Fjölmargir notendur samfélagsmiðilsins TikTok hafa reynt að gera hina svokölluðu Íþróttaálfs-áskorun (Sportacus challenge). Flestir þeirra hafa gefist upp því æfingin er næstum ómöguleg.
Einn af þeim sem ákvað að reyna að herma eftir Íþróttaálfinum, sem þolfimistjarnan Magnús Scheving lék í þáttum sínum um Latabæ, er fimleikamaðurinn Bobby Alessio sem keppir fyrir Penn State háskólann í Bandaríkjunum. Myndbandið hans hefur farið eins og eldur í sinu um netheima.
Þættirnir voru sýndir alþjóðlega á sjónvarpsstöðinni Cbeebies árin 2004 til 2014. Í áskoruninni reynir fólk að herma eftir atriði þar sem Íþróttaálfurinn gerir nokkrar mjög erfiðar armbeygjutegundir, mjög hratt á einni mínútu.
@bobbyalessio the impossible sportacus challenge is actaully impossible 💀 #gym #calisthenics #workout #sportacus ♬ original sound – Bobby Alessio
Meðal annars ýtir Íþróttaálfurinn sér frá jörðu og klappar á milli beygja, snýr sér í heilhring og stekkur með öllum líkamanum og gerir sig beinan mjög hátt uppi í lofti. Hvernig börn áttu að geta hermt eftir þessu er hulin ráðgáta því fullorðnir geta það fæstir.
„Hin ómögulega Íþróttaálfs áskorun er í raun ómöguleg,“ segir téður Bobby í myndbandinu. Eins og sést nær hann ekki að klára æfinguna.
Fólk sem skrifar við færsluna er sama sinnis. „Ég reyndi þetta…..datt á andlitið í fyrsta klappinu,“ segir einn. „Bróðir, þú stóðst þig vel,“ segir annar.