fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fókus

„Ég er náttúrulega enn að berjast við afleiðingarnar af þessu“

Fókus
Þriðjudaginn 6. ágúst 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karl Ágúst Úlfsson, viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins, hefur verið í hjarta íslensku þjóðarinnar allt frá því hann lék Daníel í eftirminnilegustu grínmyndum níunda áratugarins og speglaði þjóðarsálina um áratugaskeið í gegnum gríninnslög Spaugstofunnar. Karl Ágúst er líka þekktur fyrir ritstörf, leikstjórn og þýðingar á fjölmörgum leikverkum fyrir bæði útvarp og leikhús. Í þættinum ræða þeir Mummi á einlægu nótunum listamannsferil Karls Ágústs, áfallið sem fylgdi því að greinast með heilaæxli fyrir bráðum tveimur árum síðan og ritverkin sem hann vinnur að þessi misserin.

Karl Ágúst ákvað að kveðja blómlegan leikferil sinn með formlegum hætti haustið 2022 með sýningunni Fíflið þar sem hann lék á móti syni sínum Eyvindi. Það var á síðustu sýningunum sem sonur hans tók eftir því að Karl var farinn að ruglast á textanum, sem var ólíkt honum. Feðgarnir grínuðust þó bara með þetta og kenndu aldri Karls um. Eftir að sýningunum var lokið fór Karl þó að finna fyrir undarlegum tilfinningum í höfði.

„Einhverjum þyngslum. Eins og það sé steinn í hausnum á mér. Einhver að pressa eða brjótast út eða eitthvað. Ég bara gat ekki lýst þessu. Svo finn ég á milli ofboðslega skrítna lykt. Ég hugsaði alltaf: Já þessi lykt. Þetta var einhver ákveðin lykt en svo leið þetta hjá og þá man ég ekki hvaða lykt þetta var, og get ekki með nokkru móti orðað það og man ekki enn í dag hvort þetta var steinolíulykt, sláturlykt eða hvað. Þetta var eitthvað sem ég átti að þekkja og sterkt.“

Karl Ágúst endaði á bráðamóttökunni þar sem hann var gripinn föstum tökum. Nánast samdægurs greindist æxli á stærð við golfkúlu í heila hans og fljótlega hafði hann gengist undir aðgerð til að fjarlægja meinið.

„Þetta var skorið burt og það er komið eitt og hálft ár síðan. Ég er náttúrulega enn að berjast við afleiðingarnar af þessu.“

Karl Ágúst útskýrir að hann hafi vaknað eftir aðgerðina og upplifað orðaforðinn hafi minnkað um 75 prósent. Hann tekur fram að þetta hafi ekki verið mælt með nákvæmum hætti heldur byggir hann hlutfallið á eigin upplifun. Orðaforðinn hafði rýrnað mikið og lengi átti Karl Ágúst erfitt með að tjá sig. Minnið hefur snúið aftur smátt og smátt, en þó ekki að fullu.  Hann tekur þó fram að hver minning sem hann endurheimtir sé fagnaðarerindi.

„Þegar ég var að tala vantaði mig bara orð yfir það sem ég ætlaði að tala um. Ég bara fann þau ekki. Iðulega notaði ég vitlaus orð og fattaði það sjálfur strax en fann ekki réttu orðin. Ég var í þjálfun hjá minnisþjálfara. Hún lét mig hafa blað og blýant og bað mig að skrifa niður 10 bílategundir. Ég skrifaði efst á blaðið Benz og svo mundi ég ekki meira. Sjálfur átti ég samt þrjá bíla, Land Rover, Toyota og Chevrolet en ég mundi ekkert af þessu.“

Þó að hann hafi náð miklum framförum þá á hann enn erfitt með að muna réttu orðin. Hann hefur komið sér upp kerfi til að hjálpa sér. Karl nefnir sem dæmi að eitt sinn hafi hann ætlað að ræða að móðir hans glímdi við mígreni. Hann mundi ekki orðið heldur lýsti því sem ástandi þar sem fólk fær hræðilegan höfuðverk. Viðmælandi hans spurði þá hvort hann meinti mígreni og Karl jánkaði því. Nokkrum mínútum síðar hafði hann aftur gleymt orðinu. Nú man hann það með því að sjá fyrir sér móður sína, sem heldur á greni og úr því flýgur mý.

Karl segist sem betur fer muna hvað börn hans og vinir heita, en eftir því sem tengslin eru fjærri þá verður þetta erfiðara.

„Ég man kannski andlitið og cirka hvernig ég á að þekkja þessa manneskju en get ómögulega munað hvað hann eða hún heitir.“

Karl hefur sætt sig við það að líklega muni hann aldrei endurheimta þá getu sem hann hafði áður. Hann er orkuminni og þó minnið hafi mikið komið til baka þá stendur enn eftir stórt skarð sem líklega verður aldrei aftur fyllt. T.d. hefur hann tapaði mikilli þekkingu í landafræði sem hann var áður góður í og grasafræði. Þetta sé allt meira og minna farið. Þetta hefur hann sætt sig við.

Erfiðara sé að sætta sig við þrenndartaugalöskun sem hann glímir einnig við. Þetta eru stærsta andlitstaugin og hjá Karli varð hún fyrir skaða við aðgerðina. Hann er því með stöðuga verki í andlitinu. Hann hefur reynt að draga úr þeim með ýmsu móti en líklega séu verkirnir komnir til að vera.

Hlusta má á viðtalið við Karl Ágúst og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sonur Pamelu Anderson er staðráðinn í því að rústa ranghugmyndum Hollywood um mömmu hans

Sonur Pamelu Anderson er staðráðinn í því að rústa ranghugmyndum Hollywood um mömmu hans
Fókus
Fyrir 2 dögum

Laufey áberandi á aðventunni

Laufey áberandi á aðventunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“