Gunnar Ingi Guðmundsson, lagahöfundur, bassaleikari og tónskáld hefur sent frá sér sína aðra sólóplötu sem ber heitið My kind of Epic og er EP plata sem inniheldur fjögur ný tónverk eftir Gunnar Inga í epískum stíl.
„Á þessari nýju plötu er ég svona nokkurn vegin að lýsa minni eigin hugmynd um hvernig epísk tónlist á að vera og hljóma. Ég hef alltaf haft gaman að epískum tónverkum í gegnum tíðina með stórum hljóðheim og mikið af hljómum,“ segir Gunnar Ingi og nefnir til sögunnar áhrifavalda á borð við tónskáldin Hans Zimmer, John Williams, Allan Silverstri, James Horrner og fleiri.
„Ég reyni að taka hlustandann í einhverskonar ferðalag í gegnum ákveðið þema með tónlistinni á plötunni líkt og ég gerði á fyrstu plötunni minni Eyðibýli sem kom út í fyrra. Tónverkin eru ólík hvert öðru og má finna allt frá dramatík, sorg, dimmleika og alveg uppí ævintýraleg tónverk.“
„Ég byrjaði að vinna svokallaðar demo upptökur í nóvember í fyrra út í Póllandi þar sem ég var í Sync Camp writing vinnubúðum á vegum STEF ásamt 18 öðrum höfundum og tónskáldum frá ýmsum löndum. Opnunarverk plötunar heitir Journey to the magical world er afrakstur úr þeim vinnubúðum.
Hin tónverkin samdi ég vann ég hér heima og komu flestar hugmyndirnar við ýmiskonar fikt við píanóið þar sem ég settist niður og byrjaði bara að spila eitthvað út í loftið og beið eftir að geta gripið eitthvert stef eða einhverja laglínu til að vinna með og þróa nýtt tónverk úr því og úr því var þessi nýja plata.
Það var svo félagi minn Stefán Örn Gunnlaugsson í Studió Bambus sem sá um upptökur og hljóðblöndun og Sigurdór Guðmundsson í Skonrokk studio sem sá um masteringu.“
Gunnar Ingi vill þakka þeim Ásu Guðjónsdóttir fiðluleikara, Bryndísi Höllu Gylfadóttur sellóleikara og Stefáni Erni Gunnlaugssyni pianóleikara og upptökumanni fyrir allan þeirra hljóðfæraleik og framlag á plötunni. Ennfremur:
„Ég vil þakka félagi íslenskra hljómlistarmanna ( FÍH ) fyrir styrkveitinguna fyrir gerð plötunnar.“
Hægt er að hlusta á plötuna í spilaranum hér fyrir neðan: