Kona var á dögunum handtekin í Louisville í Bandaríkjunum eftir að hún var staðin að því að reyna að brjótast inn í bíla á föstudag. Konan, hin 28 ára gamla Ricki Smith, var handtekin í miðjum klíðum við að reyna að stela bifreið þar sem barn sat í aftursætinu.
Aðspurð um hvað vakti fyrir henni sagði Smith að tónlistarmaðurinn umdeildi, Kanye West, hefði sent henni hugskeyti þar sem hann sagði henni að stela bílnum. Smith stökk inn í bifreið móður sem hafði skilið barn sitt eftir í aftursæti bifreiðarinnar á meðan hún stökk inn í nálæga verslun. Áður en Smith náði að keyra að stað var hún dregin út úr bifreiðinni og varð barninu ekki meint af.
Hún var ákærð fyrir tilraun til mannráns og tilraun til bílaþjófnaðar. Smith sagði lögreglu að hennar eigin bifreið hefði bilað á leið, en lögregla komst svo að því að hún hafði ekið bifreið sinni á tré og varð bifreiðin við það óökufær.