Sigrún Rós húðflúrari hjá Black Kross Tattoo er búin að að vera lengi í bransanum en hún lenti óvart í honum að eigin sögn eftir að hún kynntist Inga húðflúrara fyrrum eiginmanni sínum.
„Ég var í flúri hjá honum og var að sýna honum einhverjar teikningar, svo byrjaði hann að kenna mér og svo byrjuðum við saman í kjölfarið,“ segir Sigrún Rós í viðtali við Dag og Óla í Blekaðir.
„Við söfnuðum fyrir stofunni með því að fara á Kvíabryggju,“ segir Sigrún Rós. „Það var áhugaverður staður, allt fullt af kanínum og naggrísum, golfvöllur og maður bara næs. Þetta var skemmtileg reynsla, við fórum þrisvar sinnum og fórum líka í Sjálfstæðishúsið í Grundarfirði að flúra.“
Sigrún segir frá að í eitt skipti hafi þeim verið meinað að yfirgefa Kvíabryggju.
„Ég man ekki hver það var, það var einn [fanginn] sem fékk hótun, það var hringt í hann úr bænum og einhver gaur ætlaði að koma með haglabyssu. Það var allt sett í lockdown og við þarna inni náttúrlega. Enginn mátti fara út né inn, lögreglan komin í fjöllin, þetta var mjög spennandi. Svo kom þessi maður ekkert.“
„Ég hef alltaf gaman af alls konar fólki. Þetta var mjög skemmtileg upplifun.“
Horfa má á þáttinn í heild sinni hér.