Zara Hull var á sumardvalastað í Cancun ásamt kærasta sínum, Jake Sinder, og vinkonu sinni Kaylie Pitze. Vinkonurnar ákváðu að eyða deginum í sundlauginni og pöntuðu sér vatnsglas á barnum.
Tveimur mínútum seinna voru þær báðar meðvitundarlausar. CBS News greinir frá.
„Við fengum okkur báðar vatn, Jake sneri sér við og sá okkur báðar með höfuðið niður,“ sagði Zara Hull við CBS.
Jake tók hrollvekjandi mynd af þeim þar sem þær haldast í hendur og eru meðvitundarlausar í sundlauginni.
Vinkonunum grunar að þeim hafi verið byrlað en þrátt fyrir að hafa verið fluttar á spítala hafa þær ekki getað staðfest það, en Zara segir að martröðin hafi haldið áfram á sjúkrahúsinu í Cancun.
„Ég hef aldrei upplifað neitt þessu líkt áður. Allir útlimir voru svo þungir og ég gat ekki lyft upp höfðinu, allt í einu byrjaði ég að hristast öll,“ segir Zara.
Þær voru færðar á einkaspítala og upplifðu sig mjög einangraðar og fengu í kjölfarið himinháan reikning.
„Hurðarnar voru læstar að utan þannig það var hægt að læsa okkur inni.“
Jake, kærasti Zöru, var við hlið hennar allan tímann en hún var varla með meðvitund.
„Þeir settu mig á svo sterk róandi lyf að ég hafði ekki hugmynd um hvar ég væri. Ég var ekki með meðvitund og vissi ekkert. Þeir settu upp þvaglegg og tengdu mig við öndunarvél,“ segir Zara.
Hún fékk síðan háan reikning sem hún gat engan veginn borgað.
„Þeir hækkuðu reikninginn og vildu allavega 1,4 milljónir króna, bara fyrir að skoða mig. Þeir héldu mér fanginni. Við erum háskólanemar, við höfum ekki efni á þessu.“
Rúmlega sólarhring síðar náðu þau að koma sér til Dallas í Bandaríkjunum með einkaflugvél. Hún hefur verið á spítala þar síðan á sunnudaginn.
„Þeir reyndu að ná mér úr öndunarvélinni en gátu það ekki, lungun mín hættu bara að virka,“ segir hún.
Zara hefur fengið krampa yfir átján sinnum síðan þetta gerðist en læknarnir finna enga orsök. Þeir segja að það sé möguleiki að henni hafi verið byrlað ólyfjan í Cancun.
Hún þarf að undirgangast sjúkraþjálfun til að læra að ganga á ný.
Zara segir að þau vilja hvorki segja hvaða sumardvalastaður þetta var né hvaða spítali af ótta um öryggi þeirra.
„Maður veit aldrei, þetta gæti sett alla fjölskyldu okkar í hættu,“ segir hún.