Egill Helgason, hinn þjóðkunni sjónvarpsmaður og Grikklandsvinur, dvelur nú á Grikklandi eins og hann hefur margsinnis gert undanfarin ár og áratugi. Hann gerir stuttlega grein fyrir áfengismenningu Grikkja í nýjustu Facebook-færslu sinni. Egill gerir ekki beinan samanburð á áfengismenningu Grikkja og Íslendinga en minnist á að aðgangur að áfengi á Grikklandi sé nokkuð auðveldur en þrátt fyrir það sé lítið um áberandi ofdrykkju.
Eins og flestir Íslendingar ættu að vita hefur aðgangur að áfengi markvisst verið takmarkaður hér á landi undanfarna áratugi með einkaleyfi ÁTVR á smásmölu áfengis, með nokkrum undantekningum þó, og háu verði en þessi aðgangur hefur þó rýmkast undanfarin ár með tilkomu netverslana. Þrátt fyrir þessar takmarkanir þykir það sjálfsagður hluti af áfengismenningu Íslendinga að drekka mikið og ekkert verra sé þótt að drykkjan fari fram á almannafæri með þeim afleiðingum að viðkomandi verði áberandi ölvaður. Egill segir að þetta sé hins vegar ekki raunin á Grikklandi:
„Merkilegt hvað áfengisneysla er menningarbundið fyrirbæri. Hér í Grikklandi kostar stór dós af bjór 1,50 evrur (rétt yfir 200 íslenskar krónur, innsk. DV) út úr búð. Áfengi er alls staðar á boðstólum. Samt drekka Grikkir frekar lítið og sjaldgæft að sjá áberandi drukkið fólk. Það þykir einfaldlega ófínt.“