fbpx
Fimmtudagur 26.september 2024
Fókus

Jói Fel prófaði nýtt mataræði í fimm mánuði – Varpar ljósi á ótrúlegar breytingar

Fókus
Mánudaginn 23. september 2024 09:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhannes Felixson, bakari og frumkvöðull er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar. Hann segist hafa fengið mikinn áhuga á bakstri sem unglingur og að eftir að hann byrjaði þá vegferð hafi aldrei verið aftur snúið:

„Ég hafði strax svo mikinn áhuga á mat og bakstri. En þegar ég var í 9. bekk fór ég í starfskynningu í bakarí og mér fannst þetta bara strax alveg geggjað og var fljótur að ákveða að ég vildi verða bakari. Að mæta í bakaríið klukkan 5 á nóttunni og fara að vinna var eitthvað sem heillaði mig og ég ákvað mig bara strax þarna. Ég ákvað að fara til meistarans að læra eftir 9. bekkinn. Ég man þegar ég byrjaði að mér fannst strax eins og ég hefði gert þetta áður og fannst ég kunna þetta,“ segir Jói, sem þarna lagði grunninn að því sem átti eftir að verða langur ferill sem tók á sig alls kyns snúninga:

„Þegar ég var 25 ára ákvað ég að byrja að skrifa bók sem síðar varð kökubók Hagkaupa. Það tók mig 2 ár að skrifa bókina og það var allt handskrifað. Hver einasta uppskrift og allur textinn var skrifaður með blýanti. Ég á möppuna með handskriftinni ennþá. Ég vil meina að þetta sé mest selda bók Íslandssögunnar á íslenskum markaði. Þegar það var búið að selja hana í meira en 70 þúsund eintökum var hætt að telja. Það er í raun alveg ótrúlegt þegar maður hugsar um það. Ég vildi hafa hana ódýra og stóð sjálfur og kynnti hana í Hagkaupum þegar hún kom út. Í kringum 10. desember það ár byrjaði hún að rjúka upp í sölu og var svo söluhæsta bókin á Íslandi í öllum flokkum næstu 5 árin á eftir! Hún seldist í 10-15 þúsund eintökum hver einustu jól. Svo komu sjónvarpsþættirnir sem voru í loftinu í meira en 10 ár og það var annað ævintýri.“

Lykillinn að hreysti

Jói segist hafa æft nánast alla daga í 40 ár og að lykillinn að hreysti sé stöðugleiki. Hann segist alltaf hafa verið þannig gerður að ef hann tekur sér eitthvað fyrir hendur, þá geri hann það almennilega.

„Ég er 57 ára og er búinn að æfa mjög reglulega í 40 ár. Ég byrjaði 5-6 ára gamall í fótbolta og var úti að leika allan daginn og það er grunnæfing fyrir lífið. Svo fer maður lengra í íþróttum og 17-18 ára byrjaði ég að lyfta af því að mér var sagt að ég yrði að styrkja mig til að verða betri í fótbolta. Þar byrjar þetta og hefur haldið áfram síðan,“ segir Jói Fel, sem segir að bakaranámið hafi líka kennt sér aga og að vinnan hafi verið líkamleg.

„Það var bara harkan sex og vaknað klukkan 3-4 allar nætur og ég svaf bara einu sinni yfir mig. Það er innbyggt í mig að ef ég ætla að gera eitthvað, þá bara geri ég það og punktur. Núna vöknum við klukkan 6, ég og konan og tökum alltaf morgunæfingu. Maður gerir hvort sem er ekkert merkilegt eftir 10 á kvöldin, þannig að það er bara miklu betra að sofna snemma og vakna snemma. Eftir tíu fréttirnar förum við upp í rúm og erum sofnuð fyrir klukkan 11. Konan mín Eva ákvað að byrja að keppa aftur, en hún var margfaldur Íslandsmeistari í fitness á árum áður. Hún varð fimmtug í sumar og ákvað að keppa á heimsmeistaramóti á Miami og ég ákvað að taka bara fullan þátt í þessu með henni. Við vorum í fimm mánuði á alveg hreinu matarræði með engum aukaefnum. Grænmeti, ávextir, hrísgrjón, fiskur og rautt kjöt einu sinni í viku. Mann langaði alveg í góða rjómasósu í restina, en þetta var samt frábært. Við hugsuðum 2-3 daga fram í tímann og ég bjó til matinn fyrir hana ef maturinn í vinnunni hennar var ekki nógu hreinn. Enda held ég að það sé eina ástæðan fyrir því að hún náði í mig, hvað ég er góður í eldhúsinu,“ segir Jói og hlær. Hann segist sjálfur hafa komist í rosalegt form af þessu matarræði og æfingaprógrammi og hefði nánast getað stigið á svið:

„Ég get allavega sagt þér það að þetta virkaði það vel að ég fór niður í 4% fitu og allir héldu að ég væri að fara að keppa. Ég hefði getað stigið á svið eftir 1-2 vikur og átti í raun bara vatnslosunina eftir. En til að gera langa sögu stutta keppti hún og endaði í 4 sæti í heiminum í opnum flokki, sem er ótrúlegt. Hún er fimmtug, en sigurvegarinn var þrítug. Lykillinn í þessu er stöðugleiki. Og þó að við höfum bara verið 5 mánuði á þessu alveg hreina matarræði, þá erum við bæði búin að æfa flesta daga vikunnar í fjölda ára og höfum almennt meira og minna borðað hollan og hreinan mat. Ég byrjaði á þessu 17 ára og þetta er löngu orðið að lífsstíl. Ég er búinn að vera nógu lengi í þessu til að geta sagt að ég stóð á sviði með Jóni Páli Sigmarssyni á Íslandsmótinu í vaxtarrækt árið 1988 á Broadway. Þá keppti ég í mitt eina skipti í vaxtarrækt og var þar með Jóni Páli og Gumma í Bónus og fleiri kempum. Ég var 90 kíló á þeim tíma og er í sömu þyngd í dag, þannig að ég lít nánast eins út. Ég er virkilega ánægður með að hafa haldið þessum stöðugleika og vera hraustur í eigin líkama.“

Lífið heldur áfram

Jói er þakklátur þegar hann horfir yfir farinn veg, en er hvergi nærri hættur og í honum blundar enn frumkvöðull og mikill drifkraftur:

„Það er gaman að horfa til baka og sjá hvað þetta hefur verið viðburðarríkt. Ég er 57 ára og datt næstum niður dauður fyrir 2 árum þegar ég fékk hjartaáfall. En daginn eftir var ég orðinn góður og 5 dögum síðar var ég mættur í World Class að æfa. Lífið heldur áfram og ég ætla að halda áfram. Ég er bara 57 ára og á 40 góð ár eftir og ætla að nýta allan þennan tíma. Pabbi minn er níræður og býr enn heima hjá sér og gengur og syndir hálfan kílómetra á dag. Hann er að vestan og þetta hugarfar er í blóðinu. Ef þú heldur ekki áfram, þá bara byrjar þú að hrörna og dettur svo niður.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Jóa Fel og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragnhildur segir algengar ástæður fyrir því að einstaklingar með ADHD fari í skápaskrölt á kvöldin

Ragnhildur segir algengar ástæður fyrir því að einstaklingar með ADHD fari í skápaskrölt á kvöldin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ferðamartröð Frosta og fjölskyldu – „Ég hef aldrei lent í öðru eins“

Ferðamartröð Frosta og fjölskyldu – „Ég hef aldrei lent í öðru eins“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjöttu alþjóðlegu Kvikmyndaverðlaun Ljósbrots

Sjöttu alþjóðlegu Kvikmyndaverðlaun Ljósbrots
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nemendur á Laugum raða inn stigum í árlegri keppni – Tannburstar notaðir til að koma í veg fyrir svindl

Nemendur á Laugum raða inn stigum í árlegri keppni – Tannburstar notaðir til að koma í veg fyrir svindl