fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fókus

Æsispennandi vestfjarðakrimmi með dulrænni slagsíðu

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 11. september 2024 22:33

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á morgun fimmtudag kemur önnur bók Margrétar Höskuldsdóttur, Í djúpinu, út. Í djúpinu er æsispennandi vestfjarðakrimmi með dulrænni slagsíðu. Margrét sendi frá sér Dalinn árið 2022 við góðar undirtektir lesenda.

Blásið er til útgáfuhófs í Pennanum Eymundsson, Skólavörðustíg 11, fimmtudaginn 12. september kl. 16:30. Léttar veitingar í boði og bókin verður á sérstöku útgáfutilboði. Höfundur les upp og áritar.

Hér getur þú lesið fyrstu tvo kafla bókarinnar birt með góðfúslegu leyfi Forlagsins:

Inngangur 

Reykjavík 2023

Hráslaginn skreið upp eftir berum fótleggjunum um leið og hann opnaði dyrnar út á pallinn. Kvöldið var öllu kaldara en hann hafði vonað. Eitt augnablik íhugaði hann að snúa við og sækja baðsloppinn en svo hætti hann við. Yfirleitt þurfti hann að standa í svalanum í smástund til að kæla sig niður eftir hitann í pottinum. Garðurinn var kyrrlátur enda langt liðið á kvöldið. Þau voru nýflutt í rólegt fjölskylduhverfi sem hentaði þeim ágætlega. Ekki það að þau ættu barnaskara og hygðust setja upp trampólín. Sá kafli í lífi hans var sem betur fer í baksýnisspeglinum. Augnabliks samviskubit gerði vart við sig þegar hann hugsaði um dóttur sína en svo sveif sú hugsun á brott. Þær gerðu það flestar, þessar leiðinlegu hugsanir. Hann var góður í að hundsa þær og sá sjálfan sig fyrir sér bægja þeim frá sér eins og badmintonspilari sem slær hverja fluguna á fætur annarri á brott. Þær gátu verið margar suma dagana og þessi dagur hafði verið einn af þeim. Nú var dagur hins vegar að kvöldi kominn og hann átti skilið að slaka á í pottinum. Allar hugsanir um vesen, vandræði í viðskiptum eða drauga fortíðar voru hér með útilokaðar. 

Kvöldrakinn lagðist yfir brúnmálaðan pallinn en þar sem skortur á viðhaldi hafði gert viðinn gljúpan kom það ekki að sök. En viðhald á pallinum yrði ekki hans höfuðverkur. Ó nei, hann ætlaði ekki að lyfta handtaki í öllum þeim framkvæmdum sem fram undan voru. Þórður hnussaði og setti bjórflöskuna á kantinn. Til hvers að eiga peninga ef ekki til þess að fá menn í verkin. Snarpur hitinn á vatninu fékk Þórð til að taka andköf. Hann hinkraði aðeins, leyfði fótleggjunum að venjast hitanum en lét sig svo síga varlega niður. Þetta er lífið, hugsaði hann með sér og hallaði höfðinu aftur. 

Kvöldhiminninn var grár og þrúgandi eins og tíðkaðist gjarnan í júní. Hann teygði sig í flöskuna og tók gúlsopa af ísköldum bjórnum. Vellíðunarandvarpið sem fylgdi barst yfir garðinn. Þetta yrði flott hjá þeim. Eva vissi sínu viti og hann myndi eftirláta henni alla hugmyndavinnuna. Bara borga og brosa. „Happy wife, happy life,“ tautaði hann lágt og hló að eigin fyndni. Hún var að vísu ekki wife en það var aukaatriði. Verst að hún var ekki með honum í pottinum í þessu kynþokkafulla bikiní sem hún var nýbúin að kaupa fyrir sumarfríið. Léttur seyðingur fór um hann og hann leit í kringum sig. Velti fyrir sér hvort potturinn væri nógu vel hulinn augum nágrannanna til þess að þau Eva gætu haft gaman í honum í framtíðinni. Þéttvaxinn runni skýldi garðinum frá gangstéttinni sem skildi húsið frá nágrönnunum. Gömlu hjónin sem seldu honum húsið höfðu greinilega verið með blæti fyrir trjám og hverskyns gróðri sem hann kunni ekki að nefna. Hvert sem auga leit voru runnar og plöntur, ýmist í beðum eða blómapottum. Tómir blómapottar og garðálfar á stangli inn á milli. Hugleiðingar hans um að jafna þetta allt við jörðu og hafa garðinn án trjáa mætti endurskoða með tilliti til pottaferða með Evu. Og jafnvel bara best að láta hana um allt skipulagið, innanhúss sem utan. Í raun og veru hefði hann aldrei valið þetta hús sjálfur. Gömul hús sem þurftu viðhald og hefðu hugsanlegar rakaskemmdir eða silfurskottur, nei, takk. Hann hafði fengið sinn skerf af sambýli með skottunum silfruðu. En hann lét þetta eftir Evu. Hún var hans veikleiki. Þessi hugsun sló hann. Var það merki um veikleika að leyfa henni að ráða þessu? Hann yrði að melta þetta aðeins. Konurnar í lífi hans höfðu bara valdið honum ama og vandræðum hingað til. Gamalli minningu skaut upp í hugann. Um aðra konu. Eða öllu heldur stelpu sem eitt sinn skipti hann máli. Sem hafði kannski verið hans fyrsti veikleiki. Hann hafði opnað sig fyrir henni og hleypt henni inn í viðkvæma sálina. Það höfðu klárlega verið mistök. Minningaleiftrið sveimaði fyrir hugskotssjónum og neitaði að hverfa. Svart hár og vatnsblá augu sem horfðu einhvern veginn beint inn í hann. Hönd sem passaði akkúrat í hans. Eins og hún ætti þar heima. Þórður gretti sig og strauk vatnsdropa af nefinu. Þetta voru brautir sem hann vildi ekki fara inn á. Hann tók upp huglæga badmintonspaðann og sló hugsuninni burt. 

Lágt þrusk barst honum til eyrna og hann sneri sér við. Pallurinn fyrir aftan hann var auður. Bara hann og kyrrðin. Andskoti er þetta næs, hugsaði hann með sér og stundi af vellíðan. Hann var orðinn létt soðinn og ætti að koma sér upp úr. Augu hans fylgdu eftir pattaralegum skógarþresti sem kom svífandi. Fuglinn settist á grein í einu af trjánum nálægt pottinum. Þórður fylgdist með honum um stund og fannst eins og þrösturinn væri að vega hann og meta. Hann hrökk við þegar fuglinn flaug skyndilega af greininni. Á sama tíma heyrðist þruskið aftur og nú nær honum. 

Þórður sneri sér hægt við, sjónin eilítið syndandi eftir bjórinn, eða bjórana ef satt skyldi segja. Hugsanlega höfðu einn eða tveir runnið niður yfir sjónvarpsfréttunum. Undrunin sem streymdi um hann var næg til að kippa honum úr doðanum. 

„Þú? Hvern andskotann viltu?“ spurði hann og myndaðist við að standa upp. Hann riðaði örlítið og fann fyrir svima. Hann ákvað að setjast aftur niður. „Var ekki búið að segja allt sem segja þarf?“ hreytti hann geðillskulega yfir öxlina. Það var honum í mun að halda andlitinu. Orðin svifu út í sumarnóttina en gesturinn svaraði ekki. Þórður yppti öxlum og hnussaði, eins og til að sýna að þessi innrás skipti hann litlu máli. Hann teygði sig eftir bjórflöskunni en mundi svo eftir því að hann hafði þegar tæmt hana. Fótatakið fyrir aftan hann gaf til kynna að gesturinn hefði ákveðið að fara. Gott. Hann nennti ekki svona bulli. Vildi bara fá að slappa af í sínum eigin garði, í sínum eigin potti. Þórður andvarpaði. Af hverju þurfti fólk alltaf að vera með vesen? Hann horfði upp í himininn, reyndi að láta ónotin líða úr sér. Fólk átti ekkert með að vaða svona inn á hann og ef hann væri ekki orðinn svona kenndur og marineraður hefði hann staðið upp og látið heyra í sér. Þórður hnyklaði brýnnar og lagði við hlustir. Garðurinn var óvenju þögull. Meira að segja fuglarnir héldu kjafti. Gæsahúðin streymdi um húð hans, þrátt fyrir hitann í vatninu. Hann sneri sér við, vildi vera alveg viss um að garðurinn væri mannlaus. 

Þungt höggið kom honum á óvart. Það skall á gagnauganu og máttlaus tilraun hans til að standa upp og verja sig fór út um þúfur. Sjónsviðið þrengdist og mátturinn þvarr. Hugsanirnar urðu ruglingslegar en ein hugsun var sterkari en aðrar: ekki í vatnið, ekki í vatnið. Svo varð allt svart. 

Nokkrum dögum fyrr 

1 

Reykjavík 202 3 

„Af hverju völduð þið að flytja hingað? Í þetta hverfi?“ 

Þórður lagði frá sér rauðvínsglasið og leit á Evu sem sat við hliðina á honum. Svo leit hann á Ingvar sem hafði stungið vænum bita af nautasteik upp í sig um leið og hann sendi spurninguna frá sér. Dæmigerður Ingvar, hugsaði Þórður og furðaði sig um leið á því að hann léti spurninguna yfirleitt fara í taugarnar á sér. Vissulega máttu sum þessara húsa muna sinn fífil fegurri en þarna var fullt af möguleikum. Eða það fannst Evu allavega. Hann sá þá svo sem ekki en þetta var hennar sérsvið. 

„Af hverju spyrðu?“ Hann reyndi að láta orðin hljóma léttvæg. Reyndi að krydda þau með brodd af kímni. Eins og hann hefði gaman af spurningunni. Sem hann hafði alls ekki. Hann var búinn að þekkja Ingvar síðan þeir voru unglingar og samkeppnin á milli þeirra var ekki ný af nálinni. Þessi sakleysislega spurning Ingvars var gegnumsýrð af gagnrýni. 

„Nei, bara,“ svaraði Ingvar kæruleysislega um leið og hann þurrkaði sósu úr munnvikinu. „Ég hefði kannski haldið að þið færuð í eitthvað af nýju hverfunum. Í eitthvað nýbyggt og …“ Ingvar leit yfir nýuppgerða stofuna sem var kannski ekki stór en þau höfðu lagt töluverða vinnu í að gera upp. Eða öllu heldur borgað öðrum fyrir að gera upp. Veggir höfðu verið brotnir niður og niðurstúkuð rými sameinuð. Ný innrétting, marmaraplata og nýtt fiskibeinaparket. Útkoman var vægast sagt glæsileg. 

„Já, og kannski bara stærra,“ kláraði Ingvar og brosti yfirlætislega til Þórðar. 

„Það var svo sem ein af hugmyndunum þegar við vorum að leita. En okkur langaði bara alls ekki til að flytja í eitt af þessum sálarlausu úthverfum og þurfa svo að eyða alltof miklum tíma í umferðinni á hverjum degi. Við vinnum bæði niðri í bæ og eins og þú veist, Ingvar minn, Time is money.“ Hann lyfti glasinu í áttina til Ingvars og blikkaði til hans. Flestir við borðið hlógu að þessari athugasemd og lyftu glösum þessu til sammælis. Ingvar endurgalt brosið og lyfti glasinu á móti en brosið var stirt. Enda bjó hann sjálfur í nýbyggðri höll í einu af þessum sálarlausu hverfum. Þórður hefði sennilega sjálfur valið slíkt hús ef ekki væri fyrir áhuga Evu á húsum eftir þennan tiltekna arkitekt. Það var bara of freistandi að skjóta svona á Ingvar. 

„Svo er hún Eva mín mjög hrifin af húsum sem byggð eru á þessum tíma. Hana langaði mjög mikið í svona Sigvaldahús. Við hefðum auðvitað verið frekar til í stærri eign en það er erfiðara að finna þær, sérstaklega svona miðsvæðis.“ Hann fann hvernig Eva lagði höndina á lærið á honum og þrýsti létt við þessi orð hans. 

„Já, hann Tóti minn lét þetta eftir mér. Ég elska svona mid-century hús. Það er svo mikill karakter í þeim,“ sagði hún og sendi eitt af sínum leiftrandi brosum yfir borðið. 

Einhverjir af gestunum tóku undir þetta og upp hófust umræður um kosti og galla nýrra og gamalla húsa. Þórður tók stóran sopa af rauðvíninu og leyfði dökkrauðum vökvanum að velkjast aðeins um í munninum áður en hann kyngdi. Fersk sýran og þétt fylling þessa dýra víns var honum að skapi. Það róaði hann alltaf að drekka rauðvín og þá sérstaklega ef vínið var dýrt. Að gera vel við sig var eitthvað sem hann hafði ekki alltaf getað gert. En hann gat það núna. Hann átti næga peninga, var jafnvel betur stæður en helvítið hann Ingvar sem var núna í hrókasamræðum við Egil og Unni. Reyndar lagði Unnur ósköp lítið til málanna, eins og svo oft áður. Fylgdi bara Agli eins og litlaus lítil mús. Þær voru reyndar flestar frekar óspennandi, konur vina hans. Komnar yfir fimmtugt eins og þeir og farnar að láta á sjá. Það var bara hann sem hafði yngt upp, þó honum fyndist þetta reyndar hallærislegt orðatiltæki. Eva var að vísu tuttugu árum yngri en hann en hún var ekki eins og hvert annað skraut sem hann hafði valið sér. Hún var gullfalleg, það varð að viðurkennast, enda var hann smekkmaður. Á konur jafnt sem vín. Hún var líka fluggáfuð og sjálfstæð. Það var ekki síður það sem heillaði hann við hana. Kannski var það þess vegna sem hann lét sannfærast um að kaupa þetta vanrækta gamla hús í Laugardalnum í stað þess að festa kaup á einhverju nýrra. 

„Er allt í góðu?“ Mjúk rödd Evu dró hann aftur inn. Hún hallaði sér að honum svo höfuð þeirra snertust og seiðandi ilmvatnslyktin barst að vitum hans. 

„Jú, allt í fína.“ Hann kyssti létt á bera öxl hennar og teygði sig eftir flöskunni. Það þurfti að fylla á glösin. 

„Þurfum við svo ekki að tala saman á eftir?“ Aftur var það Ingvar sem talaði og Þórður sá hvernig Egill ókyrrðist í sætinu. Alltaf sama gungan. Þórður kæfði gremjuna sem vildi leita fram. 

„Jú jú, kallinn minn,“ sagði hann og reyndi að hljóma hress. „Fyrst fáum við okkur aðeins meira og höfum það næs. Alltaf hægt að tala saman um bisness síðar.“ Hann blikkaði Ingvar og Egil. „Eigum við ekki að færa okkur yfir í þægilegri stóla og keyra þetta partý aðeins í gang?“ 

Tillögunni var vel tekið og Eva stýrði fólkinu yfir í stofuna. Einhverjir höfðu orð á því hversu vel þau væru búin að koma sér fyrir. Þórður dró fram sitt besta viskí og skenkti í glösin. Ekkert nema það besta á boðstólum hjá honum. Svo teygði hann sig í hátalarann og hækkaði í tónlistinni. Áhyggjur af nágrönnum og hávaða voru víðs fjarri og heimsókn gömlu kellingarinnar sem hafði bankað upp á daginn eftir síðasta teiti var löngu gleymd. Þau ætluðu að skemmta sér í kvöld. Eva hafði reyndar verið hálf miður sín yfir því að byrja búskapinn í hverfinu á að fá kvörtun frá nágranna en það hafði ekki sömu áhrif á hann og hana. Álit annarra og skoðanir skiptu hann litlu máli. Lítil rödd innra með honum hvíslaði reyndar að þetta væri lygi. Að það skipti hann einmitt miklu máli að fólk hefði álit á honum. Og þætti til hans koma. Hann kæfði þetta veikleikamerki niður. Gömul nágrannakelling skipti afar litlu máli. 

2 

Reykjavík 202 3 

Hávært garg skógarþrastanna reif hana upp úr órólegum svefninum. Líklegast hefði hún hvort eð er vaknað, undanfarið einkenndust næturnar af slitróttum nætursvefni og andvökustundum. Hansína settist þreytulega upp í rúminu og leit í áttina að gluggatjöldunum þar sem þrálát birta júnínæturinnar þrengdi sér inn í gegnum rifurnar. Hún dró gluggatjöldin frá og rýndi út. Skimaði yfir garðinn og sá hvernig þrastapar flaug tryllingslega fram og til baka úr stóra reynitrénu. Af og til settust þau á skjólvegginn sem skildi að garð hennar og nágrannans. Hún hafði vissulega gaman af smáfuglunum en þessi hávaði var ekki að gera neitt fyrir nætursvefninn. Hansína dæsti og var við það að sleppa gardínunni þegar hún sá orsökina fyrir þessum æsingi í fuglunum. Pattaralegur köttur læddist yfir pall nágrannans og sveiflaði skottinu hægt og rólega. Hann hafði greinilega fengið augastað á bráð og líklegast var sú bráð afkvæmi þrastaparsins. 

„Andskotinn hafi það,“ tautaði hún geðillskulega, greip náttsloppinn og þrammaði af stað niður stigann. Þrátt fyrir að vera kattakona átti hún afar bágt með að þola þetta háttalag kattanna. Tilhugsunin um litla unga í kattaklóm myndi án efa ræna hana þeim litla svefnfrið sem hún gæti hugsanlega fundið. Hún opnaði dyrnar út í garð og sveipaði sloppnum þéttar að sér. 

Hansína muldraði eitthvað fyrir munni sér og arkaði út. Hún teygði höfuðið upp yfir skjólvegginn og sá hvar kötturinn sat úti í horni og sneri baki í hana. Hann horfði upp í klifurjurtina sem hýsti líklega sjálft hreiðrið. Spennan í líkama hans benti til þess að hann væri við það að leggja í klifrið. Lítið og veiklulegt tíst barst út úr laufþykkninu. Annar af fuglunum, sem höfðu sveimað tryllingslega um, settist á skjólvegginn rétt hjá henni. Þar skoppaði hann um og horfði á hana bænaraugum. Hansína leit snöggt í kringum sig og rak augun í vatnsslönguna sem hringaði sig á pallinum. Hún þreif garðstól og ýtti honum upp að veggnum. Svo teygði hún sig varlega eftir slöngunni og vonaði heitt og innilega að nágrannarnir væru ekki vakandi. Það var að vísu ósennilegt þar sem komið var fram yfir miðnætti og vinnudagur á morgun. Hansína ýtti þessum hugsunum frá sér og mundaði slönguna. Kötturinn varð hennar var og sneri sér hratt við um leið og fingur hennar ýtti á gikkinn. Köld vatnsbunan lenti rétt við fætur kattarins í sömu mund og hann stökk í burtu. 

Hansína brosti út í annað. Hafðu þetta, ódámurinn þinn, hugsaði hún um leið og hún steig niður úr stólnum. Augu hennar skutust örsnöggt upp í glugga nágrannanna en þeir voru enn jafn dimmir og líflausir og áður. Það var þó engin ávísun á að einhver stæði ekki fyrir innan og velti fyrir sér hvort helvítis kellingin væri endanlega orðin galin. Skítt með það, hreiðrinu var allavega borgið um stund og það var henni að þakka. 

Hansína kinkaði kolli þessu til staðfestingar og var í þann veginn að fara aftur inn þegar hún tók eftir því að þrastaparið hafði flogið upp á skjólvegginn. Þar sátu þau kyrr og horfðu í áttina til hennar, annar fuglinn virtist halla höfðinu undir flatt. Hún brosti til þeirra og nikkaði. Ekkert að þakka voru skilaboðin í þessari litlu hreyfingu. Við þetta flugu þau í burtu og Hansína fann gleðina breiðast um sig. Henni fannst hún hafa gert gagn, fannst hún skipta máli og það gerðist ekki oft þessa dagana. 

Kyrrðin í nóttinni greip hana og hún dró andann djúpt að sér. Hún ákvað að ganga aðeins um í grasinu og finna jarðtenginguna streyma upp í berar iljarnar. Eitthvað sem hún hafði vanið sig á að gera á öðru tímaskeiði í lífinu. Einu sinni hafði hún haft greiðari aðgang að grænum túnum og ósnortinni náttúrunni en það voru löngu liðnir tímar. Nú varð hún að gera sér að góðu þennan litla grasblett sem fylgdi húsinu. Nettur hrollur gerði vart við sig þegar hún steig af pallinum á döggvott grasið en hún lét sig hafa það, gekk nokkur skref og andaði djúpt og reglubundið. Kyrrðin var alger, engin lífsmörk að sjá í húsunum í kring. Hún yrði þreytt á morgun en það var þess virði fyrir svona stundir. Hansína dæsti af vellíðan og leit upp í bjartan næturhimininn, lokaði svo augunum og dró í sig augnablikið. Hugurinn hvarflaði aftur að staðnum þar sem hún hafði verið hvað hamingjusömust. Þar sem stutt var í sjóinn og fjöllin voru í bakgarðinum. Kyrrðin var skyndilega rofin af lágu hrópi og brothljóði. 

Groddalegur hlátur fylgdi í kjölfarið. Hansína kipptist við og leit í áttina að húsinu hinum megin við götuna. Vandlætingarsvipur breiddist yfir andlit hennar. Nýi nágranninn ætlaði þá að byrja búsetuna í hverfinu svona. Hún hnussaði lágt, leist ekkert á að fá eitthvert partílið í þetta kyrrláta samfélag innan borgarinnar. Hér þekktust allir vel og áttu góð samskipti. Hún hafði séð í gegnum fingur sér þegar hann hélt innflutningspartíið fyrir nokkrum dögum. Hávaðinn sem barst yfir til hennar og sennilega allra í hverfinu hafði vissulega verið óviðunandi en þar sem þau höfðu haft vit á því að senda tilkynningu á sameiginlega fésbókarsíðu götunnar, litu flestir framhjá þessu. Hún gerði allavega fastlega ráð fyrir því að tilkynningin hefði komið frá þeim. Hansína íhugaði að kvarta yfir þessu á blessaðri síðunni. Nógu mikið var hún nýtt í það. Sjálfri þótti Hansínu samt alltaf best að tala við fólk augliti til auglitis og það ætlaði hún að gera núna. 

Hún gjóaði augunum einu sinni enn í áttina að einbýlishúsinu sem stóð á móti raðhúsalengjunni hennar. Húsin voru byggð þétt saman, einungis garðurinn hennar, gatan og lítill grasblettur nágrannans skildu húsin að. Lágvær tónlist og ómur af samtali barst út um hálfopinn gluggann. Hún dró sloppinn þéttar að sér, nætursvalinn var farinn að minna á sig. Það var ekki hægt að leyfa fólki að komast upp með svona hegðun. Hún hugsaði með sér að hún væri orðin þessi týpíska eldri kona sem kvartaði og tuðaði yfir öllu. Ef flett yrði upp í orðabók og leitað að geðillum eldriborgara kæmi upp mynd af henni. Hún kæfði þessa hugsun. Hún var ekki afskiptasöm og enn síður forvitin. Vissulega var hún eldri borgari og fólk þurfti að fara eftir reglum. Stundum kom það bara í hennar hlut að benda þeim á það. 

Unnur Sogaði reykinn að sér, fann fyrir honum djúpt ofan í lungunum og hugsaði með sér í þúsundasta skiptið að hún ætti nú að hætta þessu. Það hafði stundum tekist hjá henni, en svo byrjaði hún aftur og fylltist sjálfsfyrirlitningu. Aftur og aftur. Í kvöld var hún hins vegar ekki í stuði til þess að velta sér upp úr því hvort hún ætti að hætta að reykja eða ekki. Taugarnar voru víraðar og tættar. Eins og alltaf þegar þau hittu þessa vini hans Egils. Það hafði alltaf neikvæð áhrif á hana að vera innan um þá. Sama hversu mörg ár voru liðin og hversu gömul þau voru orðin. Það sama gilti um Egil sem mátti nú ekki við miklu. Hann sogaðist samt að þessum fíflum eins og mý að mykjuskán. 

Róin sem fylgdi fyrsta smóknum breiddist um hana og hún leit upp í fallegan næturhimininn sem var næstum jafn blár og fyrr um daginn. Þessi árstími var svo magnaður og það kom henni alltaf jafn mikið á óvart hvernig sólin rétt svo reisti höfuðið yfir sjóndeildarhringinn á veturna, eingöngu til að dýfa sér aftur í sjóinn. Hvernig allt umpólaðist á sumrin þegar sólin var eins og negld uppi á himninum. Flest urðu manísk og nýttu birtuna í allt það sem þau nenntu ekki að gera í skammdeginu. Endalaus grillpartý, lautarferðir og fjallgöngur. Helst allt á sama deginum. Allt til þess að nýta daginn áður en veturinn legði aftur þyngingarteppið yfir mannfólkið. Þetta hafði meira að segja áhrif á hana sem var frekar framtakslítil allt árið um kring. Upp á fjöll hljóp hún þó ekki. 

