Snyrtivörur eru stundum keyptar og seldar hér á landi á svokölluðum gráum markað. Í slíkum tilvikum er ekki vitað með uppruna vörunnar eða hvort hún sé í söluhæfu ástandi. Karin Kristjana Hindborg, eigandi snyrtivöruverslunarinnar Nola, kallar eftir skýrari lagaramma um sölu snyrtivara og auknu eftirliti. Hún ræddi málið við Bítið á Bylgjunni þar sem hún sagði ekki alla hrifna af því að hún sé að benda á gráa markaðinn en hún hefur jafnvel fengið handrukkara á sig fyrir vikið.
Karin segir að á meðan falsaðar vörur gangi kaupum og sölu á svörtum markað þá gildi annað um svokallaðan gráan markað. „Grái markaðurinn hins vegar er flóknari því þú veist ekkert hvaðan varan kemur, þú veist ekki upprunann. Varan getur verið alvöru eða fake. Hún getur verið útrunninn, gömul, gölluð, hefur staðið úti á plani í sól eða frosti í einhverjar vikur, eða er hreinlega stolinn.“
Karin segir að þetta sé algengara en fólk áttar sig á og vörur fengnar með framangreindum hætti séu jafnvel seldar í venjulegum verslunum og neytendur kaupi þær í góðri trú. Það sé svo með snyrtivörumerki að þessi vörumerki tilheyra ákveðnum eigendum sem eftir atvikum hafa svo veitt öðrum heimild til að selja vöruna eða umboð til að miðla vörunni til söluaðila. Þetta séu svokallaðir viðurkenndir dreifingaraðilar. Nefnir Karin sem dæmi að eitt vörumerki sem hún selur sé með uppruna í Bandaríkjunum. Hún geti þó ekki verslað beint við framleiðanda þar sem annar aðili í Svíþjóð sé með umboð til að dreifa vörunni til Norðurlanda. Framleiðandinn vísi því á þennan dreifingaraðila.
Með því að fara framhjá þessu ferli geti aðilar á gráum markað jafnvel selt vöruna ódýrara en bjóða þó ekki upp á samkeppnishæfa vöru þar sem neytandinn geti ekki treyst því að gæði og ástand vörunnar standist kröfur.
Því kallar Karin eftir auknu eftirliti og helst skýrum lagaramma. Snyrtivörur eru meira en bara pjatt og ekki bara fyrir konur. Snyrtivörur eru meira en bara farði og fellur annað undir á borð við húðkrem, tannkrem, svitalyktareyðir, hárvörur og sápa.
„Rauði þráðurinn í gegnum þetta er að það er alltaf einhver sem er að græða á þessu, það er bara verið að græða peninga með því að kaupa úr gámum vöru sem er þá miklu ódýrari og er jafnvel bara þýfi. Sendingar til mín hafa týnst og hvert fer sá varningur? Ég er búin að tala við rosalega marga sem eru í þessum bransa, verslanir og heildverslanir en það bara þorir eiginlega enginn að segja neitt. Ég t.d. er ekki að fara að nafngreina neinn því ég vil ekki lenda í vandræðum, ég vil ekki fá á mig lögsókn. Ég hef t.d. eins og ég sagði á mínu Instagrami, fyrir 10 árum síðan þá byrjaði ég á þessu og ég fékk á mig handrukkara. Það er bara allskonar fólk að flytja inn snyrtivörur og það er bara ekkert eftirlit, eða því er allavega mjög ábótavant.“