fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fókus

Sviðsetti Hitler andlát sitt og lifði hamingjusamur til æviloka í Argentínu?

Fókus
Föstudaginn 20. september 2024 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Treystum engu og efumst um allt. Þetta gætu verið kjörorð samsæriskenningarsinna. Stundum getur verið ósköp saklaust að kafa djúpt ofan í samsæriskenningu. Það þarf ekki alltaf að fá dægrastyttinguna frá Netflix – undirförul yfirvöld sem vilja ekkert frekar en að halda okkur frá sannleikanum, krassandi „sannleikur“ sem aðeins þeir sem sjá í gegnum blekkingavefinn hafa áttað sig á, möguleikinn á að eignast nýja félaga sem deila skoðunum þínum, og svo þessi gífurlega spenna sem maður getur upplifað þegar maður uppgötvar eitthvað nýtt? Netflix hvað? – gætu þá margir sagt.

Líklega er þó best að slá varnagla við öllum samsæriskenningum því í flestum tilvikum eiga þær sér ekki stoð í raunveruleikanum. En þessar örfáu sem reynast svo réttar? Þær gera það að verkum að margir eru til í að spila samsæris-lottó í von um að þeirra tölur komi upp í næsta drætti.

Munið að samsæri bragðast best með gagnrýnni hugsun og heilbrigðri skynsemi. Að þessu gættu má kynna til leiks nýjasta samsærið sem félagarnir í hlaðvarpinu Álhatturinn taka fyrir:

Sviðsetti Adolt Hitler andlát sitt og lifði hamingjusamur til æviloka í Argentínu? 

Hvað gerðist 30. apríl 1945?

„Adolf Hitler er líklega eitt þekktasta illmenni og fauti mannkynssögunnar. Framganga hans og nasista sveita hans í seinni heimsstyrjöldinni var ekki beint til fyrirmyndar og hvorki þeim né neinum öðrum til framdráttar. Milljónir saklausra borgara létu lífið að ósekju vegna galinna ranghugmynda Hitlers og fylgisveina hans, sem vildu draga fólk í dilka eftir kynþætti og útrýma þeim sem þeir álitu óæðri. Hvort sem það var vegna trúar, litarhafts, fötlunar eða einhvers annars. Áður en langt um leið höfðu þessi fúlmenni og keyrt öfgastefnu sína fram af slíku offorsi að þeim hafði tekist að murkað lífið úr miljónum manna og leggja hálfa heimsálfuna í rúst og gott betur en það.

Að lokum tókst Bandamönnum og Sovétmönnum þó blessunarlega að þjarma nóg að nasistunum svo Hitler og kumpánar gáfust upp og Hitler flúði ofan í neðanjarðarbyrgi sitt, þar sem hann ákvað að binda endi á þetta allt saman og taka bæði inn blásýru og skjóta sig. Eða hvað? Er möguleiki í að Hitler hafi ekki látist í neðanjarðarbyrgi sínu 30.Apríl 1945 og komist lífs af til Argentínu?“

Spottuðu Hitler

Lengi hafa verið til sagnfræðingar sem efast hafa um söguskýringuna og bent hafa á að það sé örlítið varasamt að fara að treysta orðum Sovétmanna, sem segjast hafa komið á vettvang eftir að líkið hafði verið brennt og flutt öskuna í burtu og grafið á leynilegum stað.

Það myndi eflaust henta þeim afar vel að stjórna söguskýringunni og koma út einsog einhverskonar sigurvegarar og frelsarar Evrópu. Svo hefur fundist fjöldinn allur af neðanjarðarbyrgjum og leynigöngum í allar áttir, sem staðfest hefur verið, að notuð voru af öðrum háttsettum nasistum, sem síðar dúkkuðu upp í Argentínu og víðar í S-Ameríku.

Þá eru það allir sjónarvottarnir hingað og þangað um heiminn sem eru sannfærð um að þau hafi séð Hitler á vappi, sprelllifandi og kampakátan. Allt frá Danmörku og Noregi til Spánar, Portúgal og jafnvel Kólumbíu, Brasilíu og einmitt Argentínu. Allskonar fólk sem er alveg 100% sannfært um að það hafi séð Hitler sprækan einhvers staðar á stangli. Meira að segja er til fólk sem fullyrðir að þau hafi aðstoðað við að koma Hitler undan huldu höfði.

Eru þetta bara glórulausar staðhæfingar einhverra vitfirringa í óráði eða er eitthvað mögulega til í þessum staðhæfingum? Hvers vegna eyddi Bandaríska alríkislögreglan(FBI) tíma og orku í að rannsaka málið ef ekki er arða af sannindum til í kenningunni? Hvernig stendur þá á því að Josef Stalín, og Dwight D Eisenhower stóðu í þeirri trú að Hitler hafi komist undan? Við erum vissulega með framburð fjölda vitna úr neðanjarðarbyrginu sem segjast öll hafa séð Hitler skjóta sig en þau voru öll nánir samstarfsmenn Hitlers og yfirlýstir nasistar, af hverju ættum við að treysta þeim? Gætu þau ekki allt eins hafa verið með í ráðum?“

Er hægt að treysta tannlækninum?

„Sannarlega bar einkatannlæknir Hitlers kennsl á tennurnar sem fundust og staðfesti að um kanslarann var að ræða, en er hægt að treysta þeim úrskurði? Líkið sjálft hefur ekki fundist enda búið að brenna það þegar einhver kom á vettvang, sem ku hafa verið ósk Hitlers sem vildi ekki að andstæðingar sínir gætu notað líkið sem einhverskonar verðlaunagrip til að berja sér á brjóst eða ota sínum tota.

Einnig er vafasamt og það sem kannski gefur þessari áhugaverðu söguskýringu og samsæriskenningu byr undir báða vængi er sú staðreynd að brot úr hauskúpu, sem fannst í byrginu og voru lengi vel talin koma úr Adolf Hitler, getur ekki hafa komið úr Hitler sjálfum heldur úr konu. En árið 2009 var framkvæmd DNA rannsókn á hauskúpubrotinu sem fannst í neðanjarðar byrginu og það endanlega staðfest að það kæmi ekki úr foringjanum heldur kvenkyns einstaklingi. Við höfum því engar haldbærar sannanir fyrir því að Hitler hafi látist í byrginu aðrar en frásagnir náinna samstarfsmanna og vina. Getur verið að Hitler hafi hreinlega komist undan og lifað restina af ævinni við vellystingar í Argentínu?

Þetta og svo margt, margt fleira áhugavert í þessum nýjasta þætti af Álhattinum, þar sem þeir félagar Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór, ræða þá áhugaverðu samsæriskenningu að Adolf Hitler hafi ekki látist í neðanjarðarbyrgi sínu, heldur komist lífs af og flúið til Argentínu, þar sem hann lifði til gamals aldurs.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 2 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife