Tvíeykið ÆSAR, sem er skipað þeim Guðjóni Heiðari Valgarðssyni og Braga Birni Kristinssyni hefur gefið út plötuna ÁTRÚNÓ. Í fréttatilkynningu segir að platan sé innsýn í hugarheim og tilfinningalíf ungs manns sem reynir að fóta sig í lífinu samhliða því stríði sem geisar innra með honum. Sagan segir frá stormasömu ástarsambandi og tilraunum hans við að blómstra í grámyglu Reykjavíkurborgar og hringekju skemmtanalífsins.
Platan sé fyrstu persónu frásögn söguhetjunnar í leit að sjálfum sér er hann spígsporar um hæðir og lægðir tilverunnar, umheim hans og ástarsambandið sem heltekur huga hans. Verkið megi líta á sem leikrit, eða bókmenntaverk. Hljóðheimurinn sé fjölbreyttur en rauði þráðurinn er línuleg frásögn sem sögð er frá fyrsta lagi til hins síðasta; „konsept plata”. Einvalalið taktsmiða og upptökustjóra tók þátt í gerð plötunnar og eru ÆSAR stoltir af því að birta hana nú loks opinberlega. Platan varð til á tveimur mánuðum en gerð hennar var 8 ára ferðalag sem nú loks hefur náð áfangastað.