Leikkonan Teri Spelling hefur verið á miklu flakki síðan hún skildi við eiginmann sinn, Dean McDermott. Hún endaði í húsnæðishrakningum og bjó um tíma í hjólhýsi með börnum sínum fimm, áður en hún flutti í leiguhúsnæði fyrir sjö mánuðum síðan. Nú er hún aftur farin á flakk og hefur rýmt leiguhúsnæðið sem er staðsett í glæsilega úthverfinu Woodland Hills í Los Angeles. Nágrannar segja þó að leikkonan sé hreinlega að forða sér eftir að hafa rústað húsnæðinu, sem kostaði hana litlar 2 milljónir á mánuði.
Daily Mail greinir frá því að nágrönnum hafi misboðið umgengni leikkonunnar. Fyrir utan húsnæðið megi sjá húsgögn, sófa og slíkt sem eru bæði rifin og skítug. Leikkonan lét bera húsgögnin út úr húsnæðinu, koma fyrir við götuna þar sem þau munu liggja eins og hráviði þar til sorphirðan kemur á svæðið. Hún hafi eins skilið eftir smámuni á borð við DVD-diska, leikföng, gæludýrabúr og annað. Nágrannar segja ástandið að innan ekkert skárra.
„Við getum orðað það þannig að ég stórlega efa að hún fái trygginguna sína til baka,“ sagði einn nágranni. „Það er pissulykt út um allt, á sófapullum og á gólfinu innandyra. Það eru skemmdir á veggjunum eftir guð má vita hvað. Húsið er algjörlega í rúst. Sjáið bara stóra gáminn sem þurfti að fá hingað. Það er búið að fylla hann nokkrum sinnum síðan hún flutti út í byrjun mánaðar.“
Spelling á mikið af gæludýrum. Svo mikið að fyrrum maður hennar segir að það hafi komið upp á milli þeirra í hjónabandinu og orðið til þess að þau gátu ekki lengur deilt svefnherbergi. Dýrin fá að sofa upp í rúminu hennar. Hún á meðal annars grís, kjúkling og nokkra hunda.
Spelling lagði fram tæpa milljón í tryggingu og nágranni segist efa að hún geti fengið krónu af þessari tryggingu til baka. Líklega dugi tryggingin skammt til að bæta það tjón sem leikkonan hafi valdið á eigninni. Tæpar tvær vikur eru síðan Spelling rýmdi eignina og vinnur heilt teymi manna enn að því að koma eigninni aftur í leiguhæft ástand.
Spelling hefur undanfarið látið að því liggja að hún sé aftur kominn í húsnæðishrakningar og gisti nú annað hvort á ódýrum hótelum eða í hjólhýsi. Heimildir herma þó að það sé ekki sökum þess að hún geti ekki leigt eða keypt sér húsnæði. Hún sé hreinlega flækingur inn að beini. Hún hafi jafnvel viðurkennt það í endurminningum sínum sem komu út árið 2013. Þar segist hún aldrei hafa náð að festa rætur, hún sé alltaf að flytja.
Nánar má kynna sér málið hjá DailyMail sem birtir myndir sem sýna viðskilnaðinn.