fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Að bera litinn

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 15. júní 2024 08:30

Skjáskot-Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í dag klukkan 9 að íslenskum tíma hefst árlegt sjónarspil í miðborg Lundúna sem Bretar kalla á sínu móðurmáli Trooping the Colour sem í ónákvæmri þýðingu má til að mynda kalla Að bera litinn. Í sem stystu máli má segja að um sé að ræða hersýningu og skrúðgöngu sem haldin eru í júní ár hvert til að minnast afmælis þjóðhöfðingjans, hvenær svo sem viðkomandi á afmæli en núverandi þjóðhöfðingi, Karl III konungur, á afmæli í nóvember sem þykir ekki heppilegur tími fyrir slíkan viðburð í Bretlandi.

Um 1.500 hermenn og 200 hestar taka þátt í ár auk 400 tónlistarmanna sem að minnsta kosti sumir hverjir eru hermenn. Viðburðurinn fer yfirleitt fram með svipuðum hætti ár hvert. Í meginatriðum byrjar hann á því að hluti hermannanna, klæddir í viðhafnarbúninga, fylgja þjóðhöfðingjanum í skrúðgöngu, margir hverjir á hestum, frá Buckinghamhöll stutta leið að útisvæði sem heitir Horse Guards Parade en það er inn af götunni Whitehall en við þá götu og í næsta nágrenni hennar eru flestar helstu stjórnarstofnanir breska ríkisins.

Fáninn borinn

Þegar á leiðarenda er komið er þjóðhöfðingjanum heilsað að hermannasið og skotið er úr 41 byssu honum til heiðurs. Að því loknu skoðar (e. inspects) þjóðhöfðinginn hermennina með hefbundnum hætti með því að ganga eftir röð sem þeir stilla sér upp í. Því næst spilar hljómsveit fótgönguliða tónlist sem er hugsuð sem forleikur að því að sú hersveit sem á að bera fána sinnar sveitar, sín á milli, geri það. Fánar hersveitana eru kallaðir „The Colour“, sem á íslensku myndi vart vera kallað annað en Liturinn, og ber sveitin fána sinn með ákveðnum og formlegum hætti og gerir það hægt og tignarlega en það er kallað „Trooping“.

Allt fer þetta fram með fyrir fram æfðum hætti og þung áhersla er lögð á að hermennirnir séu alfarið í takti hver við annan og fylgi skipunum um næstu skref, sem tiltekinn herforingi kallar yfir hópinn með reglulegum hætti, allir sem einn á nákvæmlega sama tíma.

Viðkomandi hersveit marserar síðan með fánann í forgrunni framhjá þjóðhöfðingjanum, sem heilsar fánanum að hermannasið, og í kjölfarið fylgir stórskotaliðssveit og sú hersveit sem fylgir þjóðhöfðingjanum frá og til Buckinghamhallar. Því næst er þjóðhöfðingjanum fylgt aftur til hallarinnar í skrúðgöngu og endar viðburðurinn á því að hann kemur út á svalir hennar ásamt fjölskyldu sinni á meðan herþotur fljúga yfir.

Löng saga

Í Bretlandi er þjóðhöfðinginn, sem er um leið handhafi krúnunnar og því konungur eða drottning, æðsti yfirmaður hersins og gegnir ýmsum tignarstöðum innan hans. Því þykir eðlilegt að herinn hylli með þessum hætti sinn æðsta yfirmann sem hermenn sverja hollustueið við inngöngu í herinn. Þessi staða þjóðhöfðingjans er þó aðeins formlegs eðlis.

Elstu heimildir um þennan viðburð, Trooping the Colour, eru frá 17. öld en hann hefur verið haldinn árlega, með nokkrum undantekningum þó, síðan árið 1760, þegar Georg III var konungur.

Liturinn eða réttara sagt fáninn sem viðkomandi hersveit ber fyrir þjóðhöfðingjann í Trooping the Colour samanstendur af merki sveitarinnar og lituðum grunni og því er fáninn yfirleitt kallaður þessu nafni – The Colour. Það að hver hersveit eigi sinn fána á rætur sínar að rekja til þeirra tíma þar sem slíkir fánar voru notaðir til að hermenn gætu áttað sig á staðsetningu hersveita sinna á vígvöllum. Með tilkomu nútímatækni í hernaði eru fánarnir óþarfir sem staðsetningartæki og gegna því aðeins viðhafnarhlutverki í dag.

Ofurstinn veikur

Það eru fimm tilteknar hersveitir breska landhersins sem skipta því á milli sín að bera fána sinn með viðhöfn í Trooping the Colour, ein sveit á hverju ári. Þær tilheyra allar herdeild sem ber nafnið Household Division en heimasvæði hennar er London og nágrenni. Hersveitinar eru allar sveitir fótgönguliða en sú sveit sem mun bera fána sinn með viðhöfn fyrir framan Karl konung í ár ber heitið Irish Guards sem kalla mætti á íslensku írsku varðliðanna eða írsku fótgönguliðanna. Meðlimir sveitarinnar koma frá Norður-Írlandi eða eru af írskum uppruna, en frá Stóra-Bretlandi. Einnig mun eitthvað vera um að írskir ríkisborgarar gangi í sveitina. Af því tilefni mun tónlist sem leikin verður hafa yfir sér írskan blæ.

Trooping the Colour fer alltaf fram á laugardegi í júní. Síðustu tvo laugardaga fyrir aðalviðburðinn fer fram skrúðganga sömu leið með þátttöku færri hermanna þó. Síðan ber viðkomandi hersveit fána sinn með sama hætti frammi fyrir fyrirmenni. Í fyrra skiptið er um að ræða yfirhershöfðingja Household Division herdeildarinnar en í það seinna er fáninn borinn fyrir heiðursofursta viðkomandi hersveitar. Þessir minni viðburðir eru hugsaðir sem æfing fyrir aðalviðburðinn sjálfan þegar fáninn er borinn frammi fyrir konunginum sem er yfirofursti allra hersveitanna fimm sem skipta Trooping of the Colour með sér. Hershöfðinginn, heiðursofurstinn og síðan konungurinn heilsa allir fána sveitarinnar að hermannasið.

Heiðursofursti írsku varðliðanna er Katrín prinsessa af Wales. Vegna veikinda sinna gat hún ekki verið viðstödd viðburðinn síðastliðinn laugardag. Hún sendi sveitinni bréf með afsökunarbeiðni þar sem hún skrifaði meðal annars að það væri mikill heiður að vera ofursti sveitarinnar og að hún vonist til að geta fljótlega verið fulltrúi sveitarinnar á opinberum vettvangi auk þess óskaði prinsessan sveitinni góðs gengis í dag.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af Trooping the Colour á síðasta ári og hér, hér og hér má lesa meira um þetta árlega sjónarspil.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því
Fókus
Fyrir 4 dögum

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar