að vera nálægt London en um leið líka að vera á svipuðum tíma og Ísland þar sem kúnnarnir mínir eru þannig að ég sé að vinna á svipuðum tímum og hérna heima,“ segir hún þegar hún er spurð úti þessi plön.
„Ég er nýorðin 55 ára og hef verið að skoða aðeins hvað mér langar að gera næstu fimm ár til dæmis. Ég hef verið að skoða það og þó að mér finnist gaman að vinna þá er ég líka alveg að skoða að fara að hægja .“
Hægt er að hlusta á þáttinn hér.