Þær taka fyrir kjötætumataræðið í nýjum pistli á Vísi.
„Carnivore mataræði hefur verið áberandi undanfarið og vinsældir þess aukist vegna áhrifaríkrar samfélagsmiðla herferðar og áhrifavalda. Mataræðið samanstendur eingöngu af kjöti og dýraafurðum líkt og hráum mjólkurvörum en einnig töluvert miklu salti og smjöri. Engin matvæli úr plönturíki eru leyfð svo þú mátt ekki neyta ávaxta, grænmetis, korns, hneta eða belgjurta og ekki einu sinni kryddjurta. Mataræðið er því eins og sést, verulega takmarkandi,“ segja þær.
„Stæðilegir karlmenn sjást gjarnan berir að ofan á samfélagsmiðlum að reyna sannfæra aðra um heilsueflingu mataræðisins með sýnilega kviðvöðva að vopni þar sem þeir hrópa sannfærandi gríðarlega flóknar staðhæfingar sem eiga oft ekki við nein rök að styðjast. Oftar en ekki með óáreiðanlegar, úreltar og/eða ‘cherry pick-aðar’ rannsóknir á dýrum sér til stuðnings.“
Þær segja að þó fólk komist í líkamlega útlitslega formið sem það vill þá er svo margt innra með þeim sem er að gerast á meðan.
„Þeir lífsstílssjúkdómar sem að carnivore mataræðið eykur líkurnar á eru aldurstengdir og taka tíma að þróast og eru þetta aðallega ristilkrabbamein og hjarta- og æðasjúkdómar. Það er því ekki þannig að eftir sex mánuði vaknirðu allt í einu með krabbamein og kransæðastíflu en alveg skínandi fína kviðvöðva. Einnig eru þessir þættir allir ósýnilegir sem að þú finnur ekki fyrir á meðan að þeir gerast. Þú finnur ekki fyrir æðunum þínum stíflast hægt og rólega né krabbameini að myndast í ristli.“
„Mikið magn af rauðu kjöti, unnu kjöti, salti og mettaðri fitu eykur líkurnar töluvert á hjarta- og æðasjúkdómum. Mikil neysla á rauðu kjöti ein og sér eykur líkur á ristilkrabbameini og þegar að kemur að unnu kjöti aukast líkur á ristilkrabbameini og magakrabbameini. Það er því góð ástæða fyrir því að næringarráðleggingar mæla ekki með neyslu á rauðu kjöti yfir 500 grömm á viku en það finnast ekki tengsl við verri heilsufarsútkomur við neyslu upp að því magni. Svo eykst hættan á meltingarfærakrabbameinum og hjarta- og æðsjúkdómum þegar magnið er komið yfir 500 g á viku. Í carnivore mataræðinu eru svo einnig matvæli tekin út sem hafa verndandi áhrif gegn þessum sjúkdómum, eins og trefjaríkt korn, ávextir og grænmeti.“
Guðrún Nanna og Dögg segja mataræðinu einnig fylgja hættu á næringarefnaskorti, eins og C-vítamín skorti.
„Hinir háværu áhrifavaldar carnivore mataræðisins eru einnig gríðarlega öflugir talsmenn gegn næringarfræðingum, tala um næringarfræði sem ‘kaótíska’ og segja ráðleggingar næringarfræðinga og Embætti Landlæknis úreltar. Það er því mikilvægt að nefna að umrædd óreiða kemur ekki frá næringarfræðingum heldur frá hinum ómenntuðu ‘sérfræðingum’ sem skipta reglulega um skoðanir og fara úr einum öfgum í aðrar sem verður til þess að fólk heyrir stanslaust mismunandi hluti,“ segja þær.
„Næringarfræðingar eru upp til hópa að reyna eftir fremsta megni að leiðrétta vitleysuna frá þeim sem valda ringulreiðinni og breytast ráðleggingar næringarfræðinga almennt lítið varðandi lýðheilsu.“
Báðar eru þær meistaranemar í næringarfræði. „Hvernig við nærum okkur í dag getur haft mikið að segja um heilsu okkar seinna á lífsleiðinni […] Að lokum er gott að muna að næringarfræði er jú vísindi en ekki skoðun.“
Hægt er að lesa pistilinn í heild sinni hér.