fbpx
Sunnudagur 29.september 2024
Fókus

Erna svaf í sófanum og maðurinn hennar og sonur á bak við læstar dyr – „Maður vissi aldrei hvenær næsta kast yrði“

Fókus
Mánudaginn 24. júní 2024 08:14

Mynd/Pixabay

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móðir, sem hefur barist við kerfið í mörg ár, segir sögu sína og dóttur sinnar í nýjasta þætti hlaðvarpsins Sterk saman. Hún kemur nafnlaus til að vernda hagsmuni dóttur sinnar. Köllum hana Ernu.

Erna eignaðist dóttur sína með manni sem er af erlendu bergi brotinn en hafði búið í langan tíma á Íslandi og kominn með ótímabundið landvistarleyfi. Þau voru ekki í sambúð en samskiptin góð á meðgöngu og dóttir þeirra mjög hænd að föður sínum.

„Þegar hún var tveggja ára framdi hann alvarlegan glæp og fékk langan dóm. Ég passaði samt alltaf að hún vissi hver hann væri með myndum og öðru,“ segir hún.

Eðli málsins samkvæmt er erfitt að útskýra fyrir barni að pabbi sé í fangelsi en Erna gerði það í samráði við sálfræðinga og þroska dóttur sinnar.

Sér eftir að hafa ekki sent dótturina í greiningu

Dóttir Ernu var fjörugt barn og vildi leikskólinn hefja greiningaferli þegar hún var þriggja ára. Erna neitaði því og vildi að hún fengi að byrja með hreint borð í grunnskóla. Aðspurð segist hún sjá eftir þeirri ákvörðun í dag.

Vandamál stúlkunnar byrjuðu fyrir alvöru þegar hún var aðeins sjö ára gömul en þá var í raun strax komið í ljós að hefðbundið skólakerfi hentaði henni ekki.

„Það var komið í ljós að heimavinna gekk einfaldlega ekki upp, það fór allt á hliðina í marga klukkutíma. Hún átti líka mjög erfitt félagslega en á sama tíma mikil félagsvera.“

Tilkynnti sig til Barnaverndar

Þau prófuðu fleiri skóla og það var ekki fyrr en í 8. bekk sem þeim var sagt að hún kynni einfaldlega ekki að vera í skóla. Á þeim tíma var Erna búin að tilkynna sig til barnaverndar og fá bæði skólann og lækni dóttur sinnar til að gera slíkt hið sama, hún fann að hún væri að missa tökin.

„Barnavernd sótti um hjá BUGL og þurfti dóttir mín aðstoð frá bráðateyminu vegna sjálfsvígstilrauna en komst samt sem áður ekki inn á BUGL,“ segir Erna.

Barnavernd bauð upp á úrræði fyrir stúlkuna. Þar voru fimm unglingar og tveir starfsmenn, lágmarks reglur og hún átti að sýna að hún gæti fylgt reglunum.

„Ég sagði mína skoðun á þessu en ekkert annað var í boði. Hún braut reglur frá fyrsta degi.“ Í þessu úrræði mátti ekki stoppa skjólstæðinga ef þeir ætluðu út, ekki taka vímuefnapróf en ekki vera í neyslu.

Þrettán leitarbeiðnir til lögreglunnar

„Hún var 14 ára. Eftir einn og hálfan mánuð fékk ég skýrslu um stöðuna. Það voru 29 tilkynningar til bakvaktar barnaverndar og 13 leitarbeiðnir til lögreglunnar. Ég var líka búin að leita að henni á þessum tíma. Hún fór líka í mikla neyslu á þessum tíma, eins og ég var búin að óttast.“

Inn í allt þetta koma áföll tengd föður stúlkunnar en þegar hún var tíu ára átti að senda hann úr landi og voru þau feðgin búin að kveðjast eftir að hafa tekið upp þráðinn þegar hann losnaði. Hann endaði aftur í fangelsi, í biðstöðu, í tvö ár þar sem hún heimsótti hann reglulega.

„Maður vissi aldrei hvenær næsta kast yrði“

Í dag hefur hún ekki enn komist að hjá BUGL en er í búsetuúrræði þar sem vaktaskipti eru og aldrei færri en tveir á vakt, stundum þrír.

Þegar hún bjó á heimili móður sinnar og stjúpföður, ásamt yngri bróður sínum þurfti að skipuleggja heimilið út í smáatriði.

„Ég svaf í sófanum í stofunni, maðurinn minn og sonur okkar inni í herbergi með læst. Læst inn í forstofu og öll lyf læst inni, eins hnífar. Maður vissi aldrei hvenær næsta kast yrði. Sonur okkar er með áfallastreitu og mikinn aðskilnaðarkvíða. Ég er búin bara og hef misst vinnuna tvisvar útaf því að ég hef ekki geta sinnt neinu. Ofan á allt er bara mikið áfall að geta ekki verið með barnið mitt heima og hugsað um hana.“

Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt