fbpx
Miðvikudagur 26.júní 2024
Fókus

Segir heimasíðu fangelsismálastofnunar fegra of mikið – „Ekki eins og það á að vera“

Fókus
Þriðjudaginn 18. júní 2024 08:27

Selma Dögg Björgvinsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Selma Dögg Björgvinsdóttir er móðir, kennari, fyrrverandi lögreglumaður og knattspyrnukona sem brennur fyrir málefnum jaðarsettra einstaklinga. Hún er nýjasti viðmælandi hlaðvarpsins Sterk saman.

Selma flutti til Bandaríkjanna til að spila háskólafótbolta og lærði þar afbrotafræði í eitt ár. „Ég sá að réttarkerfið í Bandaríkjunum er auðvitað allt öðruvísi en hér heima svo mér fannst liggja beinast við að fara í lögreglufræði þegar ég kom heim.“

Hún skrifaði BA ritgerð um afglæpavæðingu neysluskammta og viðhorf lögreglumanna til þess í þeirri rannsókn. „Ég þurfti að senda spurningalista á alla lögreglumenn og það sem kom mér mest á óvart og olli mér vonbrigðum var hversu stór hluti var á móti afglæpavæðingu án þess að hafa kynnt sér málið og frumvarpið sem hafði verið lagt fyrir á þeim tíma.“

Selma þurfti að ýta oft og mikið á eftir svörum en á sama tíma var annar lögreglumaður, varðstjóri, að gera könnun og fékk sá miklu betri svörun. „Ég var ný í lögreglunni og enn í námi svo það gæti verið skýringin,“ segir hún og bætir við að hún hafi orðið vör við að margir innan lögreglunnar vera á móti afglæpavæðingu og séu þreyttir á þessum hópi fólks og nenni hreinlega ekki að reyna að skilja vandann.

„Ég vil samt að það komi fram að það er fullt af flottu fólki innan lögreglunnar, þó það þurfi margt að breytast.“

Foreldrar í fangelsi

Í kjölfar starfsins í lögreglunni fór Selma í mastersnám í uppeldis- og menntunarfræði. Hún skrifaði mastersritgerð um fangelsaða foreldra og stuðning við þá. Rannsóknin snerist um það hvernig stuðning fangelsismálastofnun veittu foreldrum í fangelsi á Íslandi.

„Ég fékk Guðmund Inga, í Afstöðu, með mér í lið til þess að ná til fyrrverandi fanga sem eru foreldrar,“ segir hún.

Þegar Guðmundur talaði við tíu fyrrverandi fanga voru allir tilbúnir að taka þátt en þegar hún sendi þeim svo kynningarbréf og tók fram að hún væri fyrrverandi lögreglumaður fékk hún engin svör og reyndist erfitt að fá viðmælendur.

„Ég fékk á endanum fimm flotta viðmælendur í viðtöl auk fimm fagaðila, þar á meðal var Páll Winkel, fangelsismálastjóri.“

Það sem kom í ljós er að það er enginn stuðningur við foreldra í fangelsi á Íslandi. Það var einu sinni í lögum að allir sem voru á leið í afplánun fengu viðtal þar sem metin var þörf á stuðningi og öðru en þau lög eru ekki í gildi í dag og nú fá aðeins þeir sem taldir eru þurfa þessa greiningu sem fá þetta viðtal. Í þessari greiningu er aftur á móti ekkert talað um fjölskylduna eða tengsl við börn. Við erum eina landið á Norðurlöndum sem ekki sinnir þessum hluta.

„Oft er talað um börn fanga sem þöglu þolendurna,“ segir hún.

„Ég spurði Pál Winkel hvenær planið væri að ráða inn barna- eða fjölskyldufulltrúa inn í fangelsin en svarið var að það væri ekki í sjónmáli vegna skorts á fjármagni.“

Niðurstöður rannsóknarinnar eru sláandi og sýna svart á hvítu hversu illa við stöndum í samanburði við önnur lönd og hversu mikið vantar upp á í þessum efnum.

„Heimasíða fangelsismálastofnunar fegrar allt mikið og segir ýmislegt í boði fyrir fanga sem er svo ekki eins og það á að vera.“

Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt