Þar skrifar hún um gaslýsingu – hugtak sem hefur verið nokkuð fyrirferðarmikið í umræðunni undanfarin misseri. Ragnhildur nefnir nokkur dæmi af handahófi um gaslýsingu:
„Þú ert alltof mikið snjókorn. Þolir ekki neitt.“
„Fyrr má nú vera hvað þú ert dramatískur.“
„Ég var bara að djóka… má bara ekkert segja við þig.“
„Nú ertu að bregðast alltof harkalega við enn og aftur.“
Ragnhildur segir að þegar við fáum gaslýsingu „lóðbeint í smettið“ eftir að hafa sett mörk varðandi hvaða talsmáta við látum bjóða okkur verðum við eðlilega rugluð í ríminu um eigin tilfinningar.
„Þú óttast að viðbrögð þín séu of dramatísk. Þú veltir stöðugt fyrir þér hvort þú sért of viðkvæm. Þú heldur að þú sért ekki normal. Niðurlæging, einelti, ónærgætnar athugasemdir eru ekki efni í brandara. Ef þú hefur tilfinningagreind þá hugsarðu áður en þú talar, og veist hvað mun særa náungann. Ef þú hefur kímnigáfu þá segirðu brandara sem báðir hlæja að. Ef þú ert alvöru uppistandari og brandarakall þá velurðu grín sem setur ekki eina manneskju úr hópnum undir ljóskastarann. Þú ert ekki snjókorn, viðkvæm, dramatísk, eða móðgunargjarn ef grínið niðurlægir þig. Að skýla sér bakvið brandara eins og ferðamaður í norðanátt bakvið strætóskýli er normalísering á gaslýsingu,“ segir Ragnhildur og bætir við að gaslýsing sé andlegt ofbeldi sem er ætlað að láta þolandann efast um eigin upplifun og tilfinningar.
Ragnhildur segir að besta ráðið sé að standa fast á sínu og treysta á að fyrstu viðbrögð séu eðlileg og rétt. Hún nefnir dæmi um góð svör:
„Ég vil biðja þig um að segja mér ekki hvaða tilfinningar ég er að upplifa“
„Ég er ekki að hlæja, vegna þess að mér finnst þetta ekki fyndið.“
„Ég hef rétt á að bregðast svona við þegar mér finnst að mér vegið.“
„Ég vil biðja þig að virða mín viðbrögð, þau eru ekki of dramatísk að mínu mati.“
„Ég vil biðja þig að grínast ekki á þennan hátt við mig aftur.“
„Ég vil eiga samskipti sem byggjast á gagnkvæmri virðingu.“
Ragnhildur segir að lokum að gaslýsing gerist ekki bara í ástarsamböndum heldur geti hún brotist fram víða. Foreldrar, vinir, systkini, vinnufélagar og yfirmenn geti gaslýst þig.