fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fókus

Steinunn Ósk var orðin skelin af sjálfri sér vegna áfengisvanda – „Þetta er allt voða fansí og fínt, þangað til það er það ekki lengur“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 12. september 2024 11:30

Steinunn Ósk Valsdóttir er gestur vikunnar í Fókus.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Áhrifavaldurinn og markaðsstjórinn Steinunn Ósk Valsdóttir vildi ekki fara í feluleik þegar hún fór í meðferð fyrr á árinu. Hún sagði fjölskyldu og vinum að hún ætti við vandamál að stríða, að hún gæti ekki stjórnað því en hún ætlaði að fá hjálp.

Steinunn Ósk er einnig förðunarfræðingur, stílisti og annar umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins Skipulagt Chaos. Hún er gestur vikunnar í Fókus, spjallþætti DV. Horfðu á þáttinn hér að neðan eða hlustaðu á Spotify.

video
play-sharp-fill

„Ég ákvað hingað og ekki lengra“

Steinunn fór í meðferð fyrr á árinu og ákvað strax að hún ætlaði að vera opin með þetta ferli.

„Ég fór fyrst í meðferð þegar ég var 17-18 ára. Þá lenti ég í áfalli og eftir það byrjaði ég að drekka svolítið hömlulaust. Ég var edrú í um fjögur ár eftir það,“ segir Steinunn sem rifjar upp ákvörðun sína um að byrja að drekka aftur.

Hún segir að hún hafi talið sig breytta manneskju, orðin mamma og að þetta hafi líklegast verið bara einhver unglingavitleysa.

„Þannig ég byrjaði aftur að drekka, í fyrstu var allt í góðu, ekkert mál og ekkert vesen. Þetta „eðlilega“ drykkjumynstur hjá Íslendingum, djammið og allt þetta,“ segir hún.

„Svo hætti ég með seinni barnsföður mínum, 2021 minnir mig. Þegar það eru svona áföll þá átti ég til að leita í drykkju. Sem að endaði aldrei vel,“ segir hún og bætir við að fólk ætti að forðast áfengi eins og heitan eldinn ef því líður illa.

„Ég ákvað hingað og ekki lengra, ég ætla að hætta þessari vitleysu. Sem ég gerði í svona eitt og hálft ár.“

Steinunn Ósk Valsdóttir. Mynd/Instagram @steinunnosk

„Ég fann að mér leið ekki vel “

„Svo lenti ég aftur í svona kærastadrama sem ég tók alveg rosalega inn á mig. Fannst það erfitt og fann fyrir höfnun og gamlar tilfinningar komu upp,“ segir Steinunn sem byrjaði aftur að drekka fyrir rúmlega ári síðan.

„Ég fann að mér leið ekki vel. Ótrúlega mikið af alls konar í gangi í lífinu mínu og ég leitaði í spennu og að fá mér í glas, fá mér vín. Þetta er allt voða fansí og fínt, þangað til það er það ekki lengur.“

„Sem betur fer hef ég alltaf getað haldið þessu frá þeim“

Steinunn segir að blessunarlega hafi henni tekist að halda þessu alveg frá börnunum sínum. Hún er þriggja barna móðir og er með börnin sín viku og viku á móti barnsfeðrum sínum.

„Í þessum vikum sem ég var ekki með börnin mín var ég mikið ein, ég var mjög einangruð. Ég var ekki mikið að leitast í vini, ég vildi bara vera ein. Ég var að díla við erfiðar tilfinningar, ég var að díla við andlegt ofbeldi í rauninni og ég byrjaði aftur í einhverju svona hömluleysi þegar krakkarnir voru ekki hjá mér. Sem betur fer hef ég alltaf getað haldið þessu frá þeim,“ segir hún.

„Í þessum vikum var alltaf vín á kvöldin og eitthvað svona. Og í endann var ég orðin skelin af sjálfri mér. Ég fann enga hvatningu til að vakna eða gera neitt, enga hvatningu að hreyfa mig eða fara og hitta fólk. Mig langaði bara að vera ein inni heima hjá mér og plís, enginn að tala við mig, og það er engan veginn eðlilegur hlutur að upplifa.“

Steinunn Ósk Valsdóttir. Mynd/Instagram @steinunnosk

Aldrei of snemmt að biðja um hjálp

Steinunn hringdi inn á Vog í febrúar til að fá hjálp. „Ástæðan fyrir því að ég vil tala um þetta er að margir, held ég, misskilja þetta ástand. Ég held að margir haldi að þú þarft að vera búinn að drekka allt frá þér eða alveg gengin af göflunum til að geta beðið um hjálp,“ segir hún.

„Ef þú ert farin að finna að þetta er að draga úr þér lífsviljann, að þú ert farin að forgangsraða drykkju. Ef að þetta er orðið aðalpersónan í þínu lífi þá er allt í lagi að fara og fá hjálp fyrir því. Ég fór inn á Vog og síðan Vík, þetta var sirka 40 daga prógramm, og þetta var það besta sem ég hef nokkurn tímann gert fyrir sjálfa mig.“

Fer ekki í manngreiningarálit

Steinunn segir alkóhólisma ekki fara í manngreiningarálit.

„Þetta er í rauninni heilasjúkdómur sem hver sem er getur fengið. Mér finnst leiðinlegt að það þurfi að vera stigma, eins og það sé einhver ákveðinn karakter sem fær þennan sjúkdóm. Af því að það getur verið hver sem er. Frekar en að vera í feluleik þá sagði ég bara öllum: „Ég er að fara í meðferð. Ég á erfitt með þetta, mig langar ekki að gera þetta en ég get ekki hætt því og ég ætla að fá viðeigandi hjálp við þessu,““ segir Steinunn Ósk.

„Þetta var ekki langt drykkjutímabil, sirka sex mánuðir, en mér fannst það bara nóg. Þetta þarf ekki að ganga lengra. Þú þarft ekki að vera búin að missa vinnuna,  fokka öllu upp, þú þarft ekki að vera búin að missa allt til þess að þú getir farið og fengið hjálp. Því þú getur komið í veg fyrir svona hluti með því að fara fyrr.“

Prófaðu að endurhlaða síðuna ef þú sérð ekki færsluna hér að neðan.

 

View this post on Instagram

 

A post shared by Steinunn Ósk (@steinunnosk)

Blómstrar

Steinunn segir að það hafi verið mikill léttir að vera opin um baráttu hennar við Bakkus.

„Mig langaði að vera opin með það því ég held að fólk horfi ekki á mig og haldi að ég eigi við vandamál að stríða. Og svo oft þegar ég segi fólki það þá er það alveg svona: „Nei, láttu ekki svona.“ Og ég bara: „Viltu sjá mig í þessu ástandi? Því ég held þú viljir það ekki,““ segir hún hlæjandi.

Aðspurð hvernig hefur gengið í sumar segir Steinunn: „Mér er búið að ganga rosalega vel og ég finn að þegar ég næ að halda þessu frá mér þá blómstra ég. Þá á ég allt öðruvísi líf. Það er búið að ganga ótrúlega vel. Ég vona að ég þurfi aldrei að fara á þennan stað aftur.“

Horfðu á þáttinn hér að ofan eða hlusta á Spotify.

Fylgstu með Steinunni Ósk á Instagram og TikTok.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 2 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife
Hide picture