Sonur leikarans, James, er tvítugur að aldri og hefur Colin nú stofnað styrktarsjóð sem á að nýtast einstaklingum sem glíma við sama heilkenni.
Á vef Ráðgjafar- og greiningarstöðvar kemur fram Angelman-heilkenni einkennist af frávikum í málþroska, þroskahömlun, óstöðugleika við gang og skapferli sem einkennist af gleði og hláturmildi. Talið er að um 1 af hverjum 12 til 20 þúsund börnum sem fæðast séu með heilkennið og má ætla að barn með Angelman-heilkenni fæðist hér á landi á nokkurra ára fresti að meðaltali.
James fæddist í september 2003 og eignaðist Colin hann með fyrrverandi unnustu sinni, kanadísku fyrirsætunni Kim Bordenave.
Í viðtali við People Magazine kom fram að hann hefði stofnað fyrrnefndan styrktarsjóð, The Colin Farrell Foundation, til að heiðra son sinn sem hefur lagt á sig gríðarlega vinnu allt sitt líf. Heilkennið hefur haft talsverð áhrif á líf James og getur hann til dæmis ekki tjáð sig með góðu móti.
Colin segir í viðtalinu að hann hafi aldrei tjá sig um þetta heilkenni sem sonur hans glímir við. James verður 21 árs í september og vekur Colin athygli á því að við þann aldur hætti þeir einstaklingar sem eru í sömu sporum og sonur hans að fá aðstoð frá hinu opinbera. Það er ein af ástæðum þess að Colin ákvað að stofna sjóðinn.
Fyrst um sinn mun sjóðurinn einblína á Kaliforníu þar sem fjölskyldan er búsett og starfandi en Colin segist vonast til þess að starfsemin muni breiða úr sér og hefja starfsemi annars staðar, til dæmis á hans heimaslóðum á Írlandi.
Colin Farrell hefur um langt skeið verið einn mest áberandi leikari heims. Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna sem besti leikari í aðalhlutverki í fyrra fyrir myndina The Banshees of Inisherin.