6-6-6 reglan á við karlmenn sem eru 182 cm eða hærri (eða sex fet samkvæmt mælieiningunni sem er notuð í Bandaríkjunum), með „sixpakk“ og þénar yfir 13,5 milljónir á ári (eða eins og Bandaríkjamenn segja, „six figures“).
Karlmenn sem uppfylla þessi skilyrði setja 6-6-6 í lýsingu á stefnumótaprófílnum sínum til að laða að sér konur sem vilja ákveðna týpu af karlmanni. Sumar konur segjast styðja við þessa reglu til að finna hugsanlegan maka í hafsjó af endalausum möguleikum á stefnumótasíðum eins og Tinder. New York Post greinir frá.
Það mætti halda að allar þessar vefsíður og forrit auðveldi fólki að finna ástina en það hefur hins vegar gert það erfiðara fyrir marga. Sérstaklega þegar flestir karlmenn geta ekki uppfyllt þessar ströngu kröfur.
Stefnumótaforritið Flirtini framkvæmdi könnun nýlega og komu niðurstöðurnar mjög á óvart, en um 80 prósent kvenna sögðust vera tilbúnar að minnka væntingarnar til að hitta maka.
„Ég hef hitt fullt af einhleypu fólki í gegnum tíðina, bæði karlmenn og konur, sem hafa ruglaðar væntingar fyrir framtíðarmaka og ég vorkenni þeim, því þau eru greinilega einmana og munu vera einhleyp að eilífu,“ segir stefnumótasérfræðingurinn Amber Soletti við The Post.
Hún hvetur fólk til að horfa frekar á innri mann og í stað þess að vera með óraunhæfar útlitskröfur að kafa dýpra í alvarlegri málefni, eins og að ræða um pólitísk viðhorf og skoðanir á barneignum.
„Ef þú lítur framhjá því þá áttu eftir að enda í sambandi þar sem gremja uppsafnast, þið rífist mikið og að lokum hættið saman.“
Hún segir að vissulega megi setja einhverjar útlitskröfur, enda mikilvægt að laðast að makanum sínum. „Ekki fleygja listanum alveg út um gluggann. Vertu bara tilbúin að láta eitthvað undan.“