Mikið hefur verið rætt um jöklaferðir, einkum ferðir í íshella sem er að finna á jöklum, í kjölfar slyssins á Breiðamerkurjökli þar sem einn ferðamaður lést og unnusta hans slasaðist illa þegar ís hrundi ofan á þau. Meðal annars hefur verið gagnrýnt að farið hafi verið í slíka ferð að sumri til. Ari Trausti Guðmundsson jarðfræðingur og fyrrverandi alþingismaður og forsetaframbjóðandi hefur mikla reynslu af jöklaferðum, jöklaklifri auk þekkingar á jöklum. Í pistli á Facebook-síðu sinni fer hann yfir á hvaða árstíma er best að fara í jöklaferðir en hann segir skipta máli um hvernig jökul er nákvæmlega að ræða:
„Háfjallaferðir á sprungnum jöklum. t.d. Öræfajökli, Hrútfjallstindum, hluta Snæfells, víða í Esjufjöllum, á Þverártindsegg og fleiri stöðum eiga ekki að teljast ráðlegar á miðju sumri og eitthvað fram eftir hausti. Jöklagöngur á tiltölulega úfnum skriðjöklum eða ísklifurferðir í bröttum falljöklum ættu ekki að eiga sér stað á helsta leysingartíma – öðru máli gegnir um tiltölulega slétta/mishæðótta skriðjökla með réttum búnaði.“
Þess ber að minnast að Breiðamerkujökull er skriðjökull en þeir einkennast helst af framrennsli íssins og sprungnu yfirborði.
Ari Trausti heldur áfram:
„Ferðir í hella í stórum hjarnfönnum við jarðhita (sbr. Kerlingarfjöll eða Hraftinnusker) eiga ekki að vera ráðlegar nema í köldum mánuðum.“
Þegar kemur að íshellaferðum í skriðjöklum eins og Breiðamerkurjökli segir Ari Trausti að þær séu alltaf varasamar en þó sérstaklega að sumri til:
„Ferðir í íshella í skriðjöklum (allir hopa í bili nema Gígjökull) eru alltaf varasamar og einfalt sjónmat á hrunhættu harla brigðult. Hættulegustu mánuðir eru frá maí/júní fram yfir sept/okt. á láglendi. Íshellar eru víða vatnssvelgir með hliðarrás eða vatnsfallagöng við jökulbotn – eða tengdir jarðhita. Þeir eru stundum með ísilögðum lækjum eða ísilögum, djúpum pollum, hluta úr ári.“
Ari Trausti segir að íshellaferðir eigi ekki að banna en um þær verði að setja mjög strangar reglur:
„Um íshellaferðir þarf að setja strangar reglur – ekki banna þær en takmarka tímabil, stærðir hópa, skilgreina aldur/getu, skylda skýrar skráningar, staðla kunnáttu og þekkingu leiðsögumanna, kanna hella fyrir dagsferðir ofl. Mig minnir að am.k. þrjú eldri dauðaslys í íshellum séu staðreynd – hafi þau gleymst í umræðu.“