fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
Fókus

Leikkona opinberar að dóttir hennar hefur greinst með POTS – En hvað er POTS?

Fókus
Fimmtudaginn 27. júní 2024 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leikkonan Christina Applegate hefur greint frá því að dóttir hennar, Sadie hefur greinst með POTS.

Sadie segir að sjúkdómurinn hafi hjálpað henni að skilja hvað móðir hennar er að glíma við, en Christina Applegate er með MS-sjúkdóminn.

„Ég er með nokkuð sem kallast POTS,“ sagði Sadie í hlaðvarpi móður sinnar.

„Ég veit ekki hvað það er nákvæmlega en það hefur að gera með ósjálfráða taugakerfið og hefur áhrif á hjartað mitt. Þegar ég stend upp þá finn ég fyrir mjög miklum svima, fæturnir missa mátt og mér líður eins og ég sé að fara að missa meðvitund.“

Hvað er POTS?

POTS stendur fyrir postural orthostatic tachycardie syndrome, og samkvæmt Heilsuveru er um að ræða heilkenni sem veldur því að hjartsláttartíðni eykst við það að setjast eða standa upp.

„Þegar fólk sest eða stendur upp þá dregur þyngdaraflið blóðið niður að einhverju leyti. Við það sendir líkaminn taugaboð til heila sem bregst við með því að draga fljótt saman æðar og auka hjartsláttartíðni lítillega til að viðhalda blóðflæði til hjarta og heila. Hjá þeim sem eru greindir með PoTS verður truflun á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins sem veldur því að æðar dragast ekki nægilega saman og hjartsláttartíðni eykst mikið í kjölfarið án þess að það sé blóðþrýstingsfall.“

Einkenni POTS eru einstaklingsbundin. Sumir upplifa væg einkenni á meðan aðrir verða fyrir skerðingu á lífsgæðum. Helstu einkenni eru:

  • Svimi
  • Hjartsláttarónot
  • Yfirlið
  • Truflun við hugsanir, minni og einbeitingu, stundum kallað heilaþoka
  • Skjálfti og aukin svitamyndum
  • Þreyta
  • Höfuðverkur
  • Svefntruflanir
  • Brjóstverkur
  • Slappleiki
  • Grunn og hröð öndunartíðni.

Einkenni geta versnað við hita, eftir máltíð, við litla vökvainntöku, mikla hvíld, við hreyfingu eða þegar tíðarblæðingar hafa átt sér stað. POTS er truflun á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins. Orsök er ekki alltaf þekkt. Stundum þróast heilkennið skyndilega eftir veirusýkingu, áverka eða á meðgöngu. Unglingar þróa stundum með sér POTS en einkenni fara svo minnkandi með tíð og tíma og hverfa að nokkrum árum liðnum.

Stúlkur og konur eru líklegri til að greinast með POTS á árunum 15-50 ára.

Sadie segist hafa fundið fyrir einkennum lengi en læknar hafi þó gert lítið úr áhyggjum hennar. Christina Applegate segist hrygg fyrir hönd dóttur sinnar.

„Ég hata að þetta sé að koma fyrir þig. Ég virkilega hata það. Ég er hrygg. En ég elska þig og ég veit þetta verður í lagi. Ég er til staðar og ég trúi þér. Og takk fyrir að opna þig um þetta og vekja athygli á því.“

Sadie segir að í grunnskóla hafi hún oft lent í því að standa upp og líða eins og hún væri að fara að falla í yfirlið. Kennarar hennar hafi sakað hana um að gera sér upp einkennin til að sleppa við tíma. Hún segir að þessi framkoma hafi skaðað hana á líkama og sál.

Christina viðurkennir að hún hafi líka gert lítið úr einkennum dóttur sinnar, en það hafi verið sökum vanþekkingar. Árið 2021 greindist Christina með MS-sjúkdóminn og áttaði sig á því að sumir sjúkdómar sjást ekkert alltaf með áberandi hætti. Sadie hafi ekki glímt við alvarleg einkenni heima hjá þeim en það stafi líklega af því að einkenni sjúkdóma á borð við POTS og MS séu ýkt við kvíða og álag og birtist þar með minna í örygginu heima.

Sadie segist sömuleiðis skilja móður sína betur í dag.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Leikkona The Notebook með Alzheimers

Leikkona The Notebook með Alzheimers
Fókus
Í gær

Finnst pabbi sinn hafa verið of fljótur að jafna sig eftir fráfall mömmu hennar – Með hverjum gerir allt verra

Finnst pabbi sinn hafa verið of fljótur að jafna sig eftir fráfall mömmu hennar – Með hverjum gerir allt verra