fbpx
Mánudagur 01.júlí 2024
Fókus

Sveinn Hjörtur var orðinn 199 kg þegar hann breytti lífi sínu – „Það er fólk að deyja úr offitu hér á landi“

Fókus
Laugardaginn 29. júní 2024 13:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þúsundþjalasmiðurinn Sveinn Hjörtur Guðfinnsson er í viðtali við vef SÍBS og er þar meðal annars rætt um offituvandann. Sveinn er stjórnarmaður í Samtökum fólks um offitu (SFO) en hann segir vandann vera gífurlegan hér á landi og fordómar gagnvart fólki með offitusjúkdóminn séu jafnframt miklir.

Þegar Sveinn breytti um lífsstíl og fór í hjáveituaðgerð var hann orðinn 199 kg en hann er í eðlilegri þyngd í dag. Hann segist ekki hafa skýringar á því hvers vegna hann varð svona þungur en segist hafa verið stór við fæðingu:

„Ég var stórt barn við fæðingu, eða 22 merkur og 53 sentímetrar. Ég veit ekki hvort það sé ástæða þess að svona fór fyrir mér, hvort þetta hafi verið einhver efnaskiptasjúkdómur. Ég byrjaði eðlilega á brjósti en þurfti strax meira en móðurmjólkina og var fljótlega farinn að borða grauta og þess háttar löngu áður en ungabörn byrja yfirleitt á slíku fæði. Svo var ég bara nokkuð þéttur sem barn og unglingur, en var líka eitthvað í íþróttum, til dæmis í handbolta.“

Sveinn lýsir líka hrikalegu áfalli sem hann varð fyrir í æsku er bróðir hans var myrtur og má leiða líkur að því að þetta áfall hafi átt sinn hlut í óheillaþróuninni:

„…í kjölfar erfiðrar lífsreynslu sem ég varð fyrir þegar ég var tíu ára gamall. Þá missti ég eldri bróður minn með sviplegum hætti. Hann var myrtur á mjög ljótan hátt er hann vann hjá Landhelgisgæslunni. Það breytti allri minni lífssýn að kynnast því svona snemma hvað sorg er, og hvað dauði er. Þetta var árið 1980 og á þeim tíma var ekki haldið eins vel utan um börn sem verða fyrir slíku áfalli og nú er gert. Menn áttu bara að bera harm sinn í hljóði. Mamma blessunin vann þannig aldrei úr sorg sinni og ekki heldur pabbi, sem var varðstjóri í lögreglunni. Við systkinin vorum sex. Við erum fjögur núna og þetta hefur verið djúpt sár á sálinni hjá okkur öllum.“

Stór og mikilúðlegur

Sveinn hefur fengið mörg hlutverk í gegnum tíðina í bíómyndum og sjónvarpsauglýsingum út á sitt mikilúðlega útlit. Hann er hávaxinn, 188 cm á hæð, æfði kraftlyftingar, og var lengi með þá sjálfsmynd að hann væri stór og sterkur maður. En smám saman fór þyngdin úr böndunum og alla leið upp í 199 kíló. Vendipunkturinn var þegar hann ætlaði eitt sinn sem oftar að gefa blóð í Blóðbankanum:

„Það hafði ég gert reglulega um margra ára skeið, nema hvað í þetta skipti mældist blóðþrýstingurinn hjá mér svo hár að hjúkrunarfræðingurinn vildi ekki tappa af mér neinu blóði heldur hvatti mig til að fara beint til heimilislæknis míns og byrja að gera eitthvað í málunum. Heimilislæknirinn fór yfir stöðuna með mér – og þá var ég bara allt í einu kominn af stað í þetta hjáveituaðgerðarferli á maga. Ég tikkaði enda í öll boxin varðandi skilyrðin fyrir að fara í svona aðgerð: Líkamsþyngdarstuðullinn (BMI) var alveg uppi í rjáfri, blóðþrýstingur var hár og sykurinn líka þótt ég væri ekki kominn með sykursýki 2. Ofan á mikla þyngd og offitu var ég kominn með ættgengan sjúkdóm sem er þrenging í mænugöngum og miklir bakverkir. Það var farið að gerast hratt og ég kominn á hækjur og að hluta til í hjólastól. Átti sem sé orðið mjög erfitt með gang. Auk ástandsins á mér var saga um alvarlega sjúkdóma í fjölskyldum mínum, pabbi dó eftir hjartaáfall og mamma úr nýrnasjúkdómi. Ég var svo heppinn að heimilislæknirinn sýndi mér einstakan skilning, gott viðmót og beindi mér áfram á rétta braut í stað þess að segja mér bara að fara út og létta mig, eins og svo margir fá að heyra.“

