Kvikmyndasafn Íslands hefur sett á Facebook-síðu sína stutt myndband sem tekið er á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir um sextíu árum síðan. Í færslunni segir að myndinir séu teknar líklega um 1960 en það sé ekki vitað nákvæmlega á hvaða ári en þar sem íþróttafélagið Týr hafi bersýnilega haldið hátíðina þetta ár hafi árið endað á oddatölu. Lengi vel skiptust íþróttafélögin í Vestmannaeyjum, Þór og Týr, á að halda Þjóðhátíð, fyrrnefnda félagið sá um árin sem enduðu á sléttri tölu en það síðarnefnda um oddaöluárin. Eftir að félögin sameinuðust í Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV) hefur hins vegar það ágæta bandalag tekið við umsjón hátíðarinnar.
Í myndbandinu má sjá að hátíðarbragurinn hefur nokkuð breyst síðan á þessum árum. Flestir hátíðargestir eru spariklæddir og nokkuð hefur verið um kórsöng og sjá má prest flytja hugvekju. Einnig má á myndbandinu sjá stangarstökk en hvort um sýningu eða keppni var að ræða er ekki ljóst.
Lítið fer fyrir sparifötum, stangarstökki og prestum á Þjóðhátíð á 21. öld en kórsöngur er þó á dagskránni í ár.
Það sem þó hefur ekki breyst eru hin hvítu Þjóðhátíðartjöld Eyjamanna sem skipt er í götur með skrautlegum heitum sem merktar eru með myndskreyttum skiltum.
Í færslu Kvikmyndasafnins kemur fram að Kjartan Ó Bjarnason hafi tekið myndirnar. Í athugasemd við færsluna segir að myndbandið frá Þjóðhátíð sé hluti af lengri kvikmynd sem Kjartan gerði á sjöunda áratug síðustu aldar. Myndin er sögð sýna atvinnu-, menningar- og náttúrulíf í Vestmannaeyjum og auk Þjóðhátíðar megi meðal annars sjá verkun á skreið, bjargsig og lífið á bryggjunni. Í athugasemdinni er síðan tengill á umrædda kvikmynd sem ber titilinn Þættir frá Vestmannaeyjum en kvikmyndina er hægt að sjá hér.
Færslu Kvikmyndasafns Íslands með myndbandinu frá Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum á sjöunda áratug síðustu aldar má sjá hér fyrir neðan en taka ber fram að myndbandið er án hljóðs.