fbpx
Sunnudagur 01.september 2024
Fókus

Bragi flutti skuldum vafinn til Miami en sneri blaðinu við með dugnaði og elju – Efnaðist á fasteignum og rekur öflugt fyrirtæki ytra

Fókus
Sunnudaginn 1. september 2024 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Texti: Svava Jónsdóttir

Bragi Sigurðsson dreymdi um að verða sálfræðingur. Hann var á þriðja ári í sálfræði þegar hann hætti í náminu og fór í fullt starf og nokkrum árum síðar stofnaði hann líkamsræktarstöð. Reksturinn gekk illa og voru margir í ábyrgð fyrir hann og ákvað hann þrítugur að flytja vestur um haf og reyna að finna sína hillu í lífinu. Hann byrjaði með tvær hendur tómar sem „handy man“ og skuldaði hópi fólks á Íslandi, sem hann borgaði síðar, og fór svo að vinna sem fasteignasali. Tíminn leið, tækifærin leyndust víða og þrátt fyrir skakkaföll vestanhafs á tímabili upplifði Bragi ameríska drauminn og er í dag fjárfestir og rekur eigið fasteignafyrirtæki, Four Corners, og er með 15 manns í vinnu. Í Bandaríkjunum kynntist hann ástinni frá Jamaíka og í um 600 fermetra húsinu í Miami lifa þau hamingjusömu lífi.

Sjálfstæður og hugrakkur sem barn

Bragi Sigurðsson fæddist árið sem Bítlarnir gerðu allt vitlaust með laginu Hey Jude. Hann var mikið í íþróttum á æskuárunum svo sem handbolta og fótbolta og segist ungur hafa orðið sjálfstæður. „Mamma hefur talað um að ég hafi verið þriggja ára þegar ég fór fyrst einn út í búð; það hefur sennilega verið lítið af bílum og lítil áhætta á þeim tíma. Ég man eftir því að hafa verið mjög sjálfstæður og hugrakkur sem barn. Ég vílaði ekki fyrir mér að gera hluti.“

Hann fékk snemma mikla bíladellu og lék sér mikið með bíla frá því hann var smástrákur. „Bíladellan var yfirgnæfandi. Þegar ég var 16 ára fékk ég sumarvinnu á Ísafirði í fiskvinnslu; ég fluttist bara þangað, leigði herbergi og fór að vinna í frystihúsinu með það markmið að ég gæti keypt bíl áður en ég yrði 17 ára. Og það tókst. Ef ég setti mér markmið var ég vanur að ná þeim einhvern veginn.“

Móðir Braga var 18 ára þegar hann fæddist og faðir hans var 19 ára og átti hann tvo yngri bræður en annar lést rúmlega tvítugur. Hann segir að hann hafi alltaf haft ríka tilhneigingu til að hugsa um alla og sjá um alla. „Ég velti því oft fyrir mér hvert hlutverk mitt ætti að vera; hvernig ég ætti að vera sem slíkur í mínu lífi. Ég var kannski ekki með einhverjar ákveðnar hugmyndir en mér fannst ég vera þannig gerður að ég ætti að vera að sjá um aðra. Þessi hugsun var rík í mér og litaði svolítið námsferilinn sem ég valdi,“ segir Bragi sem stundaði nám í sálfræði við Háskóla Íslands í þrjú ár án þess að ljúka námi og vann hann alltaf með náminu.

Aðeins of viðkvæmur fyrir vinnu í athvarfinu

Hann fékk vinnu hjá unglingaathvarfinu þegar hann var kominn í háskólann. „Ég hafði mjög gaman af því að vinna með unglingum og ég fór í sálfræðina af því að mig langaði til að vinna með fólki og láta gott af mér leiða. Sem betur fer fór það nú ekki svo að ég endaði í því; ég kynntist mörgum sálfræðingum á þessum tíma í gegnum störfin hjá unglingaathvarfinu og sá hvað þeir voru að díla við erfiða hluti og hvað þetta tók mikið á þá. Ég sá fyrir mér að þetta myndi verða mér svo erfitt af því að ég er kannski aðeins of viðkvæmur. Mér fannst gaman að vinna með unglingunum og fékk mikið út úr því en ég áttaði mig fljótlega á því að þetta væri ekki alveg rétta leiðin fyrir mig.“

Bragi hafði líka unnið með skólanum á Hard Rock og þegar hann var á þriðja ári í sálfræðinni var honum boðin þar vinna sem framkvæmdastjóri og hætti hann þess vegna í náminu. „Ég sökkti mér í það og hafði mikið gaman af.“

Bragi fór vinnunnar vegna nokkrum sinnum til Bandaríkjanna, enda Hard Rock stofnað í Bandaríkjunum. Hann hætti svo störfum þar eftir þrjú ár.

Tómur tækjasalur

Bragi segir að dramatímabilið í sínu lífi hafi hafist þegar hann stofnaði líkamsræktarstöðina Betrunarhúsið í Garðabæ ásamt þáverandi kærustu sinni sem er bandarískur ríkisborgari.

„Ég fékk alla til að hjálpa mér til að setja þetta af stað – fjölskyldu, vini og vandamenn – og allir voru í ábyrgð fyrir mig. Það var mjög dramatískt hvað allir voru tilbúnir til að hjálpa og ég kannski sannfærandi að láta alla hjálpa mér til að fara af stað með þetta.“ Hann kímir. „Við opnuðum þetta 1996 þegar ég var 27 ára. Þetta gekk brösuglega til að byrja með. Við höfðum pantað tæki og þau voru ekki komin þegar við ætluðum að opna þannig að við vorum með tóman tækjasal og vorum bara með aerobik-tíma.

Þetta fór svolítið erfiðlega af stað og ég sökk meira og meira í skuldir. Svo komu tækin á endanum og við náðum smá veltu og þetta fór að ganga. Árið eftir vorum við komin með um 2.500 meðlimi. En því miður var ég kominn í það miklar skuldir að ég náði ekki að rétta mig af. Það var sama hvað gerðist; við vorum alltaf með skuldahala upp úr öllu valdi. Þannig að eftir tvö og hálft ár var ég kominn á „limit“ með hvernig ég ætti að halda þessu áfram. Ég byrjaði að fá inn fjárfesta og „partnera“ en það gekk ekkert.

Á endanum kom svo „partner“ inn og gerði við mig samkomulag um að taka yfir reksturinn – hann tók sér þær skuldbindingar að borga niður tæki og húsaleiguna en ekki gera upp neinar skuldir. Ég skuldaði um 20 milljónir íslenskar. Þetta var ekki mjög bjart framhald fyrir mig og þetta þróaðist þannig að samstarfið gekk engan veginn og ákvað ég að fara til Ameríku til að reyna að átta mig á því hvað ég ætti að gera næst.“

Líkamsrækt hefur skipað stóran sess í lífi Braga

Sonurinn á Íslandi

Bragi segir að þessi tími sé sá erfiðasti sem hann hefur upplifað. Hann talar um „skipbrot“ varðandi til dæmis það að hann skuldaði fólki pening sem hafði verið í ábyrgð fyrir hann og sem hann gat ekki þá borgað til baka þótt hann hafi gert það síðar. Hann segir að hugarfarið hafi þó alltaf verið að hann myndi finna leiðina og að þetta myndi reddast. Þótt þetta hafi verið erfitt segist hann hafa orðið sterkari þegar upp var staðið.

Hvað lærði hann af þessu?

„Þetta óttaleysi við að fara í rekstur er kannski kostur en það getur komið manni á hálan ís. Og það gerði það. Ég lærði að ég get ekki vaðið áfram í blindni; ég verð að hafa betra plan. Vita aðeins betur hvað ég er að gera.“

Bragi á son með íslenskri konu sem var sjö ára þegar Bragi flutti vestur um haf. Og hann segir að eitt það versta við að flyja frá Íslandi hafi verið að geta ekki hitt son sinn eins og áður. „Hann var auðvitað mjög tengdur mér og átti mjög erfitt þegar ég fór. Hann upplifði eins og pabbi sinn hefði dáið þegar ég fór. Það liðu tvö eða þrjú ár þar til ég kom til Íslands þannig að hann átti mjög erfiðan tíma. Við eigum mjög gott samband í dag og hann er orðinn pabbi og á tvö börn.“

Bragi viðurkennir að þetta hafi haft neikvæð áhrif á samband þeirra feðga á tímabili. „Þetta hafði neikvæð áhrif í einhver ár. Hann gerði tilraun til að búa hjá mér en gafst upp á því og fór aftur til Íslands. Við höfum átt margar góðar stundir og hann kom alltaf til mín reglulega á sumrin á meðan hann var yngri. Það er ennþá hluti af þessu í honum; þetta hafði mikil áhrif á hann. Ég sé hvernig hann er við sín börn. Hann er rosalega góður og hlýr faðir. Hann ætlar ekki að klikka á því. Það er kannski það jákvæða sem kemur út úr þessu.“

Bragi ásamt syni sínum og barnabarni

Dramatískur og erfiður tími

Bragi og þáverandi kærasta hans fluttu til Miami haustið 1999 en þau skildu árið 2001. Sá staður varð fyrir valinu vegna þess að æskuvinur Braga bjó þar og hann segir að hann hafi verið eina baklandið vestanhafs.

„Ég byrjaði að vinna sem „handy man“ og var að bjarga mér til að reyna að komast af. Flestar skuldir voru í ábyrgð hjá einhverjum fjölskyldumeðlimum og öðrum þannig að þetta var mjög erfiður og dramatískur tími.

Það liðu nokkrir mánuðir og framtíðin var ekkert sérlega spennandi en ég hafði samt sem áður reynslu og kunnáttu í að díla við fólk. Ég upplifði samt aldrei vonleysi. Ég var bara að leita að tækifærum upp á hvernig ég myndi spjara mig. Ég ákvað að verða fasteignabraskari. Ég ætlaði að kaupa og selja eignir og reyna að búa þannig til peninga en ég hafði náttúrlega enga peninga til þess þannig að ég ákvað að gerast fasteignasali með þann tilgang að verða svo fjárfestir eftir að hafa náð kannski að þéna eitthvað.“

Bragi varð sér úti um réttindi sem fasteignasali. Kærastan varð konan hans, en hún er bandarískur ríkisborgari, þannig að hann fékk græna kortið.

„Ég man alltaf eftir því að vorið 2000 höfðum við ekki lengur efni á leigunni þar sem við bjuggum og laumuðumst við út að kvöldi til og leigðum síðan lítið stúdíó í gamalli byggingu sem var í frekar mikilli niðurníðslu. Ég lagðist upp í gamalt rúm og inni var gaslykt og gluggar voru brotnir. Mér fannst ég vera kominn alveg niður á botninn. Ég man eftir að hafa legið þar inni, horft upp í loftið og hugsað með mér að þetta hlyti að vera botninn hjá mér. Það reyndist vera rétt en ég fékk svo vinnu sem fasteignasali.“

Seldi 49 eignir á einu ári

Bragi segir að sér hafi ekki gengið vel fyrstu tvo til þrjá mánuðina og þá þénaði hann ekki neitt. „Svo loksins komst ég að þeirri niðurstöðu að fólk væri að leigja fyrir meira en það kostaði að kaupa sumar af þessum gömlu íbúðum þannig að ég fór að sannfæra alla sem vildu leigja um að kaupa í staðinn og reyna að fjárfesta. Ég sökkti mér í það að þekkja markaðinn það mikið að ég þekkti eiginlega allar byggingar á Miami Beach eftir nokkra mánuði vegna þess að ég hafði hreinlega ekkert annað að gera. Ég var bara alltaf að vinna. Ég var alltaf að skoða og reyna að gera eitthvað.

Ég setti mér það markmið að selja í hverri viku; það var markmið mitt að gera samning vikulega. Og það gekk svo vel að ég var búinn að selja 49 fasteignir á einu ári; aðallega litlar íbúðir. Ég heyrði það nokkrum árum síðar að fasteignasalar selja almennt um þrjár eignir á ári. Ég var feginn að ég heyrði þetta ekki fyrr en þá hefði ég ekki verið svona stressaður í að reyna að standa mig í hverri viku,“ segir Bragi og hlær.

„Þarna var komið flæði og hlutirnir farnir að ganga.“ Og hann segir að sumir viðskiptavinir sínir hafi keypt fleiri en eina eign.

„Um leið og ég var kominn með einhverja peninga fór ég að fjárfesta sjálfur og árið 2005 var ég farinn að þéna um milljón dollara á ári. Þá var ég byrjaður að kaupa og átti um fimm eignir og var ýmislegt í gangi. Það var auðvelt að fá lán á þessum tíma. Svo kom kreppan 2007 þegar botninn datt úr markaðnum og þá fóru allir að reyna að semja við banka og losna við eignirnar og það fór allt í vitleysu. Ég náði að selja tvær af þeim sex eignum sem ég átti þá og þurfti ég að semja við bankana út af hinum fjórum og var aftur kominn í töluvert miklar skuldir.

Ég var samt duglegur í fjárfestingum og enginn kúnni hjá mér var að tapa neinu. Allir sem voru í viðskiptum voru vel settir og létu þetta sigla í gegn. Það þurfti ekki nema tvö ár og þá var þetta komið í lag þannig að það fóru allir þokkalega vel í gegnum þetta. Ég seldi mikið og náði mikilli sveiflu upp úr þessu og eftir 2008 byrjaði ég að fara aftur mikið í gang. Maður var hins vegar í miklum skuldum þannig að þetta tók svolítinn tíma.“

Hæðir og lægðir

Bragi opnaði eigin fasteignasölu á þessum tíma og tók inn meðeiganda og segir hann að það hafi reynst vera mistök. „Hann var ekki alveg á sama „kalíberi“ og ég í sölu þannig að eftir þrjú ár var þetta orðið „ups and downs“.

Staðan hjá mér árið 2012 var ekkert betri. Ég var ennþá í töluvert miklum skuldum og þurfti að snúa við blaðinu og einbeita mér að því sem ég var að gera og ekki vera með rekstur. Ég fór að vinna hjá Sothebys-fasteignasölunni og einbeitti mér að því að vera bara að selja og ekkert vera að byggja upp rekstur. Og þá náði ég mér aftur á mjög gott skrið,“ segir Bragi og á við tímabili frá árunum 2012-2022. „Ég grínast oft með það að ég fór úr mínus einni milljón dollara í eign í tæplega 15 milljónir dollara í plús á þessum tíma.

Það voru margar góðar ákvarðanir teknar á þessum tíma og margt gott gerðist. En fyrst og fremst var ég með mikinn grunn; þó ég væri í skuldum þá var ég með mikinn grunn og gat þénað vel. Og fjárfestar voru farnir að treysta mér meira. Ég fékk „partnera“ sem vildu fjármagna það sem ég var að gera og það gekk á ýmsu og það gekk mjög vel. Það var á þessu tímabili sem umbreytingar áttu sér stað en fyrst og fremst vegna þess að ég náði að byggja upp mitt virði; og fólk ákvað að fara þá leið að fjáresta í mér.“

Að kynnast sjálfum sér

Sálfræðin hafði togað í Braga og í kringum 2001 fór hann að vinna með sjálfan sig. „Ég var virkilega opinn fyrir því hvernig ég ætti að vinna með sjálfan mig og vinna úr mínum málum. Þannig að árið 2001 byrjaði ég að fara á Tony Robbins-námskeið, segir Bragi en Robbins er meðal annars þekktur fyrir sjálfshjálparbækur sínar. „Ég byrjaði að sökkva mér svolítið ofan í „personal development“. Ég fór út um öll Bandaríkin og víðar til að vinna í sjálfum mér. Ég lagði mikla áherslu á það snemma og áttaði mig fljótlega á því að það væri það besta sem ég gæti gert; að ná betri tökum á mínu eigin tilfinningalífi og hvernig ég dílaði við mínar aðstæður. Þannig að ég er í rauninni heppinn að það hafi verið leiðin fyrir mig. Ég byggði upp mikinn andlegan styrk og þol gagnvart aðstæðum.“