Fordómar gegn feitum

Í viðtalinu er síðan lýst undirbúningsferlinu undir aðgerðina, lífsstílsbreytingunni og hvað tók við eftir aðgerð. Hjörtur ræðir fordómana sem hann telur ríkja í garð offitusjúklinga. Hann segir nauðsynlegt að taka á vandamálinu sem sjúkdómi en ekki bara segja feitu fólki að borða minna og hreyfa sig meira:

„Við skulum átta okkur á því að við erum að glíma við rosalega fordóma hér á Íslandi gagnvart offitu og fólki með þennan sjúkdóm. Eins og ég segi þá hefði ég aldrei trúað því fyrr en ég kynntist fólkinu í SFO og fór að ræða um þessi mál við þau. Nálgunin hjá svo stórum hópi fólks virðist því miður einkennast af skilningsleysi og fordómum, jafnvel hjá sumum læknum og hjúkrunarfólki inni á spítölunum. Það vantar skilning á því að hjá svo mörgum að offita er sjúkdómur. Það er ekkert hægt að fussa og sveia og segja fólki bara að borða minna og hreyfa sig meira. Fyrir þá sem eiga við offitusjúkdóm að stríða duga þessi ráð ansi skammt, líka börn. Líkt og víða erlendis er offita barna hér á landi mjög alvarlegt vandamál og það fer bara vaxandi. Við höfum þó lækna sem vinna frábæra vinnu með offitu barna, en þeir verða að fá meiri stuðning frá yfirvöldum. Það væri alveg æðislegt ef allt of feitt fólk gæti farið út að hlaupa og þá myndi allt bara lagast. Það er ekki svoleiðis. Þegar offitan er orðin sjúkdómur þá er hún orðin langvinnur sjúkdómur og þá verður að meðhöndla hann sem slíkan.“

Hann segir ennfremur:

„Það er fólk að deyja úr offitu hér á landi, fólk er að fá hjartaáfall vegna offitu, fólk er að verða öryrkjar vegna offitu, börn með offitu verða fyrir ofboðslegu einelti í skólunum og þannig mætti lengi telja allan skaðann sem verður á svo mörgum stöðum á meðan ekkert gerist. Ég er hræddur um að ef yfirvöld og við öll sem samfélag förum ekki að horfast í augu við staðreyndirnar og takast af alvöru á við offitusjúkdóminn, þá munum við ekki ná neinum árangri.“

Þetta stórfróðlega viðtal við Svein Hjört Guðfinnsson má lesa í held hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Kynlífsstellingin sem latar konur elska

Kynlífsstellingin sem latar konur elska
Fókus
Fyrir 3 dögum

Háklassa vændiskona um hvað hún gerir þegar viðskiptavinur er mjög óaðlaðandi

Háklassa vændiskona um hvað hún gerir þegar viðskiptavinur er mjög óaðlaðandi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sara Miller breytir útlitinu – „Hver er þetta?“

Sara Miller breytir útlitinu – „Hver er þetta?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Ragnhildur gefur lítið fyrir lista um boð og bönn á fyrsta stefnumóti – „Troddu þessum lista þú veist hvar“

Ragnhildur gefur lítið fyrir lista um boð og bönn á fyrsta stefnumóti – „Troddu þessum lista þú veist hvar“