Bandaríska leikkonan Aisha Tyler hefur greint frá upplifun sinni af því að leika í gamanþáttunum heimsfrægu Vinir eða Friends eins og þeir heita á frummálinu. Hún fór með hlutverk kærustu einnar af aðalpersónunnar Ross Geller í alls níu þáttum í níundu syrpu Friends sem frumsýnd var í sjónvarpi veturinn 2002-2003. Hún segir eitt af því eftirminnilegasta sé nokkuð sem Matthew Perry, sem lék aðalpersónuna Chandler í þau tíu ár sem þættirnir voru framleiddir, sagði við hana.
Tyler var þá um þrítugt og segist hafa verið ráðin í hlutverkið í kjölfar áheyrnarprufu. Hún segir að áður en í áheyrnarprufuna var komið hafi hún verið búin að sjá hvern einasta þátt af Friends sem sýndur hefði verið fram að því. Tyler segist samt sem áður ekki hafa verið full sjálfstrausts en hún fékk þó á endanum hlutverkið. Hún segir upplifunina að leika í Friends hafa verið ógnvænlega en David Schwimmer sem lék Ross hafi verið indæll.
Eins og venjan hefur lengi verið við upptökur á mörgum gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi var hver þáttur af Friends tekinn upp í myndveri að áhorfendum viðstöddum. Þetta segir Tyler að hafi verið ný upplifun fyrir hana.
Við upptökur af þessu tagi hafa leikaranir við lok hverrar upptöku stillt sér upp í röð fyrir framan áhorfendur og hneigt sig líkt og venjan er í leikhúsi. Leikararnir eru kallaðir fram einn af öðrum og hneigja sig þar til allur hópurinn er samankominn og hneigir sig saman. Fyrstir koma gestaleikarnir og síðan aðalleikarnir. Tyler segir að eftir lok upptöku á fyrsta þættinum sem hún lék í hafi hún verið í þann mund að stíga fram fyrir áhorfendur og hneigja sig en þá hafi Matthew Perry, sem lést á síðasta ári, sagt við hana:
„Vertu viðbúin því að líf þitt breytist“
Tyler segir þessi orð ekki hafa falið í sér viðvörun heldur spenning fyrir hennar hönd og þetta hafi verið mjög ljúfmannlegt af hans hálfu. Þessum orðum muni hún aldrei gleyma því líf hennar hafi sannarlega breyst í kjölfar þess að hún fór með hlutverkið í Friends.
People greindi frá.