Bresk blaðakona reyndi að gera svokallað „rawdogging“ í sjö klukkutíma löngu flugi. En það er nýjasta æðið á TikTok. Reyndist það þó hægara sagt en gert.
Rawdogging er undarlegt æði sem hefur náð töluverðum vinsældum hjá notendum TikTok. Gengur það út á að sitja og stara út í tómið í löngum flugferðum og kanna hversu langt maður kemst.
Æðið hefur verið sérstaklega vinsælt hjá karlmönnum. Þeir sem taka þetta lengst neita sér um mat, drykk og salernisferðir. Það eina sem er leyft er að stara á flugskjáinn fyrir framan sig, ef hann er til staðar. Samtöl við aðra um borð eru ekki leyfð. Ætlunin með þessu er að tengjast sjálfum sér betur, íhuga og hunsa allt áreiti og langanir.
Blaðakonan Cyann Fielding, hjá breska blaðinu Daily Mirror, ákvað að reyna rawdogging í sjö tíma flugi frá London til Quebec í Kanada og lýsir reynslu sinni í pistli í blaðinu.
Cyann ákvað að taka þetta ekki alveg út í öfgar og leyfði sér að borða, drekka, fara á klósettið og tala við fólk, sérstaklega ef flugþjónn talaði við hana.
„Mig langaði í hádegismatinn minn og ég sá á skjánum hjá sætisfélaga mínum að það var verið að sýna bíómyndina Wonka, þannig að ég sá strax eftir því að taka þátt í þessu asnalega æði,“ segir hún í pistlinum. „En ég er þrjóskur einstaklingur og hélt því áfram með tilraunina að sitja og stara.“
Þegar hún heyrði ræðuna hjá flugmanninum og andvarp í tveimur flugþjónum áttaði Cyann sig á því hversu ein hún var með hugsunum sínum. Það var ekkert annað að gera en að fylgjast með þessum starfsmönnum flugfélagsins. En síðan er það líka útlitið.
„Jafn vel fyrir flugtak fóru hinir blaðamennirnir sem ferðuðust með mér að gefa mér skrýtnar augngotur. Ég álasa þá ekki, að sitja með eigin hugsunum virðist vera undarleg leið til þess að láta tímann líða og ég er viss um að fáir gera það,“ segir Cyann. Það var einnig vandræðalegt að láta stara á sig.
Það tók Cyann ekki langan tíma að byrja að leiðast. Flugtakið var allt í lagi en eftir að vélin var komin upp yfir skýin var eirðarleysið byrjað að segja til sín.
„Ég reyndi að hugsa um bók sem ég hafði nýlega lesið og reyndi að gera umsögn um hana í huganum,“ segir Cyann. „En það fór í taugarnar á mér að geta ekki skrifað neitt niður.“
Hún gat drepið svolítinn tíma með matnum en eftir hann tók við innihaldslaus stara á flugkortið. Hún gat ekki fundið neitt til þess að dreifa huganum. Hún segist hafa verið við það að tárast af hreinum leiðindum og varð reið út í þetta heimskulega æði.
Að lokum sá Cyann að hún var að gefast upp. En hún vildi láta á það reyna hvort hún kæmist til Íslands. Og það gat hún. Flugið frá London til Íslands er um þrír tímar, þannig að þetta var næstum því hálf ferðin.
„Ég andvarpaði af létti og kveikti strax á Wonka. Ég hugsaði líka um það hvers vegna svo margir segjast njóta rawdogging,“ segir Cyann. „Ég get setið í neðanjarðarlest og látið hugan reika eða starað út um glugga í lest í marga klukkutíma. En það er annað að gera ekkert um borð í flugvél, það er miklu erfiðara.“