fbpx
Föstudagur 27.september 2024
Fókus

Brynjar segir að borgin vanræki þetta hverfi og að staðan sé hrikaleg – „Skammarlegt fyrir okkur öll“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 18. júní 2024 10:59

Brynjar Karl. Mynd/YouTube/Pexels

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Karl Sigurðsson frumkvöðull og körfuboltaþjálfari segir Breiðholtið sé orðið að „gettói“ inni í Reykjavík og að yfirvöld geri ekkert í málunum. Brynjar, sem er nýjasti gesturinn í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segir risastóran hluta barna og unglinga í Breiðholtinu ekki tala íslensku og búa við fátækt. Heilt hverfi í Reykjavík hafi orðið út undan en í raun sé öllum drullusama.

„Jaðarinn á Garðabæ og jaðarinn á Breiðholti er fimm mínútna akstur. Og það er meira að segja ef þú lendir á rauðu ljósi. En þetta eru bara tvö ólík lönd. Á þessum nokkurra mínútna kafla breytist heimurinn. Þegar ég var að þjálfa í Garðabæ var stúkan full af foreldrum og allt fyrir krakkana gert. En í Breiðholtinu er bara öllum sama og ástandið er orðið alveg galið. Það er eins og maður sé kominn allavega þrjátíu árum aftur í tímann á þessari fimm mínútna keyrslu. Við erum svo mikið að reyna að selja fólki að við séum gott og frábært fólk, en það er minna um raunverulegar aðgerðir heldur en dyggðaskreytingar. Staðan í Breiðholti er ótrúleg, þar sem risastór hópur krakka talar ekki íslensku. Sums staðar er hlutfallið komið upp í 90 prósent af krökkum sem tala ekki íslensku. Fólkið í Garðabæ og annars staðar í Reykjavík er alveg úr tengslum við hverfi í sinni eigin borg. Stjórnvöld nota svo bara meðaltalstölur til að reyna að selja fólki að allt sé í lagi, en í raun og veru er öllum drullusama,“ segir hann.

Ólst sjálfur upp í Breiðholtinu

Brynjar ólst sjálfur upp í Breiðholtinu og segir stöðuna þar aldrei hafa verið sérlega góða, en nú hraki stöðu hverfisins hraðar en nokkru sinni.

„Breiðholtið hefur alltaf haft tilhneigingu til að vera vanrækt hverfi í Reykjavík. Alveg síðan ég ólst upp þar sjálfur. En þetta er komið á alveg nýtt stig núna. Það að inni í miðri Reykjavík sé hverfi sem er algjörlega vanrækt og börn fá ekki sömu tækifæri á að auka virði sitt er skammarlegt fyrir okkur öll. Það er ekki hægt að sætta sig við að þeir sem stjórna hendi alltaf vandanum bara á næstu stjórn og næstu kynslóð. Fjölmargir iðkendur eiga ekki fyrir búningi, æfingagjöldum, eða kostnaði við að fara út á land. Fæstir krakkarnir skilja almennilega íslensku og tungumálakennslan er algjörlega í molum. Það eru krakkar þarna sem segjast verða fyrir ofbeldi heima fyrir, en enginn gerir neitt. Svo þegar einhver sýnir þessum krökkum raunverulegan áhuga þarf viðkomandi að vera með leiðindi og hótanir bara til þess að fá samtal við yfirvöld,“ segir Brynjar Karl, sem er harðorður í garð borgaryfirvalda.

„Borgaryfirvöld hafa engan áhuga á þessu, nema í besta falli rétt fyrir kosningar, þegar reynt er að framreiða einhverja tölfræði sem breiðir yfir stöðuna. Ég hef átt ömurlegustu fundi ferilsins með fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur, þar sem ég upplifði algjört áhugaleysi og að stjórnsýsla borgarinnar sé algjörlega í molum. Það er ömurlegt að enginn sýni þessu áhuga af því að í Breiðholtinu er valdastéttin og elítan ekki staðsett og þar er kosningaþátttaka lág.”

Þjálfar stelpur eins og stráka

Í þættinum ræðir Brynjar líka um umræðuna um sig og þjálfunaraðferðir sínar. Hann segir flesta þá sem hafa mjög sterkar neikvæðar skoðanir á honum ekki hafa kynnt sér hvað hann er raunverulega að gera.

„Í hnotskurn er það sem ég er að gera að þjálfa stelpur eins og ég hef alltaf þjálfað stráka. Hræsnin og tvískinnungurinn er hrópandi. Þegar ég þjálfa stráka á þennan hátt fæ ég bara hrós og fólki finnst það sem ég er að gera æðislegt. En um leið og þjálfunin snýr að stelpum verður allt vitlaust. Og hópurinn sem hefur sterkustu neikvæðu skoðanirnar á því sem ég er að gera er sami hópur og segir að það sé enginn munur á kynjunum. Það er alveg galið að hópurinn sem segist mest vera [hliðhollur] feminískri baráttu rís mest upp á afturlappirnar þegar það er verið að valdefla stelpur. Líklega er hluti af því vegna þess að ég neita að fórnarlambsvæða leikmennina mína og set ábyrgð á þær og meðhöndla þær af virðingu. Ég neita að tipla á tánum í kringum ungar stelpur bara af því að þær eru stelpur. Þetta eru svo flottir einstaklingar sem þola það mjög vel að takast á við mótlæti og láta valdefla sig. Flestir sem þjálfa ungar stelpur þjálfa þær allt öðruvísi en stráka og meðhöndla þær jafnvel eins og minni máttar, sem er þveröfugt við valdeflingu.”

Hægt er að nálgast viðtalið við Brynjar Karl og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Lífið breyttist eftir að vinkona Elvu drukknaði í Bláa lóninu – „Það var ekki áfallahjálp árið 1997“

Lífið breyttist eftir að vinkona Elvu drukknaði í Bláa lóninu – „Það var ekki áfallahjálp árið 1997“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Önnur kona stígur fram vegna Diddy – Lýsir hrottafenginni nauðgun sem var „tekin upp og sýnd sem klám“

Önnur kona stígur fram vegna Diddy – Lýsir hrottafenginni nauðgun sem var „tekin upp og sýnd sem klám“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Erfiðu tímarnir gera okkur betri í því að vera hjón“

„Erfiðu tímarnir gera okkur betri í því að vera hjón“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gummi Emil tjáir sig nánar um málið – „Mikilvægt að hafa fagfólk með sér, ekki einhverja rugludalla“

Gummi Emil tjáir sig nánar um málið – „Mikilvægt að hafa fagfólk með sér, ekki einhverja rugludalla“