fbpx
Þriðjudagur 28.janúar 2025
Fókus

Þetta segja Íslendingar að hafi breyst til hins betra á Íslandi á síðustu tíu árum

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 9. ágúst 2024 18:00

Íslendingar fagna karlalandsliðinu í fótbolta á Arnarhóli árið 2016. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Mynd/Eyþór

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við Íslendingar eru ekkert feimin við það að kvarta undan heimalandinu. Þar fer einna mest fyrir hinu dyntótta veðurfari, verðlaginu sem neitar að hætta að hækka og húsnæðismarkaðnum sem virðist vera innblásinn af stjórnleysistefnunni. Það kemur þó fyrir að við séum ánægð með landið okkar. Í nýjum umræðuþræði á samfélagsmiðlinum Reddit er varpað fram þeirri spurningu hvað hafi breyst til hins betra hér á landi á síðustu 10 árum. Svörin eru margvísleg allt frá útbreiddari notkun á rafrænum lausnum til þess að íslenskir karlmenn séu síður feimnir við að hegða sér á máta sem áður hefur verið tengdur kvenlægum staðalímyndum.

Hér verða tekin nokkur dæmi um svör.

Einn aðili er sérstaklega ánægður með rafrænar lausnir:

„Flest er hægt að gera rafrænt orðið, þarf ekki allt að vera prentað út í þríriti og vottað heldur notar maður rafræn skilríki fyrir margt núorðið. Það er það eina sem mér dettur í hug.“

Það eru þó ekki allir sammála því að það sé ekkert nema gott að segja um rafrænar lausnir:

„Sem er ókostur líka. Þekki einn sem týndi símanum og var að fara að leigja íbúð, gat ekki skrifað undir leigusamningin því hann var ekki með rafræn skilríki og seinkaði það afhendingu um viku.“

„Mér finnst það mikil framför að geta gert hlutina rafrænt, en er sammála þér að það sé afturför að vera neyddur til að gera hluti þannig. Ég vil geta skilið símann eftir heima og samt eiga möguleika á að taka þátt í þjóðfélaginu.“

Kvenlegir drykkir

Einn einstaklingur sem svarar spurningunni segir það hafa breyst til hins betra undanfarin áratug að íslenskir karlmenn séu síður feimnir við að vera eilítið kvenlegri:

„Stereótýpur hvernig karlar „eiga að vera“ hefur batnað.

Mjög saklaust en þó lýsandi dæmi: Fyrir 10 árum var ég að afgreiða á bar og á hverri helgarvakt voru ca 5-10 karlar sem komu þegar vinirnir sáu ekki til, pöntuðu sér cider, sex on the beach eða álíka og báðu um að það yrði sett í annað glas svo að drykkurinn þekktist ekki sem „konudrykkur“. Um daginn tók ég vakt og þetta kom aldrei upp, þvert á móti þá kölluðu þeir á vinahópinn „HEY, FLEIRI SEM VILJA SEX ON THE BEACH?“

Fyndnasta fyrir 10 árum var hversu oft þessir menn voru saman í hóp, vissu bara aldrei af hver öðrum.

Tölum um tilfinningar

Einn aðili vill meina að það hafi breyst til hins betra hvernig dregið hafi úr þöggun um geðsjúkdóma:

Geðsjúkdómar minna tabú.

Annar aðili tekur undir þetta og hrósar einnig íslenskum karlmönnum fyrir að vera opnari:

Sömuleiðis minna tabú að fara til sálfræðings, já og bara fyrir karla heilt yfir að tjá tilfinningar sínar.

Þó eru ekki allir sammála því sem taka þátt í umræðunum að Íslendingar séu orðnir skilningsríkari gagnvart þeim sem glíma við andleg veikindi.

Fjölbreyttari flóra veitingahúsa og meiri heimsending

Einn aðili er ánægður með aukin aðgang að heimsendingum en telur það þó tvíeggjað sverð:

Meiri séns á heimsendingu og fleiri svipaðri þjónustu. Það er búið að gera manni ansi auðvelt að fara alls ekki út úr húsi, svo er spurning hversu gott það er í raun og veru.“

Einn einstaklingur er ánægður með áhrif ferðamennskunnar á veitingahúsaflóruna:

Með tilkomu aukinnar ferðamennsku hafa gæði framboðs á veitingastöðum um allt land batnað til muna. Fyrir 10 árum var fátt um fína drætti á hringveginum annað en vegasjoppur og þessháttar.

Betri í umferðinni og þarf ekki að hringja

Einn aðili fullyrðir að umferðarmenningin sé orðin betri en hún var fyrir 10 árum:

„Mögulega breyting sem hefur skeð á lengri tíma enn tíu árum enn fólk hegðar sér almennt betur í umferðinni upp til hópa. Mun minna um hrað akstur eða að fólk sé að fara yfir á rauðu. Það er ekki svo mörg ár síðan að maður sá einhver fast and the furious fan á impressu sikk sakka milli bíla á 140 uppá hvern einasta dag.“

Enn annar er mjög ánægður með að þurfa síður að hringja til að óska eftir þjónustu eða panta vörur og geti þess í stað treyst á öpp og vefsíður:

„Mér hefur alltaf fundist óþægilegt að hringja eftir þjónustu. Svo er maður með spurningar eða flókna pöntun eða þjónustu. Svo strögglið að kanna hvaða tími henntar. Ég kalla þetta símakvíða.

Domino’s appið er snilld. Ég pantaði nær aldrei pizzu áður nema vera búin að skrifa allt niður og tala með róbóta rödd nánast. Noona appið algjör game changer til að panta allann fjandann. Ég var í Póllandi um helgina og fór á safn og sá að ég var í vitlausri röð eftir töluverða bið. Var í röð fyrir þá sem áttu miða og sá svo aðra röð sem var fyrir miðakaup og ég bara fokk, ég þarf fyrst að fara í hina röðina og svo aftur í þessa. En ég skellti mér á síðu safnsins og keypti miða og þurfti því ekki að eyða tíma í tvær raðir.

Ef það er til app til að auðvelda mér þá vil ég það. Ég elska líka sjálfsafgreiðslukassa og enn betra ef ég get skannað og raðað í pokana meðan ég labba um búðina og sæki vörur.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Mikið áfall fyrir karlmenn að missa blöðruhálskirtilinn og reisnina

Mikið áfall fyrir karlmenn að missa blöðruhálskirtilinn og reisnina
Fókus
Í gær

Myndband Sunnevu rataði á mjög frægan miðil

Myndband Sunnevu rataði á mjög frægan miðil