Konan sem um ræðir heitir Maddie og er þrítug og þykir henni fátt skemmtilegra en að fara í Disney World eða Universal Studios, tvo af þekktustu skemmtigörðum Bandaríkjanna.
Hún segist fara reglulega með börnin sín í garðana en það sé líka í góðu lagi að leyfa sér að fara án þeirra.
„Það er svo gott að sleppa stundum af sér beislinu og vera barn án barnanna,“ segir hún og miðað við myndir sem hún birti á samfélagsmiðlum skemmti hún sér konunglega. Þegar hún kvaddi börnin virðist þó hafa komið yfir hana samviskubit, eða mömmviskubit eins og það er stundum kallað, sem entist þó ekki lengi miðað við myndirnar sem hún birti.
Netverjar höfðu skoðun á þessu eins og öllu öðru og fannst sumum það kaldhæðnislegt hjá mömmunni að taka sér frí frá börnunum og fara á stað sem er stútfullur af börnum og einkum hugsaður fyrir börnin.
Einn sagði að þetta væri eins og fara í verslunarmiðstöð um jólin, setjast í kjöltu jólasveinsins og taka mynd á meðan börnin bíða heima.
Maddie lét þó alla gagnrýni sem vind um eyru þjóta og sagði að henni bæri alls engin skylda að taka börnin sín með í öll frí. „Hugtakið fjölskyldufrí er til af ástæðu,“ sagði hún.
Sumir tóku undir með Maddie og bentu á að þó hún væri að fara á „barnvænan stað“ þyrfti hún ekki endilega að taka börnin með. „Það er gott fyrir mömmur að fá smá frí og það er líka gott fyrir börnin að læra að þau geta ekki gert allt það skemmtilega sem þau heyra um. Ég sé ekki vandamálið.“