fbpx
Sunnudagur 29.september 2024
Fókus

Fullyrðing Stefáns um ágreining tveggja hópa vekur athygli – „Sameiginlegt… hm, er það svo já?“

Fókus
Sunnudaginn 23. júní 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Er íþróttahreyfingin að keppa við menningarmálaflokkinn um fjárveitingar? Stefán Pálsson telur marga haldna þeim misskilningi og bregðist fólk úr báðum hópum illa við því þegar hinn hópurinn fær aukin framlög frá hinu opinbera.

Sagnfræðingurinn og varaborgarfulltrúinn Stefán Pálsson segir það hafa verið fyrirséð þegar tilkynnt var um fjölgun listamannalauna, að viðbrögðin frá íþróttahreyfingunni yrðu neikvæð. Alveg eins og viðbrögð listavina séu neikvæð þegar tilkynnt er um aukin útgjöld í íþróttastarf. Þessir tveir hópar, sem eigi svo margt sameiginlegt, upplifi það sem svo að þeir séu að bítast um sömu hituna.

Stefán skrifar á Facebook:

„Sé að fréttirnar af fjölgun listamannalauna kalla fram fyrirsjáanleg viðbrögð nokkurra samfélagsmiðlavina minna úr íþróttahreyfingunni sem fara strax í samanburð við framlög til íþróttamála. Þetta virkar í báðar áttir. Í hvert sinn sem tilkynnt er um útgjöld til íþróttastarfs eða -mannvirkja þá er eins verið sé að rífa hjartað úr listvinum. Það er magnað hvað þessir tveir hópar – sem eiga svo margt sameiginlegt í raun – hafa lengi verið sannfærðir um að þeir séu að bítast um sömu krónurnar og hagur annars hljóti að vera tap hins.“

Færsla Stefáns hefur fengið nokkur viðbrögð þar sem margir taka undir með honum, en að sama bragði margir ósammála.

Rithöfundurinn Illugi Jökulsson biður um dæmi um listvini sem bregðist við framlögum til íþrótta eins og það sé „verið að rífa úr þeim hjartað“. Sjálfur segist hann ekkert kannast við slíkt. Þessu svaraði Stefán:

„Uhh, nei. Ég er ekki að fara að tagga eitthvað fólk útí bæ til að draga það inní netþras á þessum vegg óumbeðið. Af því að ég hef snefil af mannasiðum á netinu“

Illugi sagðist aldrei hafa beðið Stefán um að tagga nokkurn. Honum þætti bara forvitnilegt að fá að sjá dæmi um það sem Stefán lýsir.

Gagnrýnandinn Jón Viðar Jónsson gerði athugasemd við þá fullyrðingu að íþróttahreyfingin og listvinir eigi margt sameiginlegt.

„Sameiginlegt… hm, er það svo já?“

Tónlistarmaðurinn og fyrrum stjórnmálamaðurinn Óttarr Proppé taldi sig vita lausnina. „Ef peningar væru bannaðir væri ekki þessi úlfúð og vesen“.

Fyrrverandi aðalritari Pírata, reikniverkfræðingurinn og læknaneminn Bjartur Thorlacius, segir þetta skarplega athugað hjá Stefáni. Íþróttaviðburðir og listsýningar eru í samkeppni um mætingu, bækur og útsendingar frá keppnum í samkeppni um kaup, áskriftir og athygli og síðast en ekki síst eigi þessir málaflokkar í samkeppni um fjárveitingar frá Alþingi.

Aðrir benda á að það séu nú fjölmörg dæmi um listamenn sem jafnframt hafa áhuga á íþróttum og eins sé íþróttafólki gjarnan margt til lista lagt. Báðir málaflokkar séu mikilvægir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt