fbpx
Þriðjudagur 13.ágúst 2024
Fókus

Halla myndi velja fiskibollur í brúnni sem eilífðarmat, leiðist þrif og hreyfingin er Akkilesarhæll

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 13. ágúst 2024 16:30

Halla Tómasdóttir Mynd: DV/KSJ

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Halla Tómasdóttir forseti Íslands sat fyrir svörum í Brennslunni á FM957 í morgun. Þar fékk hún fjölmargar spurningar sem hún fær ekki á hverjum degi. Helgi Ómarsson var einnig mættur í þáttinn og sagðist hann vera hrærður yfir að hafa fengið Höllu í spjall í þátt sinn Helgaspjallið, „þar sem við tengdust af hjarta og sál ef ég tala fyrir sjálfan mig.“

„Ég hefði sleppt joggingbuxunum í dag hefði ég vitað þetta [komu Höllu],“ segir Rikki G.

Sumarið annasamara en stóð til

Halla sagði aðspurð kosningabaráttuna hafa reynt á, en hún hafi samt náð að njóta og baráttan hafi verið skemmtileg. „Í rauninni byrjar starfið um leið og er búið að kjósa þig, fólk byrjar að leita til þín og það þarf að skipuleggja innsetningu. Þannig að það var meira að gera hjá mér í sumar en til stóð, ég ætlaði að vera aðeins latari. Svo þurfti ég að klára fyrra starf úti,  júnímánuður var bara mjög upptekinn. Svo reyndi ég aðeins að sofa og lesa, og hugsa um embættið og hvað mig langar að gera. Ég ætla alveg að viðurkenna að ég er eldri núna en þegar ég bauð mig fram 2016 og það að missa mikinn svefn og vera alltaf á fullu í svona langan tíma tekur alveg sinn toll.“

Starf forseta fjölbreytt, annasamt og skipulagt vel fram í tímann 

Halla segir það koma sér mest og skemmtilega á óvart fyrstu dagana í embætti hvað starf forseta er fjölbreytt og enginn dagur eins. „Ég vakna á morgnana með virkilega tilhlökkun og þetta er allt frá því að hitta ráðherra og formenn stjórnmálaflokka og skilja hvað hver og einn er að hugsa og hvaða mál brenna, og í kvöld er ég að hitta 13-16 ára stúlkur og á morgun þau sem eru að fara á Olympíumót fatlaðra í París, og þess á milli erlenda gesti. Eins og Guðni sagði: „Þetta er annasamt starf, við erum að frá morgni til kvölds alla daga.“

Aðspurð um hvort vikan hjá forseta sé plönuð fram í tímann eða jafnvel mánuðurinn svarar Halla játandi og segir skipulagið í rauninni ná lengra fram í tímann. Frábært starfsfólk hjá fámennu embætti sé búið að skipuleggja fram í tímann, og sumt löngu ákveðið eins og boð Danakonungs sem kom daginn eftir að Halla var kjörin. Einnig ferð á Olympíumót fatlaðra í París í lok ágúst.

„Það eru bara allir dagar og nokkrir mánuðir fram í tímann vel skipulagðir.“

Hreyfingin veikleiki

Halla segist leggja mikla áherslu á svefninn og hún verði og leggi áherslu á að sofa vel, hún sé gift kokki sem sjái um að elda og passa upp á hollustu matarins. En hún segist meðvituð um að hennar veikleiki sé hreyfing, því hún eigi oftast til í að láta vinnuna ganga fram yfir hreyfinguna. Hún reyni þó að ganga nokkrum sinnum í viku og fara í sund. „Ég vil vera forsetinn sem fer í sund. En hreyfingin er veikleikinn minn, örugglega eins og hjá mörgum.“

Halla segir það pínu yfirþyrmandi að vinna í umhverfi Bessastaðastofu umkringd sögunni og öðrum stíl en á eigin heimili. „En embættið er stærra en einstaklingurinn sem veldur því að mínu mati. Ég er bara Halla og ég get ekki breytt Höllu, Halla verður bara að fá að vera hún sjálf. Henni finnst alveg gaman að leggjast niður og horfa á Netflix seríur. Þannig að ég ætla bara að fá að vera ég sjálf.“

Helgi vildi vanda sig til að fá ekki Click-bait fréttir

„Ég er mjög meðvitaður að ég er með sitjandi forseta. Við ætlum að vanda okkur af því við ætlum ekki að fara að fá einhverjar Click-bait fréttir í gang af því Helgi var eitthvað að djóka. Ég ætla ekki að taka þá ábyrgð á mig. Við ætlum bara að kynnast þér, við viljum bara kynnast þér örlítið betur,“ sagði Helgi áður en hann byrjaði að skjóta spurningum til Höllu.

„Ég er pínulítið stressuð ég viðurkenni það, ég hef minni áhyggjur af embættinu en þessu akkúrat núna,“ sagði Halla.

Hvert var þitt unglingacrush?

„Ég held það hafi verið á milli Kiss og Bon Jovi. En svo féll ég alveg fyrir Bono. Ég var með Kiss plaköt á veggjum og málaði The Wall Pink Floyd á vegginn heima og mamma var ekki ánægð með það. Party Girl átti mitt hug og hjarta þegar ég var 11 ára og myndi enn fá mig út á gólfið.“

Halla segist myndu taka Sister´s Are Doin´It For Themselves í karaókí, útgáfu Annie Lennox og Arethu Franklin, þó hún syngi ekki vel.

Ef þú þyrftir að borða eina máltíð að eilífu hvaða máltíð væri það?

„Þetta verður skrítið, fiskibollur í brúnni sósu.“

Hvað verður fyrir valinu að horfa á eftir erfiðan dag, þegar þú hendir þér upp í sófa og vilt horfa á eitthvað heilalaust?

„Ég ætlaði að segja Madam Secretary, en það er líklega ekki svona heilalaust. Dóttir mín dregur mig stundum upp í sófa að horfa á Love Island eða eitthvað slíkt, og ég get haft gaman af því með henni, en þetta er ekki eitthvað sem ég vel þegar ég er ein upp í sófa.“

Hvað gerir þú til að lyfta þér upp?

„Ég hugleiði ef ég þarf að lyfta andanum upp. En það skemmtilegasta sem ég geri til að næra mig, eiginmennina eða vinina, það er að fara í sund. Ég elska heita potta, gufu, ef ég vakna eitthvað súr þá er alltaf gott að fara í sund.“

Hver er þinn Akkilesarhæll?

„Að setja verkefnin mín ofar eigin heilsu á köflum, það er minn veikleiki. Og það er veikleiki sem kemur til af góðu, ég vil vel. En stundum þurfum við að læra erfiðu leiðina að við þurfum að setja okkur sjálf í fyrsta sæti. Ég er sannfærð um að þetta er kvenleiki, kvenveikleiki, en ég held þetta sé veikleiki okkar allra. En þetta lagast með aldrinum og þroskanum.“

Leiðinlegasta húsverkið að mati Höllu er þrif. „Þegar ég átti ekki krónu með gati og vann baki brotnu við að borga afborganir af íbúðinni minni þá var ég ekki með áskrift að Stöð 2 eða fór út að borða, ég keypti mér þrif. Þetta hefur alltaf verið það leiðinlegasta. Fyrirgefiði, ómyndarlegur forseti.“

Uppáhalds jólahefðin

„Ég hugsa að það sé möndlugrautur.“

Landið sem kom Höllu mest á óvart þegar hún heimsótti það er Kenýa og segist hún geta hugsað sér að búa þar. „Þetta er stórkostlegt land og ég er búin að koma tvisvar. Fólkið er frábært, maturinn er æðislegur og náttúran stórkostleg. Þetta er land framtíðar, listin er stórkostleg, litagleðin, ég get haldið endalaust áfram en Kenýa er landið sem ég varð ástfangin af.“

Halla segir börnin hennar segja að uppháhalds barnið hennar hafi verið hundurinn Moli sem féll frá fyrr á árinu.

Home Alone hegðun, sem má rekja til þáttanna Sex And The City, ef þú ert ein heima og mátt ráða hvernig þú ráðstafar kvöldinu?

„Ég er í sloppnum eða rosalega þægilegum og útjöskuðum náttfötum eða joggingfötum og ég er að lesa, ekki mér til fróðleiks, heldur skemmtilega ævisögu eða skáldsögu. Núna er halla að lesa bók Rainn Wilson, Soul Boom, og segir hún hann gera andlega rækt skemmtilega. Segist hún vonast til að fá Wilson með sér í lið til að gefa af sér til íslendinga.“

Halla segir aðspurð að eftirminnilegasta minningin úr framboðinu hafi verið þegar kvenframbjóðendur voru með 250 ungum athafnakonum og mönnum.

„Og við ræddum bleika jakkann sem ég er í í dag og slæðuna og ræddum þá staðreynd að við tölum svo mikið um umbúðir kvenna og útlit. Það hafði enginn spurt Arnar eða Ástþór eða Baldur hvað fötin þeirra kostuðu eða hvar þau voru keypt. Æeg er ekki á móti því að við fjöllum umþetta, ég vil bara að konur fái að tala um hvað þeim býr í brjósti og fái jafn mikla umfjöllun um það. Ég tók svolítið rant þetta kvöld um þetta, við verðum að hætta að tala eingöngu um ytra byrði kvenna og leyfa innihaldinu að komast i umræðurnar. Ætli það hafi ekki verið rantið um bleika jakkann og slæðuna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni

Auður Gísla og Elvar Freyr eiga von á barni
Fókus
Í gær

Gríðarleg gróska í íslensku jazzsenunni

Gríðarleg gróska í íslensku jazzsenunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hún hunsaði þessi sjúkdómseinkenni – Nú vill hún vara aðra við

Hún hunsaði þessi sjúkdómseinkenni – Nú vill hún vara aðra við
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flugmenn nefna átta hluti sem þeir gera aldrei sem farþegar – Stefán Dór með gott ráð fyrir klósettferðir

Flugmenn nefna átta hluti sem þeir gera aldrei sem farþegar – Stefán Dór með gott ráð fyrir klósettferðir
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi rifjar upp þegar Stefán læknir kom honum til bjargar í World Class

Simmi rifjar upp þegar Stefán læknir kom honum til bjargar í World Class
Fókus
Fyrir 4 dögum

Trompaðist þegar blaðamaður spurði hana óvæntrar spurningar og köld í garð manns síns – „Hún þolir ekki þegar Harry talar“

Trompaðist þegar blaðamaður spurði hana óvæntrar spurningar og köld í garð manns síns – „Hún þolir ekki þegar Harry talar“