Þeir sem vilja nýta sér Strætó til að komast frá höfuðborgarsvæðinu austur til Hafnar í Hornafirði þurfa að greiða hærra gjald fyrir farmiðann en gengur og gerist. Slíkt er skiljanlegt í ljósi þess að um langferð er að ræða.
Verðið á farmiðanum hefur þó vakið athygli, en fyrir ferðina þurfa fullorðnir að greiða 16.590 krónur.
Netverji á samfélagsmiðlinum X vakti athygli á verðinu sem hann segir „bara brjálæði.
„Það er ódýrara að ferðast einn í bíl. Ástandið virðist bara versna ár eftir ár, ótrúlegt að það sé ekki ennþá búið að gera betur fyrir langferðir.“
Björn Teitsson, fyrrverandi formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, bendir á að það sæti furðu að það sé ódýrara að fljúga til Frakklands en að taka strætó til Hafnar í Hornafirði.
„Ódýrara að fljúga til Parísar en að taka rútu til Hafnar í Hornafirði. Getum við ekki gert betur?“
Ódýrara að fljúga til Parísar en að taka rútu til Hafnar í Hornafirði. Getum við ekki gert betur? https://t.co/S98gy1jd6J
— Björn Teitsson (@bjornteits) June 27, 2024
Fargjaldið er þó lægra ef ferðinni er heitið frá höfuðborgarsvæðinu til Akureyrar. Þá kostar farmiðinn 12.540 kr.
Samkvæmt flugleitarsíðunni Dophop er í mörgum tilvikum ódýrara fyrir fólk að skella sér erlendis en að taka langferð með Strætó.
Til London er hægt að komast fyrir 7 þúsund krónur, fyrir tæpar 10 þúsund krónur kemstu til Dyflinn og til Parísar kemst fólk á tæpar 13 þúsund krónur.
16 þúsund krónur skila þér til Berlín eða Osló og fyrir rúmlega 18 þúsund krónur kemstu annað hvort til Hamborgar, eða alla leið til Akureyrar með flugi.
Ódýrasta flugið til New York er á 21.500 og til Boston á 23 þúsund. Fyrir 24 þúsund krónur kemstu svo til Egilsstaða.