Ómur af samtali barst út um opinn stofugluggann og Unni var kippt aftur inn í raunveruleikann. Þetta blessaða matarboð sem hana langaði ekkert til að vera í. Matarboð sem virtist ætla að teygja sig vel inn í sumarnóttina. Strákarnir, ef það var hægt að kalla karlmenn sem voru komnir vel yfir fimmtugt stráka, höfðu komið sér fyrir inni í stofunni með vindla og koníak. Stelpurnar áttu hins vegar að fylgja Evu í leiðsögn um nýju híbýlin og hlusta spenntar á allar fyrirætlanir hennar varðandi húsið. Ásamt ítarlegri útlistun á því hvað þegar var búið að gera. Unnur hafði fljótlega afsakað sig með því að segja að hún þyrfti að bregða sér frá. Eva benti henni í áttina að salerninu og Unnur hafði ekki haft fyrir því að leiðrétta hana. Hana langaði ekki til að sjá hneykslunarsvipinn á henni þegar hún segðist ætla út að reykja. Konur eins og Eva reyktu örugglega ekki. Þær hugsuðu vel um líkama sinn, hofið sitt, og byrjuðu alla daga á hugleiðslu og sellerísafa. Lítið fliss slapp frá Unni við þessa hótfyndni sína. Samband hennar og Evu var afar yfirborðslegt og þær vissu það báðar. Rúmlega tuttugu ára aldursmunurinn hafði auðvitað eitthvað að segja en það var ekki það eina. 

Hún drap í sígarettunni með skónum og ákvað að taka stubbinn ekki upp. Þessir fáu drykkir sem hún hafði drukkið voru örugglega farnir að hafa áhrif á hana og valda þessu kæruleysi. Hún ætti að fara að koma sér inn. Eva og konan hans Ingvars voru án efa farnar að undrast um hana. Það hvarflaði örsnöggt að henni að fá sér aðra sígarettu, kaupa sér aðeins meiri tíma áður en hún færi inn og reyndi að draga Egil heim. Á þessum tímapunkti var hann sennilega orðinn vel hífaður og jafnvel búinn að fá sér eitthvað annað. Þórður virtist alltaf eiga eitthvað til að gauka að Agli sem þáði yfirleitt allt sem að honum var rétt. Brothljóð barst út um gluggann og því fylgdi hlátur og köll eins og til að staðfesta þessar hugsanir hennar. Það var þá meiri fundurinn. Líklegast höfðu þeir ekkert náð að ræða um viðskiptin sem hafði verið yfirskin matarboðsins. Þeir voru sennilega löngu orðnir alltof fullir og vitlausir til þess að ræða alvarleg mál. Sjálf vildi hún sem minnst vita af því sem þeir brösuðu saman. Fannst alltaf eins og það hlyti að vera einhver ólykt af því sem Þórður og Ingvar komu að. En Egill hafði verið með stjörnur í augunum yfir þeim síðan hann var unglingur og það virtist ekkert ætla að breytast þó að hann væri kominn yfir fimmtugt. 

Raunveruleiki aðstæðnanna helltist yfir hana af fullum þunga. Hún var föst í neti sem hún hafði sjálf átt þátt í að hnýta og fannst hún ekki eiga skilið að losna úr. Gamalkunnug tilfinningin streymdi um æðarnar og óróleikinn dreifði úr sér. Unnur opnaði veskið í skyndi. Taugaóstyrk gramsaði hún eftir pínulitlu töflunum sem hún var alltaf með á sér. Hún notaði þær ekki oft. Bara þegar kvíðinn, sem mallaði alltaf í henni á hægagangi, virtist ætla að setja í fimmta gír. Unnur stakk töflunni upp í sig og gretti sig þegar hún rann niður þurran hálsinn. Svo dró hún andann djúpt og reyndi að setja sig í réttu stellingarnar til að fara aftur inn. 

Óljós hreyfing á jaðri sjónsviðsins fékk Unni til að staðnæmast. Hún sneri sér snöggt við og sá hvar eldri kona stóð við hliðið inn í garðinn við húsið á móti. Vanþóknunarsvipur konunnar leyndi sér ekki. Skyldi þetta vera konan sem Þórður hafði sagt þeim frá? Þessi sem hafði komið og kvartað yfir hávaðanum í innflutningspartýinu? Unnur sendi henni snöggt bros og sneri sér við. Hún ætlaði ekki að fara að dragast inn í nágrannadeilur Þórðar og Evu. Og satt best að segja vonaði hún að gamla konan yrði eilítill þyrnir í þessu nýja fullkomna lífi þeirra. 

Ískrið í hliðinu gaf til kynna að konan væri á leiðinni til hennar. Hún ætlaði sennilega að storma yfir til hennar og hella úr tuðskálum sínum. Unnur andvarpaði innra með sér og íhugaði að hlaupa af stað til að sleppa frá henni. 

„Fyrirgefðu?“ Rödd konunnar barst til hennar rétt í því sem Unnur sneri sér að húsinu. „Býrð þú hérna?“ Tóninn var krefjandi og bauð ekki upp á neitt annað en að hún sneri sér við. Hún forðaðist að horfa framan í konuna, langaði einhvern veginn ekki til að mæta þessu ásakandi augnaráði sem eldri konur voru sérfræðingar í. 

