fbpx
Sunnudagur 29.september 2024
Fókus

Elon Musk eignaðist sitt tólfta barn – Flókið fjölskyldutré ríkasta manns í heimi

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Mánudaginn 24. júní 2024 16:00

Elon Musk og Shivon Zilis.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elon Musk er ríkasti maður heims, forstjóri Tesla og Space X og eigandi samfélagsmiðilsins X, áður þekktur sem Twitter.

Einkalíf hans virkar afar flókið, að minnsta kosti út á við, og þá virðist hann hafa manískan áhuga á að fjölga sér. Fyrr í dag greindu miðlar vestanhafs frá því að hann hefði eignast sitt tólfta barn fyrr á árinu, það þriðja með samstarfskonu sinni Shivon Zilis. Þau eignuðust tvíbura árið 2021 en síðasta eignaðist Musk barn með með tónlistarkonunni Grimes árið 2022 en um var að ræða þeirra þriðja barn saman.

Margir hafa gagnrýnt Musk fyrir að halda fæðingu barnsins leyndu en hann hefur vísað þeirri gagnrýni til föðurhúsanna. Fæðing barnsins hafi alls ekki verið leyndarmál, heldur hefði verið „furðulegt“ að birta fréttatilkynningu um fæðinguna.

Eins og fyrr segir er þetta tólfta barn Musk. Nafn þess og kyn hefur ekki verið opinberað.

Flókin fjölskyldusaga Elon Musk

Musk á tvíbura og þríbura með fyrrverandi eiginkonu sinni, Justine Wilson Musk, og þrjú börn, eins og áður segir, með fyrrverandi kærustu sinni, listakonunni Grimes. Hann eignaðist tvíbura árið 2021 með Shivon Zilis sem er háttsettur stjórnandi í einu af fyrirtækjum hans. Hann gekk tvisvar í hjónaband með leikkonunni Tallulah Riley, og skildi tvisvar við hana, og átti í stuttu sambandi við leikkonuna Amber Heard.

Maye og Elon Musk.

Elon Musk, 50 ára, er elstur þriggja systkina, fæddur og uppalin í Suður-Afríku. Hann er í engu sambandi við föður sinn, suður-afríska verkfræðingin Errol Musk. Móðir hans, Maye Musk, er kanadísk, fyrrverandi fyrirsæta og næringarfræðingur.

Foreldrar hans skildu árið 1979 og sá Maye nær alfarið um uppeldi systkinahópsins eftir það. Þegar Elon var sautján ára flutti hann, systkini hans og móðir þeirra til Kanada. Hann flutti seinna til Bandaríkjanna, þar sem hann er búsettur í dag.

Elon Musk – Justine Wilson.

Justine Wilson (2000-2008)

Elon kynntist Justine Wilson þegar þau bæði stunduðu nám við háskólann í Ontario í Kanada. Þau giftust árið 2000 en skildu átta árum síðar. Árið 2010 skrifaði Justine pistil í Marie Claire sem bar yfirskriftina „Ég var eiginkona frumkvöðuls: Innlit í subbulegasta skilnað Ameríku“.

Elon og tvíburadrengirnir.

Í pistlinum sagði hún Elon hafa hvíslað í eyra hennar á meðan þau dönsuðu í brúðkaupsveislunni: „Ég er alfa í þessu hjónabandi.“

Hún sagði að hún hefði ekki pælt mikið í þessu en með tímanum hefði hún komist að því hversu alvara honum var með þetta.

Þau eignuðust fyrsta barn sitt árið 2002, soninn Nevada Alexander. Hann lést vöggudauða aðeins tíu vikna gamall.

Elon og synirnir Kai, Saxon og Damian.

Hjónin eignuðust síðar fimm börn með glasafrjóvgun. Tvíburadrengina Griffin og Xavier Musk árið 2004, og þríburadrengina Kai, Saxon og Damian Musk árið 2006. Þau skildu árið 2008 og deila forræði sona sinna.

Elon Musk og Tallulah. Mynd/Getty

Tallulah Riley (2010-2012, 2013-2016)

Elon og leikkonan Tallulah Riley giftust árið 2010. „Þetta gerðist allt svo hratt. Við trúlofuðumst tveimur vikum eftir að við kynntumst,“ sagði leikkonan við CBS.

Þau skildu árið 2012 en giftu sig aftur ári seinna en skildu svo að lokum aftur árið 2016.

Amber Heard og Elon Musk.

Amber Heard (2017)

Auðkýfingurinn og leikkonan opinberuðu samband sitt snemma árið 2017, ári eftir að hún sótti um skilnað við leikarann Johnny Depp.

Nokkrum mánuðum síðar hættu þau saman.

„Ég var að hætta með kærustunni minni. Ég var mjög ástfanginn og þetta var mjög sárt. Eða hún reyndar hætti frekar með mér en ég henni,“ sagði Elon á sínum tíma við Rolling Stone.

Grimes, Elon Musk og X Æ A-Xii

Grimes (2018-2022)

Fjöllistakonan Grimes og Elon Musk opinberuðu samband sitt á Met Gala hátíðinni í maí 2018 og hafa þau verið sundur og saman síðan þá.

Í viðtali við Vanity Fair árið 2022 sagði söngkonan að hún og Elon búa í „sitthvoru húsinu“ og væru „bestu vinir.“ Eftir að viðtalið kom út skrifaði hún á samfélagsmiðla: „Við höfum hætt aftur saman, en hann er besti vinur minn og ástin í lífi mínu, en líf mitt og listin eru tileinkuð „The Mission“ núna.“

Elon og Grimes eignuðust soninn X Æ A-Xii Musk árið 2020. Í mars greindu þau frá því að þau hefðu eignast dóttur í leyni með aðstoð staðgöngumóður, hún fékk nafnið Exa Dark Sideræl Musk.

Elon Musk staðfesti á X, áður þekkt sem Twitter, í september í fyrra að þau væru búin að eignast þriðja barnið saman. Barnið fékk nafnið Tau Techno Mechanicus.

Shivon Zilis.

Shivon Zilis (2021, 2024)

Í júlí árið 2022 var greint frá því að Elon hafi eignast tvíbura árið 2021 með samstarfskonu í einu af fyrirtækjum hans.

Shivon Zilis er háttsettur stjórnandi í fyrirtækinu Neurolink en markmið þess er að koma fyrir tölvuflögu í heila mannfólks og tengja einstaklinga þannig við internetið.

Zilis, sem er 38 ára og frá Kanada, hóf að starfa fyrir fyrirtæki Musk, OpenAI, árið 2016. Áður hafði hún starfað fyrir fjárfestingasjóð sem kom henni á lista Forbes yfir eftirtektarvert fólk undir þrítugu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt