fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fókus

Linda hefur þurft að grafa tvo syni sína – Annar þeirra skildi eftir bréf en hún segir lögregluna neita að afhenda henni það

Fókus
Mánudaginn 19. ágúst 2024 08:00

Berglind Viggósdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Berglind Viggósdóttir eða Linda, eins og hún er kölluð, er eiginkona og móðir sem hefur þurft að grafa tvo syni sína. Hún er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman.

Berglind ólst upp í Breiðholtinu og var rólegt og þægilegt barn. „Ég var svo tvítug þegar ég varð móðir, eignaðist frumburðinn minn, Viggó Emil. Fjórum árum síðar fæddist svo Ingvi Hrafn.“ Berglind og barnsfaðir hennar slitu samvistum þegar Ingvi var þriggja ára og faðir þeirra flutti erlendis.

„Það var ekki mikið samband og auðvitað er það ákveðin höfnun fyrir börn.“

Kynntust kannabisefnum snemma

Viggó Emil var óvært barn og lét hafa fyrir sér en Ingvi Hrafn var rólegt og þægilegt barn fram eftir aldri.

„Þeir voru strákar sem pössuðu ekki inn í boxið sem skólakerfið býr til fyrir börn og ég fékk stanslaust að heyra neikvæðar athugasemdir um þá.“

Aðspurð hvort hún hafi fengið að heyra eitthvað jákvætt frá skólanum segir Linda: „Ég man að Ingvi Hrafn var með frábæran kennara í níunda bekk sem gerði allt fyrir hann en það var í eina skiptið.“

Báðir bræðurnir voru um fjórtán ára þegar þeir fóru að fikta við kannabisefni.

„Ég sá það ekki strax og maðurinn minn sá það fyrr en ég. Um það bil tveimur árum seinna var ég komin í Foreldrahús í viðtöl og hópa en hélt öllu leyndu því ég fann fyrir mikilli skömm og fannst ég hafa brugðist sem móðir.“

Reyndi að fá aðstoð

Linda reyndi á sínum tíma að fá aðstoð frá Barnavernd. Hún segir að þar sem hún var í lagi og gerði allt rétt, að þeirra mati, fékk hún enga aðstoð. „Ég myndi gera þetta öðruvísi í dag, ég myndi berja í borðið og ekki hætta fyrr en ég fengi aðstoð fyrir mig og börnin mín.“

Eins og aðrir foreldrar vonaði hún að þetta væri tímabil sem tæki enda en það gerði það ekki, því miður. Foreldrahús ráðlagði þeim að setja þannig mörk að þegar drengirnir yrðu átján ára þyrftu þeir að fara út af heimilinu ef þeir hættu ekki neyslu.

„Ég fór eftir þessum ráðleggingum, það var auðvitað erfitt en það var yngri bróðir á heimilinu líka sem þurfti að vernda.“

Eftir ákveðinn tíma virtu þeir þessi mörk og komu ekki heim undir áhrifum.

Skammaðist sín þegar þeir sátu inni

Fyrsta skipti sem þeir bræður fóru í fangelsi sátu þeir inni á Skólavörðustíg saman.

Hún segir frá fyrsta skiptinu sem hún heimsótti þá í fangelsið og skömminni sem fylgdi því. „Ég lagði langt frá, hitti svo óvænt vinahjón á röltinu og laug að ég væri að kíkja í Geysi, búðina. Ég gat ekki hugsað mér að segja fólki frá þessu.“

Næstu árin voru upp og niður þar sem neyslan var mismikil og Ingvi kom sér oft í vandræði með því að standa með vinum sínum. „Ég sagði honum oft að koma sér úr aðstæðum en það var ekki í umræðunni. Hann var vinur vina sinna.“

Það voru mörg atvik sem reyndu á fjölskylduna og til dæmis komu handrukkarar á heimilið en aldrei borguðu þau krónu. Linda segir frá ótrúlegu atviki í þættinum.

Mynd/Sterk saman

Bráðkvaddur á Spáni

Í maí fyrir sex árum síðan var Viggó í árshátíðarferð á Spáni þegar hann varð bráðkvaddur á hótelherbergi.

„Ég fór út ásamt systur minni. Það er ekki rétt sem komið hefur fram, sama hvaðan það kom, að Viggó hafi tekið eigið líf. Hann var ekki búinn að fara vel með sig endilega en hann var krufinn og ég þurfti að taka mjög erfiða ákvörðun þarna úti, þessi ferð og þessi tími var hræðilegur.“

Linda kom heim með son sinn í keri í fanginu auk þess sem aska var sett í lítil hálsmen fyrir hana og bræður Viggós.

Nokkuð síðar fékk Ingvi Hrafn dóm og sat inni á Hólmsheiði og síðan Litla-Hrauni. Eftir að hafa verið fluttur á hraunið ákvað hann fljótlega að snúa við blaðinu og fékk sér sponsor, fór að vinna sporin og stóð sig vel í því í fyrsta skipti í mjög langan tíma.

Erfitt að heimsækja Litla-Hraun

„Mér fannst mjög erfitt að koma á Hraunið. Þetta er allt myglað og handónýtt. Þarna er hægt að hafa fanga en aldrei væri hægt að bjóða öðrum upp á þetta. Það er heldur engin betrun þarna, því miður. Ef þú hefur ekki bakland þá er ekkert skrítið að það sé svona stór prósenta sem kemur aftur.“

Ingvi fór á Sogn því honum gekk vel og var edrú. Þaðan fór hann á Vernd, var kominn í vinnu og segir Berglind að Vernd sé ágætis aðlögun út í lífið, þar séu reglur og honum hafi liðið vel.

„Ég hafði ekki séð hann svona í mörg ár,“ segir hún.

„Ég verð svo reið“

Einn daginn fær kemur sérsveitin á Vernd, þar sem hann var í rólegheitum og handtekur hann með offorsi.

„Ég verð svo reið. Það kom ásökun frá þáverandi, fyrrverandi, núverandi eitthvað kærustu. Hún ásakaði hann um kynferðisofbeldi. Hún hefur gert þetta við fleiri menn líka. Að lögreglan skuli bara taka orð manneskju, án þess að fletta upp sögu hennar eða neitt. Hann var handtekinn og hent inn aftur, bara af því að hann var hann,“ segir hún.

Þráinn, yfirmaður á Vernd, gerði alvarlega athugasemd við þessa framkomu lögreglu. „Þeir hefðu geta komið og talað við hann, hringt og boðað hann í skýrslutöku eða hvað sem er en þeir ákváðu að gera þetta.“

Ingvi Hrafn bað um aðstoð á hverjum degi inni í fangelsi. Berglind talaði við hann á hverjum degi og hafði miklar áhyggjur af líðan hans. Hann sagði fangavörðum ef hann fengi ekki aðstoð myndi eitthvað hræðilegt gerast og þeir myndu bera ábyrgð á því. Hann fékk enga aðstoð.

Fær ekki bréfið í hendurnar

„Ég var á Spáni þegar ég fékk símtal, Ingvi hafði verið lokaður inni í klefanum sínum klukkan tíu að kvöldi og ekki athugað með hann, þrátt fyrir þessa hræðilegu líðan, fyrr en átta morguninn eftir. Þá var hann látinn.“

Ingvi Hrafn lést á dánardegi bróður síns. Hann skrifaði bréf til fjölskyldu sinnar en enn hefur fjölskyldan ekki fengið bréfið afhent.

„Ég kom strax heim daginn eftir og fékk að sjá Word skjal sem lögreglan hafði skrifað upp eftir bréfinu hans. Ég fékk þó bara að sjá fyrstu línurnar. Eina sem mér dettur í hug er að það sé eitthvað í bréfinu sem yfirvöld vilji ekki að líti dagsins ljós. Ekki að ég myndi birta það, ég vil bara fá þetta.„

Linda hefur staðið í stappi við yfirvöld eftir andlát Ingva, hún segir að það vilji enginn taka ábyrgð á þeim mistökum sem urðu og mest af öllu vill hún að mannorð hans verði hreinsað.

Hlustaðu á þáttinn á Spotify.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“