„Nei, ég er bara gestur hérna,“ svaraði Unnur og gramdist hversu mjóróma hún var. 

„Ég heyri að það er teiti í gangi.“ Konan kom nær henni. 

„Það heyrist ansi vel.“ 

Unnur þvingaði fram þolinmæðissvip. Taflan var farin að virka og hugur Unnar orðinn létt syndandi. Það var sennilega ekki sniðugt að blanda kvíðalyfjum saman við áfengi. 

„Já, Þórður og Eva buðu okkur og nokkrum vinum í mat …“ Hún ætlaði að segja eitthvað meira en konan greip fram í. 

„Mat?“ Hún leit á armbandsúrið sitt. „Ég vissi ekki að það tíðkaðist að borða kvöldmat eftir miðnætti.“ Röddin var beitt og nöldurtónninn leyndi sér ekki. 

„Það teygðist aðeins á þessu eins og gerist stundum.“ Brosið var farið að stirðna á andliti Unnar. Af hverju átti hún að standa hér um miðja nótt og taka við kvörtunum fyrir þeirra hönd? „Viltu að ég skili einhverju til þeirra? Þau taka það örugglega til greina.“ 

„Já, þú mátt segja þeim að Hansína hafi komið. Aftur.“ 

Munnur gömlu konunnar var nú orðinn eitt strik. Hún skynjaði greinilega að hún kæmist ekki lengra með þetta í kvöld. 

„Og að mér þætti vænt um …“ 

„Fyrirgefðu,“ greip Unnur fram í og starði loks framan í konuna sem horfði hissa til baka. „Sagðistu heita Hansína?“ 

„Já, ég sagði það. Hvers vegna spyrðu?“ Nú var konan farin að horfa á Unni eins og hún væri galin. 

Unnur svaraði ekki strax en virti konuna rannsakandi fyrir sér. Það voru svo sem fleiri konur sem báru þetta nafn þó það væri vissulega ekki algengt. Aldurinn passaði hins vegar. Og ef hún fletti tæplega fjörutíu árum af andliti konunnar gat þetta vel stemmt. 

„Ætlarðu að skila þessu til þeirra?“ Hansína tók með annarri hendinni um hálsmál sloppsins og dró að hálsinum. Unnur tók eftir því að hún var berleggjuð í inniskónum. 

„Já, fyrirgefðu … ég varð bara svo hissa þegar ég áttaði mig á því hver þú ert.“ Unnur gekk niður tröppurnar til gömlu konunnar sem horfði undrandi á hana. 

„Hver ég er? Hvað meinarðu?“ 

„Þekkirðu mig ekki aftur? Þetta er ég, Unnur.“ Einlægt bros flæddi um andlit Unnar og hún teygði hendurnar í áttina að gömlu konunni sem var enn sem steinrunnin. Svo birti yfir henni: „Unnur?“ Andlit hennar mýktist þegar hún áttaði sig á því hver þetta var sem stóð fyrir framan hana. „Unnur mín, ert þetta virkilega þú?“ 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórstjarnan gerir upp árið í myndbandi og minnist ekki orði á Ben

Stórstjarnan gerir upp árið í myndbandi og minnist ekki orði á Ben
Fókus
Fyrir 3 dögum

Heiðrún er með skilaboð til þeirra sem halda að þau hafi fitnað um jólin

Heiðrún er með skilaboð til þeirra sem halda að þau hafi fitnað um jólin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kvartaði undan verðlagi á kaffihúsi í Reykjavík og fékk að heyra það – „Ótrúlegt að borga fyrir þetta og væla svo“

Kvartaði undan verðlagi á kaffihúsi í Reykjavík og fékk að heyra það – „Ótrúlegt að borga fyrir þetta og væla svo“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý spáir fyrir Guðna og Elizu: „Það er allt í lagi að fara í sitthvora áttina og allir eru vinir“

Ellý spáir fyrir Guðna og Elizu: „Það er allt í lagi að fara í sitthvora áttina og allir eru vinir“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý svarar spurningunni sem brennur á fólki og segir að þetta verði næsti landsliðsþjálfari – „Hann er maðurinn“

Ellý svarar spurningunni sem brennur á fólki og segir að þetta verði næsti landsliðsþjálfari – „Hann er maðurinn“