Bragi rekur í dag fyrirtækið Four Corners Real Estate og er með 15 manns í vinnu. Sjálfur er hann að mestu hættur að vinna sem fasteignasali en sér meira meðal annars um fjárfestingar og markaðsmál og hann hlúir vel að starfsfólki sínu. Listaverk í ramma hangir uppi á vegg á skrifstofunni hans; mynd af Stapafelli.

Bragi fyrir utan skrifstofu fyrirtækisins

 

„Ég legg áherslu á að byggja upp mitt fólk og kenna því hvernig það á að vinna í sínum andlegu og tilfinningalegu þáttum til þess að ná tökum á sjálfu sér þegar það er í sölumennskunni þar sem skiptir máli að vinna traust, leiða fólk og vera í leiðtogahlutverki; þetta eru allt hlutir sem ég er að kenna og vinna með í dag. Ég er með alla starfsmennina 15 í „mentorship“ og þetta snýst um hvernig þeir byggja sig upp andlega og strategískt og allt sem snýr að „personal development“.

Það er mikil samkeppni í Miami á þessum markaði og allir að slást um fólkið. Það þarf sjálft að hafa „value“. Lykillinn að því að einhver vilji vera í viðskiptum er að viðkomandi sé einhvers virði. Starfsfólkið verður að líta þannig á sjálft sig. Þetta snýst meðal annars um hvernig fólk vinnur með sjálft sig og tilfinningaþroska.“

Hann talar um fasteignamarkaðinn í Miami sem hann segir að sé búinn að vera í stöðugum vexti í mörg ár og sérstaklega undanfarin ár. „Það hefur aukist mikið að fólk flytji hingað og hefur fasteignaverð rokið upp um 50-60% á þremur árum. Það þarf að taka ákvarðanir á réttum tíma og njóta góðs af því sem markaðsöflin skila.

Ég var sjálfur mest orðið í „high end-markaðnum“. Ég seldi mikið af stórum eignum sem kostuðu yfir fimm milljónir dollara. Það þróaðist þannig.“

Hann sem er með 15 manns í vinnu vill stækka fyrirtækið enn meira. Hann segir þó að mestur peningurinn komi í gegnum starf sitt sem fjárfestir. „Það er raunverulega þar sem peningarnir eru að koma inn. Ég er fær í að finna réttar staðsetningar og mér hefur gengið vel í því lengi. Ég kaupi eignir með það í huga að landið verði verðmætara en eignin með tímanum og svo kemur byggingaraðili og borgar meira fyrir eignina.“ Og þá er gamla byggingin rifin og ný byggð.

Ástin knýr dyra

Bragi kynntist núverandi eiginkonu sinni, Michelle, árið 2007.

„Hún er alveg yndisleg.“

Hann segir að það sé furðulegt hvernig þau kynntust.

„Ég var aldrei fyrir að fara í verslunarmiðstöðvar“. Það var einhvern tímann kúnni með mér sem vildi fara í Bal Harbour Shops sem er fínt „moll“ í Miami og þekkt fyrir að vera með fín merki. Maðurinn vildi að ég keypti skyrtu sem kostaði um 200 dollara sem mér fannst vera of mikið. Ég keypti ekki dýr föt á þessum tíma. Ég var nokkrum dögum síðar úti að ganga í skyrtunni og þá talaði einhver kona um að þetta væri flott skyrta sem ég væri í og þá hugsaði ég með mér að ég ætti kannski að gera þetta að mínu „uniform“ og kaupa fleiri svona skyrtur.

Ég fór aftur í þetta „moll“ og hafði ég bara komið þangað einu sinni eða tvisvar áður. Ég vissi að búðin var á efri hæðinni en mundi ekki nákvæmlega hvar þannig að ég fór í annan endann og fór upp. Það var búð í horninu og sá ég Michelle sem var þar inni.“ Hún vann í versluninni. „Ég verð að viðurkenna að ég varð heillaður þegar ég sá hana í gegnum gluggann. Ég fór inn og talaði við hana; ég þóttist vera að leita að einhverju fyrir mömmu. Þetta var „kasmír-ullarbúð“. Svo missti ég kjarkinn, fór út og keypti mína skyrtu og ætlaði svo að fara en þegar ég ætlaði að borga bílastæðisgjaldið með korti kom í ljós að það var bara hægt að gera það með peningum. Ég þurfti þess vegna að snúa við, fara aftur inn í „mollið“ og ná í pening í hraðbanka. Þá hugsaði ég með mér að ég yrði að tala aftur við konuna; mér fannst þetta vera tákn um að ég yrði að fara þangað aftur. Þannig að ég fór aftur upp, keypti eitthvað handa mömmu og náði að tala aftur við Michelle og fékk símanúmerið hennar. Og okkar saga byrjaði þarna.“

Michelle er frá Jamaíka og átti 10 ára gamlan son. Þau Bragi einguðust síðan son tveimur árum eftir að þau kynntust sem er núna 15 ára gamall.

Michelle og Bragi hafa byggt upp gott líf í Miami

Bragi segir að Michelle sé búin að hafa mikil og góð áhrif á sig. „Hún skapaði fyrir mig stöðugleika og heimili. Ég var búinn að vera í limbói með sjálfan mig. Ég var bara að vinna og hugsaði ekki um neitt annað þannig að það náðist meira jafnvægi í mitt líf eftir að ég kynntist henni.

Þar sem Michelle er frá Jamaíka þá erum við úr sitthvorum heiminum en við eigum margt sameiginlegt. Við lifum mjög öguðu lífi. Við förum í líkamsrækt rúmlega fimm á hverjum virkum morgni og förum um klukkan átta á laugardagsmorgnum; við erum auk þess með líkamsræktaraðstöðu heima og æfir hún aftur síðar um daginn þannig að hún æfir í tvo tíma á dag. Það er engin kvöð. Þetta er bara það sem við gerum. Um klukkan hálfátta á sunnudagsmorgnum fer ég alltaf í mótorhjólatúra með félögum mínum.

Ég er búinn að hanna mitt líf. Ég er alltaf með plön í gangi og Michelle er mjög sátt við að hoppa inn í þau. Ég nýt góðs af því að hún er samstíga mér í þessu. Við borðum til dæmis yfirleitt kvöldmat klukkan fjögur á daginn og ekkert meira fyrr en næsta dag; og Michelle borðar ekki mat nema á milli klukkan ellefu á morgnana og fjögur á daginn. Við erum búin að vera saman í 17 ár og hún hefur ekki elst um einn einasta dag. Hún er 52 ára og lítur út fyrir að vera 25 ára.“

Hvað er ástin í huga Braga? „Ég er hræddur við að tala um þetta og vil ekki hljóma eins og ég sé á svolítið öðru plani en flestir aðrir. Ég er ofboðslega heppinn. Það eru góð samskipti á milli okkar. Það hefur tekið tíma að verða betri með árunum. Við vorum ekki „perfectly in line“ til að byrja með en við leggjum okkur bæði fram við að skilja hvort annað betur. Hugmyndin er að vera hamingjusamur í eigin skinni og líða vel sjálfur og setja ekki ábyrgðina á einhvern annan. Það er alltaf mín ábyrgð að ég sé hamingjusamur. Það er ekki hennar ábyrgð. Hún er alveg eins með það. Við erum laus við að láta makann skapa sér hamingju. Michelle er ekkert spennt fyrir því að fara upp úr klukkan fimm á morgnana með mér að æfa; það er ekkert voðalega áhugavert.“ Hann hlær. „Hún veit að mér finnst gaman að hafa hana með og þá gerir hún það fyrir mig. Og hún veit að það er gott fyrir hana sjálfa.“

Bragi segir að þau eigi gott líf og þau njóta lífsins og hann bætir við að hann vinni ekki eins mikið og áður og reyni að vera búinn að flestu í hádeginu þótt hann sé þó oft að vinna fram eftir degi. Skrifstofan er í sama hverfi og heimilið þannig að það tekur innan við fimm mínútur að aka þangað.

Michelle

Enn með bíladellu

Bragi rekur fasteignasölu í dag þótt hann sé sjálfur hættur að starfa sem fasteignasali og hann fjárfestir í byggingum. Hvernig býr hann sjálfur? Jú, hann keypti ásamt öðrum aðila lóð árið 2017, og er síðan búinn að kaupa hlut viðkomandi í lóðinni, og lét byggja þar um 600 fermetra, tvílyft hús þar sem fjölskyldan býr. Á lóðinni er sundlaug. Bragi segir að húsið hafi nánast tvöfaldast í verði frá því það var byggt. Og reglulega koma gestir frá Íslandi og dvelja hjá Braga og fjölskyldu; hann segir að þeir komi oftar heldur en gestir frá Jamaíka, enda Íslendingarnir að leita í sólina og hitann.

Heimili Braga og Michelle í Miami er glæsilegt

Michelle varð heimavinnandi húsmóðir áður en sonur hjónanna fæddist og hefur síðan verið heimavinnandi. Bragi segir að hún þrífi ein um 600 fermetra húsið og hafi lítið fyrir því.

Hann fjárfestir líka í bílum og er með sömu bíladelluna og þegar hann var strákur. „Ég á svakalega flottan McLaren-sportbíl sem var að koma út. Svo á ég þetta venjulega; Range Rover og einhverja bíla.“ Hann á fjóra bíla svo sem Porsche og svartan Golf sem hann segist nota til að snattast.

Bragi er með mikla bíladellu og á safn lúxusbíla

Er Bragi búinn að upplifa ameríska drauminn? „Já, ég held að það megi segja það. Maður hélt að hann tengdist alltaf peningum en staða mín er sú að ég er mjög heppinn með alla þætti lífsins. Ég áttaði mig snemma á því að ég þyrfti að hugsa um alla þættina; börnin mín og fólkið mitt. Ég er í góðu sambandi við mikið af fólki og það er góður andi í vinnunni. Ég legg mikla áherslu á að vera með kúltúr þar þannig að allir geti tjáð sig og allir séu með.“

Það er oft heitt og rakt á sumrin í Flórída og daginn sem viðtalið er tekið er hitinn um 35 stig. „Það er aðeins of heitt. Sumrin hérna eru mjög heit og rök. Það er betra að vera á Íslandi.“

Bragi viðurkennir að hann sé með heimþrá. „Ég er mikið heima. Ég var á Íslandi síðast í vor og ég er þar yfirleitt á sumrin en það er búið að vera svo mikið að gera í sumar að ég komst ekki. Ég kem náttúrlega um jólin og hugsanlega eitthvað fyrr.“ Og hann segir að hann muni væntanlega í vetur kaupa íbúð á Íslandi til að vera þar á sumrin.

Þá getur hann hlustað á dirrindí lóunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Móðir vill koma sonunum út og auglýsir í Bændablaðinu – „Með þrjá drengi gefins á gott heimili“

Móðir vill koma sonunum út og auglýsir í Bændablaðinu – „Með þrjá drengi gefins á gott heimili“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ari Trausti veitir góð ráð um jökla- og íshellaferðir

Ari Trausti veitir góð ráð um jökla- og íshellaferðir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gerður í Blush malar gull – „Ótrúlega sátt með þetta allt saman“

Gerður í Blush malar gull – „Ótrúlega sátt með þetta allt saman“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bjuggu saman í húsvagni í byrjun sambandsins

Bjuggu saman í húsvagni í byrjun sambandsins